Framhaldsskólar
Lið frá Verzlunarskóla Íslands, skipað þeim Arnaldi Þór Guðmundssyni, Atla Snæ Jóhannssyni og Gísla Þór Gunnarssyni, hreppti sigurlaunin í Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna sem haldin var nýlega á vegum viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Fyrirkomulag keppninnar var á þá leið að lið sem samanstóðu af þremur til fjórum einstaklingum stýrðu fyrirtæki, í þessu tilfelli súkkulaðiverksmiðju, í ákveðinn tíma og kepptu sín á milli um að ná sem bestum árangri. Liðin þurftu að leysa margvísleg vandamál sem upp komu og skila góðum rekstri.
Í öðru sæti í keppninni varð lið Borgarholtsskóla og í þriðja sæti varð annað lið frá Verzlunarskólanum.
Gefi stjórnun gaum
Í frétt frá Háskólanum í Reykjavík segir að markmið keppninnar, sem nú var haldin í annað sinn, sé að kynna stjórnun fyrir nemendum í framhaldsskóla og hvetja þá til að gefa faginu gaum. tobj@mbl.is