* Chanté Sandiford , sem hefur varið mark kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu undanfarin þrjú ár, er gengin til liðs við Avaldsnes, næststerkasta lið Noregs. Hún staðfesti við Morgunblaðið í gær að hún hefði samið við félagið til eins árs. Sandiford, sem er landsliðsmarkvörður Guyana, hefur leikið alla 54 deildaleiki Selfyssinga undanfarin þrjú ár, 36 þeirra í úrvalsdeildinni, og var fyrirliði liðsins um skeið.
* Zeiko Lewis , landsliðsmaður Bermúda í knattspyrnu, er genginn til liðs við FH-inga og hefur samið við þá út þetta keppnistímabil. Hann er 22 ára gamall miðju- eða sóknarmaður og var í röðum New York Red Bulls á síðasta tímabili en spilaði með B-liði félagsins í næstefstu deild Bandaríkjanna. Þar á undan lék hann í þrjú ár með háskólaliði í Boston. Lewis hefur leikið 14 A-landsleiki, þann fyrsta aðeins 16 ára gamall, og hefur skorað í þeim 4 mörk.
*Þrír íslenskir hlauparar verða meðal keppenda á heimsmeistaramótinu í hálfmaraþoni sem fram fer í Valencia á Spáni á laugardaginn. Þetta eru þau Andrea Kolbeinsdóttir , Elín Edda Sigurðardóttir og Arnar Pétursson , öll úr ÍR. Þetta verður í þriðja sinn sem Arnar tekur þátt í mótinu en hann hljóp í Cardiff fyrir tveimur árum, þar sem hann varð í 67. sæti á sínum besta tíma eða 1:08,02 klukkustundum, og í Kaupmannahöfn árið 2014. Um frumraun er að ræða hjá hinni 19 ára gömlu Andreu og læknanemanum Elínu Eddu, en þrátt fyrir stuttan feril varð sú síðarnefnda Íslandsmeistari í hálfmaraþoni síðasta sumar þegar hún hljóp hraðast í Reykjavíkurmaraþoninu. Tímasetning hlaupsins í Valencia á laugardag er nokkuð óvenjuleg þar sem hlaupið verður að kvöldi til, en ekki í morgunsárið. Búist er við að yfir 300 hlauparar frá 87 löndum taki þátt í mótinu.