Baráttan um fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppni Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik harðnaði enn frekar með sigri Skallagríms á Stjörnunni 89:69 í Borgarnesi í gær. Liðin eru nú jöfn í 4.-5. sæti með 28 stig þegar einungis lokaumferðin er eftir.
Þar eiga bæði þessi lið erfiða andstæðinga. Skallagrímur fer á Ásvelli og leikur gegn deildameisturum Hauka. Stjarnan á heimaleik á móti Val sem er í baráttu við Íslands- og bikarmeistara Keflavíkur um 2. sætið í deildinni.
Fari svo að Skallagrímur og Stjarnan verði með jafnmörg stig að deildakeppninni lokinni fær Skallagrímur fjórða sætið vegna innbyrðisviðureigna liðanna. Þar er Skallagrímur með þrjá sigra en Stjarnan einn.
Eins og áður segir mun Valur fara í Garðabæinn og mæta Stjörnunni í lokaumferðinni en ríkjandi meistarar í Keflavík eiga grannaslag í Njarðvík gegn botnliðinu. Eftir stórsigur Keflavíkur á Haukum í gær, 90:70, verður að teljast líklegt að Keflavík bæti við tveimur stigum í lokaumferðinni þótt Njarðvík hafi unnið sinn fyrsta sigur í gær í Smáranum, 59:77.
Valur tapaði nokkuð óvænt á Hlíðarenda í gær fyrir Snæfelli, 58:59. Keflavík er tveimur stigum ofar en Valur með 38 stig. Fari svo að liðin verði jöfn að deildakeppninni lokinni fær Valur annað sætið þar sem liðið varð ofan á í innbyrðisviðureignum liðanna. Þar unnu liðin hvort sína tvo leikina en Valur vann stærri sigra.
33 stig hjá Tyson-Thomas
Í Borgarnesi voru þær bandarísku stigahæstar. Carmen Tyson-Thomas var með 33 stig, 15 fráköst og 8 stoðsendingar í mikilvægum sigri Skallagríms. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skilaði 18 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Danielle Victoria Rodriguez gerði 32 stig fyrir Stjörnuna og gaf 12 stoðsendingar.Á Hlíðarenda var Kristen Denise McCarthy stigahæst í sigri Snæfells með 24 stig og gaf 14 fráköst og Alda Leif Jónsdóttir var með 11 stig. Aalyah Whiteside var stigahæst hjá Val með 20 stig og tók 14 fráköst en Valskonur gætu þurft að sætta sig við 3. sætið í deildakeppninni eftir þetta tap en liðið var á toppnum í lok árs.
Í Keflavík voru ríkjandi meistarar sannfærandi gegn deildameisturunum og kvittuðu fyrir sárt tap karlaliðsins gegn sömu andstæðingum kvöldið áður. Brittanny Dinkins skilaði Keflavík fjörtíu stigum og tók 11 fráköst. Hjá Haukum var Helena Sverrisdóttir atkvæðamest með 21 stig og tók átta fráköst. kris@mbl.is