Í skólastofu Samningur grunnskólakennara rann út í nóvember sl.
Í skólastofu Samningur grunnskólakennara rann út í nóvember sl. — Morgunblaðið/Hari
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Mikill meirihluti félagsmanna í Félagi grunnskólakennara felldi nýgerðan kjarasamning FG og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Atkvæðagreiðslunni lauk í gær og urðu úrslitin þau að nei sögðu 2.599 eða 68,52% en já sögðu 1.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Mikill meirihluti félagsmanna í Félagi grunnskólakennara felldi nýgerðan kjarasamning FG og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Atkvæðagreiðslunni lauk í gær og urðu úrslitin þau að nei sögðu 2.599 eða 68,52% en já sögðu 1.128 eða 29,74%. Auðir seðlar voru 66. Á kjörskrá voru 4.697 félagsmenn og greiddu 3.793 atkvæði eða 80,75%.

FG og Samband íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir kjarasamninginn 13. mars sl.

71.500 og 55.000 kr. eingreiðslur

Gildistími samningsins var frá 1. apríl nk. til 31. mars á næsta ári en fyrri samningur rann út í lok nóvember í fyrra. Samningurinn kvað á um 3% launahækkun 1. apríl, 71.500 kr. eingreiðslu um næstu mánaðamót til að bæta upp þann tíma sem samningar voru lausir og 1. febrúar á næsta ári átti svo að koma til 55.000 kr. eingreiðslu fyrir mánuðina janúar til mars 2019. Þá kvað samningurinn á um að greiddar yrðu annaruppbætur, 85.000 kr. í júní og 85.000 kr. í desember.

Einnig var samið um breytingu á menntunarkafla þar sem persónuálag upp á 2% fengist fyrir hverjar 30 ECTS-einingar sem geri að verkum að laun félagsmanna geti breyst mismunandi mikið og verið allt frá 3% upp í 5%, 7%, 12% ,,allt eftir því

hve mikla menntun [sic] þeir hafa bætt við sig í gegnum tíðina [...],“ eins og sagði m.a. í kynningu á efni samningsins sem kennarar hafa nú fellt. Horfið var frá vinnumati og samið um breytt vinnufyrirkomulag.

Málefnalegar viðræður

„Það eru vonbrigði að þetta skyldi fara svona,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaganna. „Við munum hitta samninganefnd kennara fljótlega og fara yfir þetta saman,“ segir hún.

Inga Rún segir aðspurð að í þessum samningum hafi samninganefnd sveitarfélaganna gert allt sem hún gat gert. ,,Þetta voru mjög málefnalegar viðræður en niðurstaðan var svo felld.“