Bjarnheiður Hallsdóttir
Bjarnheiður Hallsdóttir
Ferðaþjónusta Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Katla DMI, er nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Þetta var tilkynnt á aðalfundi SAF í gær. Tekur hún við embættinu af Grími Sæmundsen sem verið hefur formaður samtakanna í fjögur ár.

Ferðaþjónusta

Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Katla DMI, er nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Þetta var tilkynnt á aðalfundi SAF í gær. Tekur hún við embættinu af Grími Sæmundsen sem verið hefur formaður samtakanna í fjögur ár. Hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Í formannskjörinu atti hún kappi við tvo mótframbjóðendur, þá Þóri Garðarsson, framkvæmdastjóra Gray Line, og Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóra bílaleigunnar Geysis. Áður hafði Róbert Guðfinnsson dregið framboð sitt til baka.

Gríðarlega mjótt var á munum. Af um 70 þúsund greiddum atkvæðum munaði aðeins 72 atkvæðum á Bjarnheiði og Þóri. Þannig hlaut hún 44,72% greiddra atkvæða en Þórir 44,62%. Margeir hlaut 10,65%. Ásamt Bjarnheiði voru kjörin í stjórn þau Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, rekstrarstjóri sölu- og markaðssviðs Kynnisferða, Ívar Ingimarsson, framkvæmdastjóri Óseyrar, Ólöf R. Einarsdóttir, eigandi Mountaineers of Iceland, og Jakob E. Jakobsson, eigandi Jómfrúarinnar. Fyrir eiga sæti í stjórninni þau Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Icelandair Group, og Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Radisson Blu Hótels Sögu.