Séra Ólafur Jóhannsson, sóknarprestur í Grensáskirkju, sem úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar taldi hafa gerst sekan um siðferðisbrot gegn tveimur konum hefur áfrýjað báðum úrskurðum til áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar. Fimm konur kærðu athafnir séra Ólafs í sinn garð til kirkjunnar til úrlausnar. Í úrskurði kirkjunnar eru athafnir hans taldar sannaðar en Ólafur var fundinn sekur um siðferðisbrot í tveimur málanna og refsingar krafist af biskupi í einu þeirra. Ólafur fer þess á leit við áfrýjunarnefnd að báðir úrskurðirnir verði felldir úr gildi og hafnar um leið öllum kröfum gagnaðila. Hann krefst þess einnig að kostnaður við störf áfrýjunarnefndar verði felldur á kirkjumálasjóð.
Lögmaður Ólafs gerir athugasemdir við málsmeðferð hjá úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar í báðum úrskurðum. Í öðrum þeirra bendir hann á að atvik málsins áttu að hafa gerst fyrir 13 árum og að aðilum ber ekki saman um málavexti og lítill samhljómur milli þeirra. „Í málatilbúnaði gagnaðila lýsir hún ekki í raun innihaldi neinna samtala heldur staðhæfir það eitt að áfrýjandi hafi sagt eitthvað sem hún metur nú, þrettán árum síðar, af kynferðislegum toga. Nefndin færir það eitt til sönnunar að framkvæmdastjóri Kirkjuhússins hafi að beiðni gagnaðila, gefið einhliða yfirlýsingu í tilefni af málinu um samtal sem hún hafi átt við gagnaðila en lýsi ekki innihaldi þess í raun. Þetta sönnunarmat úrskurðarnefndar er ótækt og uppfyllir engan veginn kröfur réttarfars,“ segir í annarri áfrýjunarbeiðni Ólafs.
Í hinni áfrýjunarbeiðni Ólafs segir lögmaður hans m.a. að ekki sé samræmi milli þess sem úrskurðarnefndin kveður í málavaxtalýsingu sinni, og áfrýjandi kannist við, og þess sem hún síðan leggur til grundvallar í forsendum sínum. „Þar eru honum [Ólafi] lögð orð í munn og prjónað við það sem áfrýjandi sjálfur heldur fram.“ Segir hann úrskurðarnefndina túlka hugtakið kynbundna áreitni svo vítt að hugtakið gæti tekið til nánast hverskonar samskipti kynjanna.
Í gær ákvað Agnes Sigurðardóttir biskup að framlengja leyfi sr. Ólafs frá störfum ótímabundið meðan mál hans er til ákvörðunar hjá embættinu. mhj@mbl.is