Jóna Elísabet Guðjónsdóttir fæddist í Reykjavík 29. mars 1942. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Skjóli 28. febrúar 2018.

Foreldrar hennar voru Margrét Ágústsdóttir húsfreyja, f. 5.11. 1922, d. 20.8. 1980, og Guðjón Kristinn Ólafsson, bóndi að Ölvaldsstöðum í Borgarbyggð, f. 30.6. 1920, d. 19.9. 1961.

Jóna var elst í systkinahópnum, hin eru Ágúst, f. 20.3. 1943, Steinar, f. 19.3. 1945, Sigurður, f. 27.5. 1946, Sigríður, f. 13.10. 1947, d. 19.7. 1984, Jófríður, f. 25.4. 1950, Gunnar Reynir, f. 22.5. 1952, Guðjón, f. 21.6. 1953, d. 10.8. 1981, og Jóhanna, f. 28.5. 1960.

Jóna giftist Viðari Ottesen, f. 25.6. 1938, d. 21.9. 2015. Hann var sonur hjónanna Karls Jósafatssonar Ottesen og Sveinbjargar Sveinsdóttur. Saman eignuðust þau þrjú börn. 1) Sveinbjörn Ottesen, f. 8.12. 1959, maki Olga Björk Bragadóttir. 2) Kristín Ottesen, f. 30.6. 1961, maki Þorleifur G. Elíasson. 3) Jóhann Ottesen, f. 6.5. 1962, maki Brynhildur Baldursdóttir.

Jóna vann í í Sænska frystihúsinu og Bæjarútgerðinni í Reykjavík á sínum yngri árum en lengst af starfaði hún sem hótelstýra á Hótel Höfn á Siglufirði. Eftir að Jóna fluttist frá Siglufirði vann hún ýmis verslunarstörf.

Útför hennar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 22. mars 2018, klukkan 13.

Elsku amma, það hefur ekki verið auðvelt að átta sig á því að þú sért nú farin, farin til afa og allra hinna sem taka vel á móti þér. Þar líður þér alveg örugglega betur og þið tvö passið hvort annað og dansið við lagið ykkar Twilight Time. Það var ekkert auðvelt fyrir þig að fóta þig eftir að afi kvaddi okkur og það hefur reynst okkur öllum erfitt að geta lítið gert þegar heilsunni hrakaði svona mikið hjá þér.

Elsku amma sem alltaf var til staðar fyrir allt og alla, kletturinn í lífi svo margra en þú varst orðin veikburða og lífsviljinn ekki alltaf í botni hjá þér. Nú sit ég hér og hugsa til þín og þess að kveðja þig og það koma bara upp gleðilegar minningar og hjartað fyllist hlýju. Óendanlega góðmennskan sem þú gafst mér og svo mörgum öðrum og allar góðu minningarnar með þér sem gáfu barnæskunni minni gleði og glaum og hlátur þinn og hlýja munu alltaf lifa í mínum huga.

Ég er svo þakklát og langar að þakka þér, elsku amma, fyrir svo margt. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera prinsessan ykkar afa, þakklát fyrir tímann á Siglufirði, í sumarbústaðnum góða, að hafa farið í fyrstu utanlandsferðina með ykkur, öll ferðalögin með ykkur til Siglufjarðar, að hafa alist upp hjá ykkur í húmor og jákvæðni og fengið allan hvatann frá ykkur til að gera allt það sem mann langar til. Allar stundirnar í Bláhömrum þar sem dekrað var við okkur, öll ættarmótin, kótelettuboðin, jólaboðin og endalaust af góðum minningum sem ég á með þér þegar við sátum og spjölluðum um lífið.

Ég hef alltaf verið stolt af því að bera sama nafn og þú og elska að skoða gamlar myndir af þér í glæsilegum kjólum með þinn flotta stíl, hörkutól sem lést ekkert stöðva þig, rakst hótelið eins og herforingi, ólst okkur upp og hugsaðir um alla í fjölskyldunni, meira að segja fyrrverandi kærustur og kærasta allra. Ef það var eitthvað sem einhvern vantaði þá mættir þú og reddaðir því, sama hvað það var. Þú varst líka algjör grallari og elskaðir að koma á óvart, þau voru ófá skiptin sem þú hringdir í okkur og sagðist vera á leiðinni að sækja okkur, þá var alltaf eitthvað óvænt og skemmtilegt í bígerð hjá þér. Það er ekki annað hægt en að þakka líka fyrir allan matinn. Veislurnar voru ekki af verri endanum og þegar við vorum unglingar hringdum við bara í þig og báðum um kótelettur í raspi og það var ekkert mál, þú gerðir allt fyrir okkur.

