Líkt og iðulega þegar kjarasamningar stórra hópa launþega eru í bígerð þá vaknar upp umræða um getu fyrirtækja til að greiða hærri laun og áhættuna sem því fylgir þegar samið er um laun umfram hana. Það er ljóst að hækkun launakostnaðar getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir einstök fyrirtæki, en erfiðara er að átta sig á hvaða áhrif slík hækkun hefur á þjóðina sem heild. Það kemur þó ekki í veg fyrir að menn reyni, en þeim sem láta vaða verður oft tíðrætt um framleiðni og þá oftast þýðingu framleiðni fyrir velmegun þjóðarinnar og áhrif launahækkana á hana.
Í hagfræði og fjármálum er framleiðni almennt skilgreind sem hlutfallið á milli virðisaukningar (úttaks) og kostnaðar eða magns þess sem þurfti að kosta til (inntaks). Þessi skilgreining kann að hljóma einföld en í hagfræðinni eru notaðar ótal margar útgáfur af framleiðni, allt eftir því hvernig virðisaukning er mæld og hvaða inntaksbreytur eru skoðaðar og hvernig þær eru mældar. Sem dæmi þá er algeng skilgreining á framleiðni heilla þjóða, þjóðarframleiðsla á hvern þegn, en þá er þjóðarframleiðslan mælikvarði á virðisaukninguna og fjöldi þegna er mælikvarði á það hversu marga þurfti til að búa hana til.
En framleiðni segir ekki alla söguna. Tökum sem dæmi tvö fyrirtæki sem búa til sömu vöruna sem seld er á sama verðinu og úr sama hráefni sem keypt er sama verði. Annað fyrirtækið hefur 10 starfsmenn og engar vélar, en hitt hefur 1 starfsmann og eina vél sem kostar í rekstri jafnmikið og 9 starfsmenn. Þetta þýðir að kostnaðurinn við virðisaukningu beggja fyrirtækja er sá sami og framleiðnin sú sama. Ef við mælum hinsvegar svokallaða framleiðni vinnuafls, það er hlutfallið milli virðisaukningar og nauðsynlegs vinnuafls, þá er sú framleiðni 10 sinnum hærri hjá fyrirtækinu sem á vélina auk þess sem framleiðni þess fyrirtækis breytist lítið þótt laun hækki. Og það væri augljós leið hjá fyrirtækinu sem ekki á neina vél að bregðast við hækkandi launum með því að fjárfesta í vél og segja upp starfsfólki, sem er lýsandi fyrir þróunina í vestrænum heimi þar sem laun hækka jafnt og þétt en vélar lækka nokkuð stöðugt í verði.
Það er líka vel þekkt staðreynd að framleiðni er mjög breytileg milli samskonar fyrirtækja í sömu atvinnugrein og á sama markaði. Með öðrum orðum þá hefur kostnaður við vinnuafl og fjármagn ekki allt um það að segja hversu mikil verðmætaaukning verður til hjá fyrirtækjum. Þar skiptir til dæmis einnig miklu máli hvernig framleiðslan er skipulögð, á hvaða tæknistigi starfsemin er, hversu hæft starfsfólkið er og hversu góðir stjórnendur eru. Það er því ekki víst að framleiðni lækki þótt kostnaður vegna starfsmanna hækki, ef það til dæmis þýðir að hæfni starfsmanna eykst. Þegar öll kurl eru komin til grafar er það ekki endilega einfalt mál að spá fyrir um áhrif launahækkana á hag einstakra fyrirtækja og hvað þá á hag heillra þjóða og þá er loksins komið að tilefni þessa pistils.
Þegar kom fram á árið 2015 gekk flest á afturfótunum hjá Walmart-verslunarkeðjunni í Bandaríkjunum. Sala fór stöðugt minnkandi og ánægja viðskiptavina var í algjöru lágmarki. Fyrirtækið fór í naflaskoðun og tilkynnti snemma árs 2015 að það myndi hækka laun allra starfsmanna, nokkuð sem kom flestum á óvart í ljósi aðstæðna og þarfar fyrirtækisins til að bæta reksturinn. Þessi breyting hafði hinsvegar þau áhrif að sala jókst, ánægja viðskiptavina rauk upp og strax ári eftir breytinguna hafði fjöldi verslana sem náðu þjónustumarkmiðum vaxið úr 16% upp í 75%. Sem er einmitt dæmi um það hversu flókið fyrirbæri framleiðni er og hvernig áhrif breytinga geta orðið þveröfug við það sem búast mátti við fyrirfram.