Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Stundum hafa stjórnmálamenn það einfaldlega of gott. Nú hefur fasteignaverð hækkað hratt á umliðnum árum og í kjölfarið hafa tekjur sveitarfélaga vaxið samhliða því að reikniformúla fyrir fasteignamat var...

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Stundum hafa stjórnmálamenn það einfaldlega of gott. Nú hefur fasteignaverð hækkað hratt á umliðnum árum og í kjölfarið hafa tekjur sveitarfélaga vaxið samhliða því að reikniformúla fyrir fasteignamat var breytt.

Fram kom í Morgunblaðinu í gær að dæmi séu um að fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði í Reykjavík hafi hækkað um 35% á árunum 2016-2018. Það er ískyggileg hækkun. Það má líkja þessu við „ókeypis“ skattahækkun því það þarf ekki að ganga hreint til verks og hækka skatta með tilheyrandi orðaskaki.

Eitt af því sem gerir þessa auknu skattheimtu ósanngjarna er að hún er ekki bundin við tekjur. Eign sem í flestum tilvikum stendur ekki til að selja hefur hækkað í virði. Fyrirtækin þurfa því að standa skil á auknum skattgreiðslum án þess að tekjur hafi endilega aukist. Það er afar ósanngjarnt og er til þess fallið að fæla fyrirtæki frá borginni.

Mögulega er rót vandans sú, að Reykjavíkurborg er skuldum hlaðin. Borgin hefur kosið að safna skuldum í uppsveiflunni í stað þess að greiða þær niður líkt og ríkissjóður hefur gert. Kannski leiðir það til þess að enginn í meirihlutanum treysti sér til þess að leggja til að fasteignagjöldin á atvinnuhúsnæði myndu a.m.k. ekki aukast á milli ára.