Ég er líka svo þakklát fyrir að Ugla hafi fengið að kynnast þér og hún sótti mikið í að heimsækja þig. Við munum halda áfram að heiðra minningu þína og lifum með góðar minningar í hjartanu. Ég mun hugsa til þín þegar eitthvað stendur í vegi mínum að ná markmiðum mínum, þegar ég sit heima og prjóna hugsa ég til þín, þegar ég dekra við kallinn minn eins og þú gerðir við afa, færðir honum kökur og mjólk í rúmið á jóladag og þegar ég býð fjölskyldunni í mat hugsa ég til þín.

Þegar ég verð amma mun ég hugsa til þín, bestu ömmu í heimi.

Bless, elsku amma.

Elsku fjölskylda, ég sendi ást og samúðarkveðjur til ykkar allra.

Jóna Elísabet Ottesen.

Nú er komið að kveðjustund, elsku besta amma mín.

Amma mín var klettur, hún var límið í fjölskyldunni og það er svo skrítið að amma sé farin, amma sem ég hélt að yrði alltaf hjá okkur. Þegar ég sit hérna og skrifa koma upp ótal minningar, hlýjar og kærar sem ég mun geyma um ókomna tíð. Amma var þessi kona sem var algjör skörungur. Hún vann myrkranna á milli á meðan hún hafði heilsu.

Hún hélt veislur og matarboð svo við fjölskyldan myndum nú örugglega hittast, það fannst henni svo mikilvægt. Hún passaði upp á að engum liði illa og fyrir sína nánustu vildi hún allt gera. Fyrsta minningin mín með ömmu og elsku afa heitnum er frá Siglufirði. Þar bjuggu amma og afi þegar ég var að alast upp og fram á unglingsár. Þau ráku Hótel Höfn og þar var sko gott að vera. Hvort sem við vorum að baka kleinur, brjóta saman þvott, spila svartapétur eða horfa á hljómsveitaræfingu fyrir komandi dansleik, þá mátti ég taka þátt í öllu. Amma og afi leyfðu okkur barnabörnunum að taka þátt í þeirra lífi, þau sýndu okkur svo mikinn áhuga og fyrir það er ég ævinlega þakklát.

Fyrsta utanlandsferðin mín var með þeim, þá fórum við til uppáhaldsborgarinnar þeirra, Kaupmannahafnar. Við áttum frábærar stundir í Köben og amma leyfði mér að kaupa allt sem ég vildi enda átti hún voðalega erfitt með að segja nei.

Æskuárin mín voru rosalega góð og er það að miklu leyti ömmu og afa að þakka. Þau gerðu líf okkar svo skemmtilegt með sumarbústaðaferðum, ísbíltúrum og ógleymanlegum matarboðum þar sem var mikið hlegið, enda miklir húmoristar. Amma ullaði oft á afa ef hann sagði eitthvað vitlaust, hún gat verið alveg svakalega fyndin.

Jólin mín voru alveg einstaklega hlý og skemmtileg, það var ömmu að þakka. Hún hafði mikið fyrir því að skreyta allt heima hjá sér, baka og passa upp á að allir fengju fallegar gjafir. Ég fæ hlýtt í hjartað þegar ég hugsa um þessa tíma og mun halda í hennar hefðir fyrir dætur mínar svo þær upplifi sama kærleika og gleði á jólunum og amma gaf mér. Ég mun líka reyna að elda jafn góðan mat og amma, en hún gerði alveg einstaklega góðan „ömmumat“ sem allir voru sólgnir í.

Síðustu árin var hún mjög veik og naut ekki lífsins jafn vel og áður. Sérstaklega eftir að afi dó, þá dó eitthvað inni í ömmu og lífið varð erfitt. Mér finnst gott að hugsa til þess að hún sé hjá afa núna með öllum hinum sem hafa kvatt hið jarðneska líf. Núna er hún komin í ró og frið og fylgist með okkur að ofan.

Elsku besta amma mín, takk fyrir allt sem þú gafst mér, þú varst alveg einstök og þið afi verðið alltaf í hjarta mínu.

Hver fugl skal þreyta flugið móti sól,

að fótskör guðs, að lambsins dýrðarstól,

og setjast loks á silfurbláa tjörn

og syngja fyrir lítil englabörn.

Nú fljúga mínir fuglar, góða dís.

Nú fagna englar guðs í Paradís.

(Davíð Stefánsson)

Ása Ottesen.