Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Aflagjöld Faxaflóahafna sf. í fyrra voru allnokkuð undir því sem áætlað hafði verið. Þetta kemur fram í ársreikningi hafnanna sem var kynntur og samþykktur á síðasta stjórnarfundi.
„Þar vegur þyngst að aflamagn varð nokkru minna en árið 2016, verkfall sjómanna þýddi að nánast enginn afli barst á land í janúarmánuði. Að auki er ljóst að styrking íslensku krónunnar og lágt fiskverð á mörkuðum dró úr tekjum,“ segir m.a. í greinargerð Gísla Gíslasonar hafnarstjóra um ársreikninginn.
Alls fengu Faxaflóahafnir 147,7 milljónir í aflagjöld árið 2016 á móti 228 milljónum árið 2016. Aflagjöld voru hæst í Gömlu höfninni, enda er meginhlutanum af bolfiski sem berst til hafnarinnar landað þar.
Í fyrra var unnið að endurnýjun viðlegubakka á Norðurgarði, við frystihús HB Granda, og var það stærsta einstaka verkefnið í Gömlu höfninni. Unnið var að endurhönnun á hluta rafdreifikerfis hafnarinnar, unnið við endurnýjun hluta neðstu hæðar Bakkaskemmu, endurbætur gerðar á Grandagarði og bætt við göngubryggjur í Vesturbugt.
Niðurstaðan viðunandi
Stjórn Faxaflóahafna telur niðurstöðu ársreikningsins viðunandi enda var afkoman betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.Ófyrirséð framlag vegna lífeyrismála hafði aftur á móti mikil áhrif á niðurstöðu ársins. Eingreiðsla vegna lífeyrisauka að fjárhæð 322,3 milljónir var greidd í samræmi við breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Var greiðslan gjaldfærð að fullu í fyrra þótt heimilt hafi verið að gjaldfæra framlagið á 30 árum.
Rekstrartekjur Faxaflóahafna sf. árið 2017 voru 3.692,1 milljón króna sem er 8,2% hækkun reglulegra tekna á milli áranna 2016 og 2017. Hækkunin á milli ára nemur 282,6 milljónum.
Þeir megintekjuliðir ársins sem eru yfir því sem áætlað var eru vörugjöld, þ.m.t. tekjur vegna siglingaverndar, skipagjöld og hafnarþjónusta, að því er fram kemur í greinargerð Gísla Gíslasonar.
Hækkun vörugjalda er um 10,5% á milli ára og skýrist af auknum innflutningi. Tekjuauki af vörugjöldum skilaði hlutfallslega samsvarandi hækkun tekna af siglingavernd. Skipagjöld og hafnaþjónusta skiluðu samanlagt 998,8 mkr. í tekjur en gert var samanlagt ráð fyrir 833,6 mkr. Tekjur umfram áætlun þessara liða eru því 165,2 mkr. Meginskýring þess er m.a. að með komu stærri skipa eykst sú þjónusta sem veita þarf en að auki er hluti tekna miðaður við brúttótonn skipa og á milli áranna 2016 og 2017 varð veruleg aukning í stærðum skipa sem komu til hafnar.
Þá nefnir Gísli að nokkuð hafi verið rætt um hlut skemmtiferðaskipa í tekjum Faxaflóahafna sf. Þær voru á árinu 2017 alls 365,7 milljónir brúttó eða sem nemur 9,9% heildartekna.
Kostnaður á móti þeim tekjum er m.a. launakostnaður hafnarstarfsmanna, kostnaður við dráttarbáta og öryggisgæslu.