Manndráp Frá vettvangi við Hagamel í september á síðasta ári.
Manndráp Frá vettvangi við Hagamel í september á síðasta ári. — Morgunblaðið/Golli
Jóhann Ólafsson Þorgerður Anna Gunnarsdóttir „Menn verða ekki ósakhæfir þó að þeir séu undir miklum áhrifum áfengis eða séu afbrýðisamir.

Jóhann Ólafsson

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

„Menn verða ekki ósakhæfir þó að þeir séu undir miklum áhrifum áfengis eða séu afbrýðisamir.“ Þetta sagði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sem fer fram á 16 ára fangelsisdóm yfir Khaled Cairo fyrir að hafa orðið Sanitu Brauna að bana á Hagamel í september í fyrra. Aðalmeðferð í málinu hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Lögmaður Cairo, Vilhjálmur Vilhjálmsson, fer fram á að skjólstæðingi verði ekki gerð refsing vegna ósakhæfis.

Meðal þeirra sem komu fyrir dóminn var maður sem bjó í sama húsi og Sanita. Hann kvaðst hafa orðið vitni að manndrápi á ganginum heima hjá sér. Hann hringdi á lögregluna og tilkynnti heimilisofbeldi. Símtal vitnisins við neyðarlínuna var spilað í dómsal. „Ég held að hann sé að reyna að drepa hana,“ heyrðist í vitninu.

Leifur Halldórsson rannsóknarlögreglumaður sem fór með rannsókn málsins sagði ákærða hafa verið óvenju glaðlegan við skýrslutöku. Hann sagði ákærða meðal annars hafa sagt Sanitu hafa átt þetta skilið fyrir að leika sér að tilfinningum hans. Leifur sagðist enn fremur ekki hafa verið viss um að ákærði áttaði sig á því að Sanita væri látin. Hann sagði hegðun mannsins hafa fengið sig til að velta fyrir sér hvort hann hefði andlega annmarka.

Tveir geðlæknar sem báru vitni fyrir dómi lýstu því báðir að Cairo væri sakhæfur. Nanna Briem lýsti því að þrjú samtöl sín og annars geðlæknis við Cairo hefðu leitt þau til þeirrar niðurstöðu að hann væri sakhæfur. Þau hefðu ekki séð mikil merki um iðrun og samkennd hjá honum. Sigurður Páll Pálsson hitti ákærða fimm sinnum og sagði ákærða sjálfan hafa lýst mikilli reiði og afbrýðisemi. Þá kvaðst Sigurður telja líklegt að hlátur Cairo við skýrslutöku væri varnarviðbrögð frekar en geðrof.

Sebastian Kunz réttarmeinafræðingur, sem framkvæmdi krufningu á Sanitu, sagði dánarörsök blóðleysi til höfuðs sökum höfuðhögga, auk þess sem áverkar á hálsi eftir kyrkingar gætu verið meðvirkur þáttur.