Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Raunhæft er að binda eina milljón tonna af koltvíoxíði árlega í íslenskum skógum um miðja öldina. Um leið mætti stórauka tekjur af skógrækt.
Þetta segir Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar, og vísar til tækniþróunar. Á næstu áratugum muni lífræna hagkerfið taka við af olíuhagkerfinu.
Skógræktin, Landssamtök skógareigenda og Skógræktarfélag Íslands stóðu fyrir fundi á alþjóðlegum degi skóga í gær. Þar voru kynntar tvær sviðsmyndir um skógrækt á öldinni. Annars vegar óbreytta nýskógrækt og hins vegar fjórfjöldun frá því sem nú er. Með óbreyttri nýskógrækt muni kolefnisbindingin fara yfir hálfa milljón tonna í kringum 2040 en dala síðan áður en hún vaxi á ný. Með því hins vegar að fjórfalda skógræktina verði stöðug aukning í bindingunni út þessa öld.
Markmið kallar á meiri framlög
Pétur segir að við efnahagshrunið hafi framlög ríkisins til nýskógræktar dregist mikið saman. Bróðurparturinn hafi verið ríkisframlög til skógræktar á lögbýlum með því markmiði að klæða 5% láglendis skógi á 40 árum en það markmið náist ekki að óbreyttu. Vegna niðurskurðar „þurfi menn að spýta í lófana“. Framlög til nýskógræktar í síðustu ríkisfjármálaáætlun hafi valdið vonbrigðum. Því sé nú lögð fram tillaga þegar ný ríkisfjármálaáætlun er í smíðum.„Framlög til nýskógræktarverkefna voru skorin niður um helming. Þau fóru úr 6 milljónum trjáa á ári niður í 3 milljónir og hafa verið á þeim slóðum síðan. Síðustu ár hefur mikið verið rætt um kolefnisbindingu og að styrkja þurfi bændurna og efla sveitirnar. Það gerist hins vegar ekki neitt. Það kemur alltaf sama framlagið ár eftir ár. Við ákváðum því að leggja fram skýra tillögu sem ráðamenn gætu unnið með og er okkar framlag. Við erum ekki að segja að þetta sé eina leiðin, eða sú besta. Hún er hins vegar eitt af því sem við getum gert. Um leið má slá margar flugur í einu höggi; binda kolefni og búa til ný verkefni fyrir bændur og greiða af skuld okkar við landið.“
Framlag ríkisins til nýskógræktar er nú ríflega 300 milljónir á ári. Til að fjórfalda ræktunina þyrfti framlagið að hækka í 1.200 milljónir. Pétur segir aðspurður að síðustu mánuði hafi sú skoðun fengið byr undir báða vængi að auka þurfi framlög til skógræktar og loftslagsmála. Bættur efnahagur skapi skilyrði til meiri uppbyggingar. Við átakið þurfi hin ýmsu samtök að vinna betur saman.
Fram kom á fundinum að með því að fjórfalda skógrækt sé stuðlað að stórauknum tekjum af skógi og lagður grunnur að nýrri byltingu.
„Framtíðin liggur í lífhagkerfinu. Við erum að segja skilið við olíuhagkerfið. Timbur verður aðalhráefni lífhagkerfisins. Það er hægt að framleiða allt úr trjám sem er hægt að framleiða úr olíu. Menn eru farnir að byggja úr krosslímdu efni sem gefur þykka fleka og sterka sem standast stáli og steinsteypu snúning að öllu leyti. Rætt er um að háhýsi framtíðarinnar verði reist úr þessu efni,“ segir Pétur Halldórsson.