Hjálmar Þorsteinsson
Hjálmar Þorsteinsson
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur hafnað öllum kærum vegna synjunar Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) um greiðsluþátttöku í kostnaði vegna liðskiptaaðgerða hjá Klíníkinni.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur hafnað öllum kærum vegna synjunar Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) um greiðsluþátttöku í kostnaði vegna liðskiptaaðgerða hjá Klíníkinni. Nefndinni hafa borist sex kærur það sem af er þessu ári, henni bárust níu kærur 2017 og engar 2016 en Klíníkin hóf að gera liðskiptaaðgerðir í febrúar í fyrra. Fimm kæranna bíða úrlausna.

SÍ niðurgreiða ekki liðskiptaaðgerðir sem Íslendingar velja að fara í á Klíníkinni og snúa kærurnar að því. Aðeins er greitt fyrir liðskiptaaðgerðir á Landspítalanum (LSH), þar sem biðlistar eru langir, og erlendis. Ef sjúklingur þarf að bíða lengur en 90 daga eftir aðgerð á LSH getur hann óskað eftir að fara í aðgerð út sem er greidd að fullu af SÍ. Sjúklingur getur líka valið að fara í liðskiptaaðgerð út samkvæmt ESB-tilskipun um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri þó að hann hafi ekki verið á biðlista hér heima. Þá fær hann endurgreiddan útlagðan kostnað frá SÍ sem samsvarar því að þjónustan hefði verið veitt hér á landi.

SÍ er ekki heimilt samkvæmt lögum að samþykkja umsóknir um endurgreiðslu frá þeim sem hafa farið í liðskiptaaðgerð hjá Klíníkinni því ekki er til staðar samningur við SÍ varðandi greiðsluþátttöku vegna liðskiptaaðgerða. Því lætur fólk reyna á úrskurðarnefnd velferðarmála sem hefur í öllum tilfellum staðfest synjun SÍ á umsókninni um greiðsluþátttöku. Í einum úrskurði nefndarinnar frá 28. febrúar kemur fram að SÍ mótmæli því ekki að kostnaður við liðskiptaaðgerðir erlendis sé hærri en kostnaður hér á landi. SÍ hafi aftur móti ekki heimildir til að setja gjaldskrá nema heilbrigðisráðherra setji reglugerð og hann hafi ekki gert það.

Hafa ekki efni á að tapa heilsu

Hjálmar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar, segir að það sé horft mjög stíft í lagatextann. „Það er ekki horft til almennrar skynsemi heldur bara hvað lögin segja sem er að það sé ákvörðun ráðherra að setja reglugerð ef það er ekki til samningur.“

Hjálmar átti fundi með Kristjáni Þór Júlíussyni og Óttari Proppé þegar þeir voru heilbrigðisráðherrar og bíður þess nú að funda með Svandísi Svavarsdóttur. Hann segist ekki sjá skynsemina í því að senda sjúklinga til útlanda sem er mun dýrari lausn en að gera aðgerðina hjá Klíníkinni og skapi mikið óhagræði.

Gerðar hafa verið 85 liðskiptaaðgerðir hjá Klíníkinni frá því í febrúar í fyrra og ásóknin hefur verið stigvaxandi. „Það er stór misskilningur að þetta sé efnaða fólkið sem er að koma hingað í aðgerð, þetta er fólk sem hefur ekki efni á því að tapa meiri heilsu. Þetta er fólk sem er orðið örvinglað yfir stöðu sinni og getur ekki meira. Þetta eru þeir sem þurfa mest á því að halda að aðgerðin sé gerð sem fyrst en hafa engin tök á því að fara út,“ segir Hjálmar.