Margir hafa viljað rekja mikla verðhækkun á íbúðarhúsnæði í Reykjavík, sér í lagi í miðborginni, til umsvifa GAMMA í íbúðakaupum. Á þessi gagnrýni kannski að einhverju leyti rétt á sér? „Við teljum hana óverðskuldaða,“ segir Valdimar.

Margir hafa viljað rekja mikla verðhækkun á íbúðarhúsnæði í Reykjavík, sér í lagi í miðborginni, til umsvifa GAMMA í íbúðakaupum. Á þessi gagnrýni kannski að einhverju leyti rétt á sér? „Við teljum hana óverðskuldaða,“ segir Valdimar. „Við teljum það gleymast í þessari umræðu að erlendum ferðamönnum fjölgaði hér margfalt á þeim tíma sem við keyptum þetta húsnæði. Á meðan það var ekki nægilegt rými af hótelherbergjum til þess að hýsa þá sem hingað komu, þá tók Airbnb við erlendum ferðamönnum. Talið var að 4.000 íbúðir miðsvæðis í Reykjavík væru í leigu til erlendra ferðamanna. Þar var verið að taka íbúðir af íslenska markaðnum og í raun setja þær á erlendan markað. Þannig minnkaði framboð á meðan eftirspurnin var að aukast. Við erum hins vegar að kaupa íbúðir og leigja þær til Íslendinga, sem breytir ekki framboði af íbúðum á íslenska markaðnum.“

Þannig megi frekar rekja hækkandi fasteignaverð til erlendra ferðamanna en kaupa GAMMA á íbúðum. „Þegar við vorum að byrja þá vorum við kannski með 300 íbúðir, innan við 10% af Airbnb-íbúðunum. Núna erum við með samtals 1.300 íbúðir og stækkunin fór einkum fram með kaupum á tveimur stórum fasteignasöfnum en ekki með því að kaupa á almennum fasteignamarkaði.“

Valdimar segist átta sig á að það þurfi að finna sökudólg. „En ég tel að það sé miklu afdrifaríkara fyrir fasteignaverðið að það séu teknar íbúðir af markaðnum og leigðar til erlendra ferðamanna, heldur en það séu keyptar íbúðir sem eru svo leigðar til Íslendinga. Fasteignaverð hefði líklega ekki hækkað svona mikið ef ferðamannafjöldinn væri sá sami í dag og hann var fyrir tíu árum.“