[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Harðari samkeppni og þyngri rekstur veldur því að bílaleigurnar skipta margar um kúrs á nýju ári og kaupa minna inn af nýjum bílum.

Skráðir bílaleigubílar hér á landi reyndust ríflega 19.800 í febrúar síðastliðnum og hafði fjölgað um rúm 16% frá því í febrúar í fyrra. Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, segir að þessar tölur gefi afar skakka mynd af stöðunni á þessum markaði í dag.

„Þessar tölur eru í raun mjög villandi þar sem margar bílaleigur gripu til þess ráðs undir lok síðasta árs að kaupa inn fjölda bíla. Það gerðu þær vegna þess að um áramótin tóku gildi nýjar reglur um vörugjöld á bílaleigubíla,“ segir Steingrímur.

Hann segir erfitt að fullyrða um hvernig þróunin verði fram á árið en að hans tilfinning sé þó sú að fjöldi bílaleigubíla sem verði í notkun á árinu verði svipaður eða örlítið meiri en á síðasta ári. Ósennilegt sé að fjölga muni verulega í flotanum líkt og á síðustu árum. Í því sambandi sýna tölur Hagstofunnar að skráðum bílaleigubílum hér á landi hafði fjölgað um 360% í ágúst síðastliðnum, samanborið við fjöldann í sama mánuði 2011. Á milli áranna 2016 og 2017 fjölgaði í flotanum um 25%, sé miðað við fyrrnefndan ágústmánuð. Raunar hefur bílaleigubílum fjölgað um tæp 25% að meðaltali á hverju ári allt frá árinu 2011.

Hörð samkeppni hefur áhrif

Spurður út í ástæður þess að hann telji flotann munu standa í stað á árinu segir Steingrímur að versnandi rekstrarumhverfi ráði þar mestu og að stórar bílaleigur hafi ákveðið að rifa seglin fyrir komandi ár.

„Við höfum t.d. ákveðið að fjölga ekki í flotanum hjá okkur og teljum rétt að stíga varlega til jarðar fyrir þetta ár.“

Í sama streng tekur Þorsteinn Þorgeirsson, framkvæmdastjóri bifreiðasviðs Avis.

„Það verður að segjast eins og er að síðasta rekstrarár var almennt ekkert sérstaklega gott. Það var mikill slagur í verðum og á þeim tímum ársins þegar minna er að gera reyndist talsvert offramboð á markaðnum. Þá sjá það auðvitað allir í hendi sér að það er orðið mjög dýrt að koma hingað til lands og sterk króna gerir okkur erfitt fyrir.“

Þorsteinn segir að Avis hyggist stíga varlega til jarðar á markaðnum í ár og að fyrirtækið hafi tekið mjög lítið inn af nýjum bílum fyrir áramótin.

Flotinn mun eldast á næstunni

Steingrímur segir að Bílaleiga

Akureyrar hyggist bregðast við breyttum aðstæðum á markaðnum með því að kaupa minna inn af nýjum bílum og að flotinn verði keyrður lengur en hingað til.

„Núna er meðalaldur flotans um 1,5 ár en hann mun hækka á komandi misserum. Við höldum bílunum lengur í flotanum og tökum færri nýja inn. Ég geri ráð fyrir því að við kaupum 20% færri nýja bíla inn á þessu ári en við gerðum í fyrra.“

Þorsteinn segir að það stefni í að flotinn eldist enda geri versnandi afkoma fyrirtækjanna það að verkum að þau verði að leita leiða til að draga úr kostnaði.

Sameiningar fram undan

Þorsteinn segir að ástandið á markaðnum muni einnig hafa þau áhrif að bílaleigum muni fækka með sameiningum en í dag eru þær ríflega 140 talsins í landinu.

„Ég tel það óumflýjanlegt. Margar þeirra eru af óhagkvæmri stærð og ég hef heyrt að í pípunum séu sameiningar sem á í raun ekki að koma sérstaklega á óvart.“