Helga Guðbjörg Brynjólfsdóttir fæddist 1. október 1926 að Steinsstöðum í Öxnadal. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 6. mars 2018.
Foreldrar hennar voru Laufey Sumarrós Jóhannesdóttir, f. 4. maí 1892, d. 15. janúar 1950, og Brynjólfur Sveinsson, f. 17. júní 1888, d. 25. júlí 1980.
Systkini hennar eru Stefanía, f. 1911, d. 2007, Sveinbjörg, f. 1912, d. 1976, Árni, f. 1913, d. 1932, Ingimar, f. 1914, d. 1999, Anna, f. 1916, d. 2007, Geirþrúður, f. 1918, d. 2009, Björn, f. 1920, d. 2001, Gunnar, f. 1921, d. 1984, Þórdís, f. 1922, d. 2009, Sveinn, f. 1923, d. 1985, Helga Guðbjörg, f. 1925, d. 1926, Kristín, f. 1928, Árni, f. 1932, d. 2005, Þorbjörg, f. 1935, d. 1976.
Árið 1950 giftist Helga Einari Eggerz Eggertssyni húsasmíðameistara, f. á Akureyri 9. ágúst 1925, d. 13. nóvember 1985.
Börn þeirra eru Laufey Brynja, f. 22. desember 1947, maki Guðmundur Karl Sigurðsson, f. 20. febrúar 1945, Hulda f. 9. september 1949, maki Jóhann Steinar Jónsson, f. 19. nóvember 1949, Hallfríður Lilja, f. 1. febrúar 1951, maki Jónas Sigurjónsson, f. 30. júlí 1949, Gunnar, f. 28. janúar 1954, maki Pála Svanhildur Geirsdóttir, f. 24. febrúar 1958, Birgir f. 11. ágúst 1955, maki Ragnheiður Steingrímsdóttir, f. 2. nóvember 1953, Anna, f. 30. september 1964, maki Arinbjörn Kúld, f. 29. desember 1960. Synir Einars eru Hreinn, f. 19. ágúst 1945, maki Sigríður Gunnlaugsdóttir, f. 3. júlí 1948, og Gunnar Rafn, f. 12. júní 1949, maki Fanney Kristbjarnardóttir, f. 24. september 1949.
Barnabörnin eru 29, barnabarnabörnin eru 58 og langalangömmubörnin þrjú.
Árið 1936 fluttust foreldrar hennar ásamt börnum að Efstalandskoti, þar sem Helga bjó til fullorðinsára. Hún fluttist síðan til Akureyrar, þar sem hún réði sig í vist hjá Páli Lineberg og Þórhildi konu hans, en fór aftur heim til að annast heimilið í veikindum móður sinnar og flutti síðan aftur til Akureyrar eftir lát hennar.
Hún var mikil stoð og stytta Þorbjargar systur sinnar sem fékk lömunarveiki sem barn og var fötluð upp frá því.
Helga vann ýmis störf um ævina ásamt því að sinna barnauppeldi og húsmóðurstörfum. Hún vann á kvöldvöktum hjá Verksmiðjum SÍS, síðan hjá Niðursuðuverksmiðju K. Jónssonar en lengst af vann hún sem skoðunarkona hjá Útgerðarfélagi Akureyringa.
Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 22. mars 2018, klukkan 13.30.
Amma Helga var einstök manneskja. Hún lifði lífinu af æðruleysi og smitandi lífsgleði. Einstaklega hjartahlý, hjálpsöm og skemmtileg. Hún var algjör húmoristi, gerði mest grín að sjálfri sér en sjaldan að öðrum. Hún var ákveðin og vissi hvað hún vildi. Hún vildi hafa fallegt og snyrtilegt í kringum sig og vildi sjálf vera vel til fara. Hún var mikil barnagæla og alltaf til í að leika sér við börnin. Hún átti stórt pláss í hjörtum okkar allra, ömmubarna og langömmubarna. Hún ljómaði þegar hún hélt á langalangömmubarninu sínu yngstu Helgu síðasta sumar. Þegar amma Helga varð 91 árs í haust bakaði hún sjálf afmælistertur og bauð okkur í kaffi.
Þegar ég var krakki reyndum við stundum að fá hana og Dúllu systur hennar til að taka út úr sér fölsku tennurnar, þegar þær létu það eftir okkur grettu þær sig þannig að við veltumst um af hlátri. Þegar ég var unglingur var ég að vinna með ömmu tvö sumur á frystihúsi ÚA þar sem hún vann í áratugi. Þegar ég var orðin fullorðin hjálpaði hún mér oft að þrífa eftir flutninga og ferðaðist með mér bæði innan lands og utan. Hún átti ótrúlega auðvelt með að slaka á og fá sér kríu. Sofnaði í nokkrar mínútur, oft sitjandi í stól, og vildi sjaldnast viðurkenna að hún hefði sofnað.
Amma var einstaklega skapgóð og sagði alltaf að það væri hægt að leysa öll mál. Hún var klár kona og með allt á hreinu fram að síðasta andardrætti. Því miður var ég stödd hinum megin á hnettinum en náði að kveðja hana með nútímatækni á Facetime, sem við höfðum stundum notað saman til að spjalla við barnabörnin hennar sem bjuggu erlendis.
Í huganum er blanda af söknuði og þakklæti. Það eru forréttindi að fá að eiga ömmu sína í hálfa öld, ömmu sem var líka vinkona og fyrirmynd.
Elsku amma Helga, ég þakka þér fyrir ljúfa vináttu, alla hjálpina, hláturinn og hlýjuna.
Helga Björg Jónasardóttir.
Nú vaki ég alein og komið er kvöld
og kyrrð yfir heimili mitt.
Ég skrifa á himinsins heiðríkju tjöld
í huganum nafnið þitt.
(Friðrik Hansen)
Glaðlynd, hjálpsöm, góð vinkona og mér meira sem systir en móðursystir.
Þannig man ég Helgu, en hún var tólfta í röð fimmtán systkina. Ég mun hafa verið fimm eða sex ára þegar ég var af einhverjum ástæðum send ásamt eldri bróður mínum til ömmu og afa í Efstalandskoti. Helga var þá enn í föðurhúsum, og sagði hún mér síðar að ég hefði verið haldin mikilli heimþrá, en með glaðværð sinni og léttri lund tókst henni að fá stelpu til að gleyma öllu óyndi.
Frá því ég var unglingur hefur vinátta okkar Helgu vaxið og dafnað, og margs er að minnast, enda samveran mikil og sérstaklega meðan Tobba systir hennar bjó hjá henni. Ógleymanlegar stundir eru óteljandi, einkum úr Strandgötunni og Hjalteyrargötunni.
Sumarbústaðaferðirnar sem farnar voru, og meðan Einars manns Helgu naut við var hann bílstjóri og sá um liðið, en eftir hans daga tók minn maður við því embætti. Lífið hennar Helgu var ekki alltaf auðvelt en meðfætt glaðlyndi leiddi hana gegnum alla erfiðleika. Á síðari árum voru gönguferðir og búðaráp í uppáhaldi hjá okkur frænkunum, en Helga elskaði að kaupa sér falleg föt, enda alltaf klædd samkvæmt nýjustu tísku.
Að lokum, takk fyrir samveru liðinna áratuga, elsku Helga. Þú sannaðir að gleðin felst ekki í hlutum, hún býr í okkur sjálfum.
Við Guðjón sendum öllum ástvinum Helgu kærleikskveðjur og biðjum Guð að vaka yfir þeim.
Erla Halls.