Margt hefur gerst síðan ViðskiptaMogginn tók síðast hús á Fisherman fyrir réttum tveimur árum. Þá snérist starfsemin einkum um ferðaþjónustu en Fisherman rekur vinsælt hótel á Suðureyri og hefur um nokkurra ára skeið boðið ferðamönnum upp á að skoða fiskvinnslur og -verkanir á svæðinu. Í dag framleiðir Fisherman einnig vandaða vörulínu sjávarafurða sem seldar eru í smekklegum umbúðum, og nú síðast að fyrirtækið opnaði litla verslun á Hagamel þar sem kaupa má Fisherman-vörurnar og heita fiskrétti.
Elías Guðmundsson er framkvæmdastjóri Fisherman og á sér stóra drauma um framtíð fyrirtækisins. Gæti jafnvel verið inni í myndinni að opna Fisherman-búðir í erlendum stórborgum.
Saga Fisherman hófst fyrir átján árum þegar Elías og fjölskylda hans keyptu gamalt hús á Suðureyri. „Það stóð til að rífa þetta hús en við keyptum það fyrir 50.000 kr, gerðum upp og breyttum í lítið gistihús. Þetta var áhugamál fjölskyldunnar og eitthvað sem við sinntum meðfram annarri vinnu en árið 2005 byrjaði ég að sinna þessu verkefni í fullu starfi. Smám saman stækkaði gistiheimilið og varð á endanum að þriggja stjörnu hóteli, auk þess að kaffihús og veitingahús bættust við reksturinn,“ útskýrir hann.
Elías áttaði sig á að ferðamennirnir voru mjög forvitnir um matvælaframleiðsluna á svæðinu og áhugasamir um að skoða fiskvinnslur, harðfiskþurrkun og upplifa lífið á bryggjunni. Líkir hann ferðum Fisherman við þær sem standa til boða í vínræktunar- og ostahéröðum Evrópu þar sem framleiðendur leyfa gestum að sjá hvernig varan verður til. „Við bjuggum til ferðir sem við köllum á ensku Seafood trail, þar sem fólk fær að kynnast sjávarútveginum á svæðinu frá fyrstu hendi. Erum við núna komin með sex rútur sem við notum í þessar ferðir, með pláss fyrir fimmtíu manns í hverri ferð og skipta gestirnir þúsundum ár hvert.“
Fiskur með sögu
En ferðamannatímabilið á Vestfjörðum er ekki langt og var Elíasi ljóst að þörf væri á að renna fleiri stoðum undir reksturinn. Kviknaði þá sú hugmynd að selja vörur undir merki Fisherman. Eftir mikla rannsóknar-, hugmynda- og hönnunarvinnu leit dagsins ljós vörulína með gæðavörum frá framleiðendum á svæðinu í samræmdum umbúðum. Pakkningarnar segja frá uppruna vörunnar og skapa áhugaverða sögu í kringum hana. „Við viljum segja kaupandanum að við séum stolt af uppruna okkar og því sem við framleiðum og að allir séu velkomnir að heimsækja okkur til að sjá með eigin augum hvernig varan verður til,“ segir Elías. Hann notaði tækifærið og gerði undirbúning Fisherman-vörumerkisins að lokaverkefni sínu í MBA-námi við Háskólann Íslands. Ljóstrar Elías því upp að ein ástæðan fyrir því hve vel tókst til við þróunina er að hann gat nýtt sér þekkingu góðs fólks í háskólasamfélaginu.Ekki var erfitt að fá aðra matvælaframleiðendur á Vestfjörðum til að taka þátt en í vörulínu Fisherman má t.d. finna nokkrar gerðir af þurrkuðum fiski, sósur, söl og niðursoðna þorsklifur. „Um er að ræða vörur frá fyrirtækjum sem framleiða aðallega fyrir erlenda markaði, en höfðu áhuga á að vera líka hluti af þessu sjálfstæða vörumerki. Með því að vera hluti af Fisherman fá þau aðgang að góðu dreifineti og njóta góðs af þeim styrk sem felst í að vera hluti af stærra vörumerki. Eins og oft hefur verið notað sem kjörorð okkar hér fyrir vestan þá gerir maður ekki rassgat einn,“ segir Elías og hlær.
Agnarsmá útgáfa af Bakkavör
Þróunin í smásölu á fiski hefur verið í þá átt að bjóða neytendum upp á æ smærri pakkningar af snotrum fiskbitum sem auðvelt er að elda og taka sig vel út í hillum stórmarkaðanna. Þegar blaðamaður spyr hvort Fisherman sé ekki að beita gömlu viðskiptamódeli með því að opna fiskbúð þá er Elías fljótur að leiðrétta þann misskilning. Hann segir fiskbúðinni á Hagamel betur lýst sem n.k. „street food“-stað. Þar er má fá allar Fisherman-vörurnar, s.s. vinsæla bakka með fiskbollum, plokkfiski eða ýsu í raspi sem skella má beint í ofninn heima, en líka fiskrétti sem eru afgreiddir heitir beint yfir búðarborðið:„Neytendur gera æ minna af því að kaupa fisk á gamla mátann, þar sem þeir fá flök og bita yfir búðarborðið og elda heima. Það sem fólk vill fá eru tilbúnar og eldaðar vörur sem má helst leggja á borð um leið og heim er komið, frekar en kíló af ýsu eða þorski sem önnum kafinn kaupandinn þarf að hafa fyrir að elda sjálfur.“
Ef vel gengur er stefnt að því að opna fleiri Fisherman-verslanir innanlands, og síðan freista gæfunnar erlendis. Þar sér Elías fyrir sér að fiskbúðirnar gætu verið n.k. örverksmiðjur þar sem fiski og fiskréttum væri pakkað í neytendaumbúðir og dreift til stórmarkaða í næsta nágrenni. Grínast hann með að hver fiskbúð væri eins og agnarsmá útgáfa af skyndiréttaverksmiðjum Bakkavarar. „Til að varan sé sem ferskust þarf að búa hana til sem næst versluninni þar sem hún er seld,“ útskýrir hann. „Við eigum þegar í samstarfi við fyrirtæki sem dreifa vörum sínum inn á þá markaði sem við höfum augastað á, og gætum við sent okkar vörur í samfloti. Vöruflutningabílar leggja af stað frá Suðureyri stundvíslega kl. 4 hvern einasta dag, fiskurinn er kominn upp á flugvöll síðar um kvöldið, á áfangastað úti í heimi næsta morgun og gæti verið kominn í Fisherman-verslun nánast hvar sem er á hádegi. Þetta er ekki flóknara en það.“