Arianna Romero
Arianna Romero
Valur virðist vera við það að semja við þrjá erlenda leikmenn fyrir átökin í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu á komandi keppnistímabili.

Valur virðist vera við það að semja við þrjá erlenda leikmenn fyrir átökin í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu á komandi keppnistímabili. Leikmennirnir sem um ræðir eru Arianna Romero sem kemur frá Vålerenga í Noregi, Teresa Noyola sem lék síðast með Kibi í Japan og Crystal Thomas sem lék með Medkila í Noregi í fyrra. Pétur Pétursson, þjálfari Vals, sagði við fotbolti.net að þær væru allar farnar að æfa með liðinu en bíða leikheimildar.

Romero er varnarmaður og lék hér á landi með ÍBV sumarið 2016, spilaði þá alla 18 leiki Eyjakvenna í úrvalsdeildinni, en hún er mexíkóskur landsliðsmaður með 33 landsleiki að baki. Hún spilaði átta leiki með Vålerenga á síðasta tímabili. Miðjumaðurinn Noyola er einnig mexíkósk landsliðskona, en hún hefur spilað 44 landsleiki og lék m.a. með Houston Dash og Seattle Reign í Bandaríkjunum. Thomas er bandarísk og leikur sem framherji. Hún lék níu af 22 leikjum Medkila á síðasta tímabili og skoraði eitt mark en liðið varð langneðst og féll.