[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er ekki auðvelt að henda í pistil þegar maður er orðlaus og þið verðið að fyrirgefa ef ég rugla bara í þessum pistli.

Það er ekki auðvelt að henda í pistil þegar maður er orðlaus og þið verðið að fyrirgefa ef ég rugla bara í þessum pistli. Það þarf mikið til að ég verði orðlaus en undrabarninu úr Hafnarfirði tókst það með svakalegustu sigurkörfu sem ég hef nokkurn tímann séð og hef ég séð ýmislegt á langri ævi.

Það er ekkert eðlilegt við það að skora sex stig á rúmum þremur sekúndum. Fyrst þrjú víti til að jafna leik í úrslitakeppni og síðan skora úr eigin vítateig. Ég er farinn að spyrja mig spurninga: úr hverju Kári er gerður. Er hann einhver ofurhetja sem er ekki mannleg nema að hluta til? Hann hefur skorað fleiri sigurkörfur frá eigin vallarhelming í gegnum tíðina en þarna toppaði hann allt saman.

Samningur við djöfulinn?

Venjuleg manneskja myndi líka verða pínu stressuð á vítalínunni með þá pressu að þurfa að hitta úr öllum þremur vítaskotunum til að jafna leikinn. Maður sá á andlitinu á krakkanum að hann væri að fara að hitta þeim öllum. Öll þrjú snertu ekkert nema netið. Gerði hann samning við djöfulinn fyrir einhverju síðan?

Eins sætt og það var fyrir Hauka að vinna með svona ævintýralegum hætti þá er það jafn skelfilegt fyrir Keflavík að tapa svona. Þvílíka tuskan í andlitið eftir að hafa verið með leikinn í hendi sér. Ég hefði örugglega farið að grenja um leið og sigurskotið söng í netinu. Það verður ekki auðvelt fyrir Keflvíkinga að rífa sig upp eftir þetta í leik þrjú. Ég gæti trúað að þeim liði eins og örlögin hafi gripið inn í og þeim ekki ætlað að vinna leik í þessari seríu. Það er heldur ekki sanngjarnt þegar hitt liðið er með ofurhetju sem getur hluti sem enginn annar getur og sem er ekki hægt að stöðva.

Grindavík hefur ekki andlega styrkinn

Grindvíkingar voru svo nálægt því að vinna á Króknum í fyrsta leik sínum gegn Tindastóli og voru sjálfum sér verstir í lokin þegar kom að því að innsigla sigurinn. Þeir virðast ekki hafa náð að vinna úr þessu sára tapi fyrir norðan og steinlágu á heimavelli í leik tvö. Þegar maður upplifir sárt tap þá reynir á andlegan styrk sem Grindavík virðist ekki hafa. Annað hvort draga sár töp lið niður eða lið styrkjast við slíkt mótlæti. Grindavík algjörlega brotnaði í næsta leik á meðan Tindastóll lék á als oddi.

Sigtryggur Arnar Björnsson virðist ekki geta átt slaka leiki þetta tímabilið með Stólunum og Antonio Hester er búinn að vera svakalegur undanfarið. Þá er ákveðin stemning með Stólunum þetta tímabilið sem erfitt er að eiga við.

KR í gírnum en Vinson er horfinn

KR-ingar virðast ekki þurfa að hafa mikið fyrir því að komast í undanúrslit. Ég var á því að Njarðvíkingar myndu gíra sig vel upp fyrir þessa seríu eins og alltaf gegn KR í úrslitakeppni en annað er að koma á daginn. KR-ingar eru mættir í úrslitakeppnisgírinn á meðan Njarðvíkingar eru að spila eins og það sé ennþá deildarkeppni í gangi í nóvember. Terrell Vinson hefur algjörlega horfið í þessum leikjum eftir frábæran vetur fram að úrslitakeppninni. Njarðvíkingar mega ekki við því en þessi máttlausa frammistaða verður ekki eingöngu skrifuð á hann því fleiri leikmenn eiga töluvert inni.

Séra Friðrik væri farinn

Á meðan það stefnir í að öllum þremur Suðurnesjaliðunum verði sópað út þetta árið þá verður rimma ÍR og Stjörnunnar væntanlega mest spennandi í 8-liða úrslitum. Stjarnan gerði vel og jafnaði metin á heimavelli og virðast þessi lið vera nokkuð jöfn. Kappið virðist ætla að bera fegurðina ofurliði í þessari seríu og er ég viss um að séra Friðrik væri búinn að yfirgefa leikina í fyrri hálfleik.

En baráttan og vinnusemin er til fyrirmyndar hjá báðum liðum og leikirnir algjörlega stál í stál. Þetta verður alvöru viðureign áfram og yrði ég ekki hissa ef hún færi í oddaleik.

Sérfræðingur Morgunblaðsins Benedikt Guðmundsson benediktrunar@hotmailmail.com Benedikt Guðmundsson er reyndur körfuboltaþjálfari og fyrrverandi íþróttafréttamaður sem er sérfræðingur Morgunblaðsins í körfubolta í vetur. Í dag fer hann yfir stöðu mála eftir tvo leiki í átta liða úrslitum karla.

Höf.: Sérfræðingur Morgunblaðsins Benedikt Guðmundsson benediktrunar@hotmailmail.com Benedikt Guðmundsson er reyndur körfuboltaþjálfar, fyrrverandi íþróttafréttamaður sem er sérfræðingur Morgunblaðsins í körfubolta í vetur. Í dag fer hann yfir stöðu mála eftir tvo