Nauðsynleg fjárfesting á Alexandersflugvelli við Sauðárkrók svo hann geti tekið á móti stórum farþegaþotum með litlum fyrirvara er á bilinu 4,0–5,1 milljarður króna.
Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni varaþingsmanni VG um varaflugvöll við Sauðárkrók. Ráðherra segir ekki þörf á að fjölga varaflugvöllum.
Í svarinu kemur ennfremur fram að rekstrarkostnaður flugvallarins á ári, án afskrifta og kostnaðar vegna fjárbindingar, væri á bilinu 400–600 millj. kr. Framangreint kostnaðarmat gerir ekki ráð fyrir aðstöðu fyrir afgreiðslu eldsneytis á stærri flugvélar. Kröfur til slíkrar aðstöðu hafa aukist mjög undanfarin ár, segir ráðherra.
Um síðustu áramót tók gildi hér á landi ný og hert reglugerð um flugvernd og gildir hún um flugvelli sem notaðir eru til millilandaflugs.
Til þess að Alexandersflugvöllur uppfylli allar kröfur þyrfti að ráðast í miklar og kostnaðarsamar framkvæmdir þar sem flugvöllurinn var ekki hannaður sem millilandafluvöllur. Sem dæmi um þætti sem byggja þyrfti upp má nefna flugverndaraðstöðu, slitlag á vellinum og aðflugsbúnað. Kostnaður við endurnýjun yfirborðs flugbrautar og breikkun hennar auk malbikunar er t.d. metinn á 1,5–2,0 milljarða króna. Þá er fjárfesting í flugstöð, sem uppfyllir allar kröfur til húsnæðis, tækjabúnaðar, landamæravörslu og móttöku allt að 200 farþega, metin á um 1,0–1,5 milljarða króna.
Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur munu því áfram þjóna hlutverki varaflugvalla, segir ráðherra. sisi@mbl.is