„Þjóðhagsráð var tilraun til þess að fjalla um þessi mál í sáttafarvegi en það er engin sátt,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, formaður Alþýðusambands Íslands. ASÍ sendi frá sér tilkynningu eftir fund miðstjórnar sambandsins í gær þess efnis að sambandið tæki ekki sæti í Þjóðhagsráði.
Ákvörðun um stofnun Þjóðhagsráðs var tekin árið 2015, m.a. að frumkvæði ASÍ. „Við sáum þetta fyrir okkur sem grundvöll að því að skapa sátt í samfélaginu um jafnvægi á milli efnahagslegs veruleika og félagslegs stöðugleika,“ segir Gylfi.
„Við eigum í grundvallardeilu um skiptingu verðmæta, forgangsröðun ríkisfjármála, tekjujöfnun í gegnum skattkerfi og tekjuöflun til þess að geta þá veitt þá þjónustu sem við teljum að landsmenn hafi þörf fyrir og eigi rétt á. Það verður ekki rætt í einhverju huggulegu samtali í Þjóðhagsráði, það gerum við í tengslum við undirbúning að næstu kjarasamningum.“