Alls sex karlmenn og 16 konur saka dönsku leikstjórana Lasse Nielsen og Ernst Johansen um hafa brotið á sér kynferðislega þegar þau voru á barnsaldri við tökur unglingamynda á borð við La' os være og Du er ikke alene sem nutu mikilla vinsælda í Danmörku á áttunda áratug síðustu aldar. Myndir þeirra áttu það sameiginlegt að fjalla um kynþroska aðalpersónanna og fyrstu kynlífsreynslu þeirra og því voru leikaranir ungu oft fáklæddir í myndunum. Að sögn þolenda brutu leikstjórarnir, sem báðir voru líka uppeldismenntaðir, á börnunum þegar þau voru á aldrinum 11-16 ára undir því yfirskini að þeir væru að þjálfa börnin og undirbúa svo þau gætu slappað af fyrir framan myndavélina. Brotin eiga líka að hafa átt sér stað í starfi þeirra við uppeldisstofnanir og verið framin á um 15 ára tímabili.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegum greinaflokki sem birtist nýverið í danska dagblaðinu Politiken undir yfirskriftinni „De misbrugte filmbørn“ eða Misnotuðu kvikmyndabörnin og í samnefndri heimildarmynd sem sýnd var á sjónvarpsstöðinni TV2 . Blaðamenn miðlanna tveggja hafa rannsakað efniviðinn í tæp tvö ár og á þeim tíma rætt við tæplega 100 manns, þeirra á meðal þolendur og fagfólk á sviði kynferðisofbeldis. Einnig er stuðst við dómskjöl, en Ernst Johansen var á árunum 1977-84 dæmdur fyrir kynferðisofbeldi gegn þremur ólögráða stúlkum á sama tíma og hann var að leikstýra ungmennum. Á sínum tíma játaði Johansen sök en þvertekur fyrir það í dag.
Lasse Nielsen vildi ekki veita Politiken viðtal og bar því við að hann myndi ekkert frá fyrri tíð. Í viðtali við danska kvikmyndatímaritið Ekko , sem birtist í upphafi árs, segist hann vilja sjá lögræðisaldurinn í Danmörku lækkaðan í 12 ár. Hann viðurkennir að hafa haft mök við unga drengi sem léku í myndum hans en telur að það hafi ávallt verið með samþykki barnanna. „Mér líður ekki eins og ég hafi misboðið börnum, því skynjun mín var sú að þau vildu þetta,“ segir Nielsen sem, líkt og Johansen, hefur búið á Taílandi síðustu árin. Þar starfar Nielsen enn við kvikmyndagerð með fókus á kynþroskaaldur aðalpersóna sinna. Meðal nýlegra mynda hans er stuttmyndin Happy Birthday sem fjallar um 14 ára dreng sem gremst það að mega ekki stunda kynlíf með fullorðnum nágranna sínum sökum ungs aldurs, en lögræðisaldurinn þar í landi mun vera 15 ár. silja@mbl.is