Sinfóníuhljómsveit Íslands, Schola cantorum og úrvalslið íslenskra söngvara frumflytja annað kvöld, föstudag, annan hluta óratoríunnar Eddu eftir Jón Leifs, Eddu II - Líf guðanna . Óratórían Edda var stærsta verk Jóns og eitt metnaðarfyllsta tónverk íslenskrar tónlistarsögu, byggð á textum úr Eddukvæðum og Snorra-Eddu. Jón hóf að leggja drög að Eddu I um 1930 en náði ekki að ljúka þriðju óratoríunni áður en hann lést árið 1968. Fyrsti hluti verksins, Edda I - Sköpun heimsins , var frumfluttur í heild árið 2006.
Hér eru hljómsveitarstjórinn Hermann Bäumer og Kristinn Sigmundsson, einn söngvaranna, á æfingu í gær. Aðrir einsöngvarar eru Hanna Dóra Sturludóttir, og Elmar Gilbertsson. Tónleikarnir í Hörpu annað kvöld eru hluti af opinberri hátíðardagskrá í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands.