Matarvefurinn hefur sérlegan áhuga á brauðréttum og því þótti mjög eðlilegt fyrir komandi fermingar og veislutíð að blása til brauðréttaeinvígis milli starfsmanna vefsins, Þóru Sigurðardóttur og Tobbu Marinós. Nú þegar hafa birst fjórar stórkostlegar brauðréttauppskriftir og hér er sú fimmta mætt.
Mexíkóar hafa hingað til ekki þótt mikilir afreksmenn á sviði brauðréttagerðar en það er mögulega að breytast. Hin eina sanna Tobba Marínósdóttir, virðulegur ritstjóri Matarvefsins, tefldi fram þessu etníska meistaraverki í brauðtertueinvígi aldarinnar og uppskar mikið lof fyrir.
Aðspurð segir Tobba að ásetningur hennar hafi verið, fyrir utan auðvitað að sigra Þóru mótherja sinn í einvíginu, að blanda saman á gæfuríkan hátt því sem þjóðin elskar heitast: brauðrétti og mexíkóskum mat. Niðustaðan var dásamlega góð og kláraðist á örskotsstundu.
El Nachos rúllutertos
200 g kjúklingur, eldaður og rifinn niður (kryddaður með fajitakrydd blöndu)
80 g blönduð paprika, söxuð
50 maískorn (ég kaupi extra sætt frosið í Nettó)
200 g salsasósa
200 g rjómaostur
200 g rifinn ostur
Nachos flögur
Ferskt kóríander
limesneiðar
avócadósneiðar
Bræðið rjómaost við vægan hita í potti. Bætið 150 g af salsasósu, paprikunni, kjúkling og maís við.
Saxið 1 lúku af kóríander og bætið við.
Rúllið brauðinu út.
Setjið fyllinguna á brauðið og reynið að þekja allan flötinn. Dreifið 150 g af rifnum osti jafnt yfir yfirborðið.
Rúllið brauðinu þétt upp. Setjið restina af salsasósunni ofan á, ostinn og svo er nachos-flögum raðað upp á rönd á brauðinu. Hrikalega lekkert!
Bakið við 180 gráður í 18 mínútur.
Skreytið með fersku kóríander limesneiðum og avócadósneiðum og vekið um leið athygli og aðdáun. matur@mbl.is
Þessi klassíski
Þessi brauðréttur er heiðarlegt tilbrigði við hinn klassíska skinku- og aspasrétt sem þjóðin elskar.Hér er notast við hefðbundið bakarísrúllutertubrauð, það smurt með majónesi og síðan fyllt með skinku og aspas. Nýbreytnin felst í kryddhjúpnum sem settur er á rúlluna og gefur einstaklega vandað og skemmtilegt bragð. Í bragðprófunum sem fóru fram í höfuðstöðvum Árvakurs þótti þessi brauðréttur bera af.
Súrdeigsbrauðréttur með osta- og beikonfyllingu
Hér er unnið með klassíkina og tískuna. Súrdeigið er mjög vinsælt þessi misserin og því ákaflega lekkert að bjóða upp á þannig brauðrétt. Hér er búið að krossskera brauðið og fylla með osti, beikoni og alls kyns góðgæti. Þessi brauðréttur þykir mikið lostæti og hentar einnig sem meðlæti í partý og annars konar gleðskap þar sem boðið er upp á veitingar.
Guðdómlegur súrdeigsbrauðréttur með kjúklingi.
Þessi elska vakti verðskuldaða athygli enda löðrandi í osti eins og vera ber. Hér eru ítölsk áhrif alls ráðandi og kjúklingurinn sómir sér vel í súrdeigsbeðinu. Þessi er vís með að slá í gegn í veislunni enda nokkuð margslunginn bragðlega séð og afar bragðgóður svo ekki sé fastar að orði kveðið.Uppskriftirnar er að finna
inn á Matarvef mbl.is