Ólafur Gústafsson
Ólafur Gústafsson
„Við fyrstu skoðun kom ekki í ljós neitt brot eða krossbandaslit. Hnéskelin fór úr liði en var komið aftur á sinn stað úti á vellinum. Ég fer í myndatöku í kvöld og vona það besta,“ sagði landsliðsmaðurinn Ólafur Gústafsson í samtali við...

„Við fyrstu skoðun kom ekki í ljós neitt brot eða krossbandaslit. Hnéskelin fór úr liði en var komið aftur á sinn stað úti á vellinum. Ég fer í myndatöku í kvöld og vona það besta,“ sagði landsliðsmaðurinn Ólafur Gústafsson í samtali við mbl.is í gær en hann meiddist illa á hné í leik með Kolding gegn Mors-Thy í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik.

Ólafur var fluttur á sjúkrahús og gisti á hóteli í Kolding í nótt þar sem hann fer í myndatöku en Ólafur býr í Esbjerg.

„Væntanlega verð ég frá keppni í einhvern tíma en ég ætti að fá svör við því eftir myndatökuna,“ sagði Ólafur.

Hætt er við því að Ólafur missi af fjögurra þjóða mótinu í Noregi sem fer fram í Noregi í byrjun apríl en hann var valinn í landsliðshóp Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í síðustu viku. Ólafur gekk til liðs við Kolding frá Stjörnunni í haust og hefur átt góðu gengi að fagna með Kolding á leiktíðinni. Ólafur hefur fengið sinn skammt af meiðslum á ferlinum en hafði verið heill um hríð. gummih@mbl.is