Þrír metnaðarfullir frumkvöðlar vilja opna keðju nýstárlega hótela víðsvegar um Ísland, og hafa einnig augastað á Grænlandi og Færeyjum. Fyrirtæki þeirra heitir Igloo Camp (http://igloo.camp) og tekur þátt í Startup Tourism-viðskiptahraðlinum. Sérstaða Igloo Camp felst í því að í stað þess að sofa í hefðbundnum hótelherbergjum eða skálum fá gestirnir að verja nóttinni í lúxus-tjöldum þar sem þeir eru í mikilli nánd við náttúruna.
Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri Igloo Camp en hún stofnaði reksturinn með þeim Brynjólfi Stefánssyni og Kjartani Erni Ólafssyni: „Hugmyndin kviknaði fyrir tæpum þremur árum þegar ég og Kjartan maðurinn minn fórum í safarí-ferð til Kenía. Þar var okkur bent á að gista í lúxustjöldum úti á sléttunni og reyndist það vera mögnuð upplifun.“
Á ensku er þessi tegund gistingar kölluð „glamping“ sem er bræðingur af orðunum „glamour“ og „camping“. Er þá sofið í n.k. tjaldbyggingum þar sem gesturinn hefur allt til alls, s.s. þægilegt rúm, og baðherbergi, og getur fengið alla þá þjónustu sem hótel bjóða almennt upp á. Lýsir Ásta því hvernig heyra mátti og sjá dýrin ráfa í gegnum tjaldbúðirnar í Kenía og heyra öll hljóð náttúrunnar í gegnum þunnan tjalddúkinn. „Við sáum strax að það væri spennandi að bjóða ferðamönnum á Íslandi upp á samskonar upplifun.“
Auðvelt að bæta við herbergjum
Tjöldin sem Igloo Camp mun nota eru gerð úr kúlulaga stálgrindum sem eru klæddar með dúk og einangruð. Í hverri kúlu er eitt herbergi, með eigið baðherbergi, og kúlunum komið þannig fyrir að allir gestir geti fengið að vera út af fyrir sig og í næði í náttúrunni. Í sumum tilvikum er strengdur glær dúkur yfir efsta hluta kúlunnar svo að gestir geta legið undir hlýrri sæng og horft á næturhimininn. Þá verður kamína í hverju tjaldi til að veita yl og rómantískan bjarma.Hefur Igloo Camp þegar gert samning við framleiðanda tjaldanna um að hafa einkarétt á notkun þeirra á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Þá hefur fyrirtækið tryggt sér lóð á fallegum stað í jaðri hálendisins á milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs og ætlunin að þar rísi 20-30 herbergja hótel áður en árið er á enda. Í framhaldinu vilja Ásta og félagar bæta við nýju hóteli af svipaðri stærð ár hvert. Standa vonir til að hótelin fái umhverfisvottun og geti auglýst sig sem vistvænan valkost.
„Tjöldin eru umhverfisvæn að því leyti að það sem við byggjum er endurkræft, hægt að taka kúlurnar niður og skilja við landið nánast í sama ástandi og við fengum það. Byggingaraðferðin þýðir einnig að við getum farið inn á svæði sem eru of viðkvæm til að þar megi byggja hefðbundið hótel. Það sem er líka skemmtilegt við þetta gistiform er að það veitir okkur meiri sveigjanleika til að bæta við einingum ef eftirspurnin kallar á það, eða færa tjöld frá einu hóteli til annars.“
En tjaldhótels-formið hefur líka ákveðna ókosti. „Þó svo að byrjunarkostnaðurinn geti verið lægri þá verður flóknara að þjónusta herbergin og þrífa þau en á venjulegu hóteli, enda lengra á milli þeirra,“ segir Ásta en hvert hótel mun hafa þjónustutjald eða þjónustubyggingu með gestamóttöku og veitingasal þar sem boðið verður upp á kvöldverð og morgunverð.
Gisting sem fólk vill segja frá
Lesendum gæti þótt það djarft af stofnendum Igloo Camp að bæta við nýju hóteli árlega, en Ásta bendir á að ferðamenn sæki í gistingu sem býður upp á meira en bara notalegan stað til að halla höfði. Hótel þurfi líka að vera „Instagram-væn“ enda vilja ferðamenn geta sagt skemmtilega sögu og notað samfélagsmiðlana til að deila með vinum sínum upplifuninni af því sem þeir sjá og gera.„Hótelin myndu bjóða gestum upp á einstaka upplifun sem ætti að laða að gesti. Þá munu Igloo-hótelin hafa mikla sérstöðu og er samkeppnin því ekki eins bein og óvægin og ef við værum að byggja hefðbundið hótel.“
Markaðsrannsóknir Igloo Camp benda til að Suðurlandið sé góður staður til að byrja enda gistirýmið á svæðinu mjög vel nýtt nú þegar, og ferðamannatíminn að lengjast í báða enda með hverju árinu. Staðsetningin er hentug fyrir ferðalanga sem eru á leið sinni upp á hálendið og hönnun hótelsins ætti að höfða til þeirra sem vilja skoða Ísland að vetri til og upplifa norðurljósin.
Blaðamaður getur ekki á sér setið og spyr hvort fyrsta hótelið verði fjármagnað með kúluláni. „Við erum langt komin með fyrsta hluta fjármögnunarinnar sem mun byggjast bæði á einkahlutafé og bankafjármögnun. Stefnum við á að hefja annan hluta fjármögnunarinnar seinna í vor,“ upplýsir Ásta en fæst ekki til að gefa upp hvað fyrsta hótelið mun kosta.