Viðtal
Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Spennusagan Blóðmáni hefst þar sem óþokkar ráðast á nashyrning í Kolmården-dýragarðinum skammt frá Norrköping í Svíþjóð og skera af honum hornið. Um líkt leyti áttar sænski rokkarinn Rob Chazey sig á því, þar sem hann stendur á hátindi frægðarinnar í New York, að líf hans er innantómt hjakk. Nánast fyrir tilviljun fer hann að kynna sér hvað valdi því að glæpagengi sækist svo hart eftir nashyrningahornum að skammt er í dýrin hverfi fyrir fullt og allt — verði útdauð.
Höfundur Blóðmána , sænski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Markus Lutteman, kom hingað til lands í síðust viku til að kynna bókina sem Ugla gaf út á íslensku í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. Þetta er ekki fyrsta bókin sem Lutteman skrifar, hann hefur gefið út nokkrar heimildabækur um ýmis efni, en einnig skrifaði hann fyrstu þrjár bækurnar í bókaröðinni um Zack með Mons Kallentoft. Blóðmáni er aftur á móti fyrsta skáldsaga hans.
„Ég var svo heppinn að vera með skilningsríka yfirmenn á meðan ég var í blaðamennskunni,“ segir Lutteman, „og þeir gáfu mér frí þegar ég þurfti að skrifa, en síðustu þrjú ár hef ég eingöngu skrifað bækur. Ég byrjaði á að skrifa bækur tengdar blaðamennsku, en svo leitaði Mons Kallentoft til mín um að skrifa með sér Zack-bækurnar, og ég tók því vel enda langaði mig til að fara að skrifa skáldskap. Samstarfsbækur okkar urðu fjórar, en eftir fjórðu bókina ákvað ég að hætta, lét Mons vita af því með góðum fyrirvara, enda var ég þá með hugmyndina að Blóðmána í huga – hef lengi verið áhugasamur um umhverfismál og náttúruvernd og mig langaði til að skrifa spennubók sem væri með náttúrverndarívafi.“
Ekki enn eina morðsöguna
Sænskar spennusögur hafa notið hylli hér á landi undanfarin ár, ekki síður en víðar um heim, en Lutteman segir að sér hafi ekki þótt spennandi að skrifa enn eina morðsöguna. „Ég hafði ekki rekist á bók eins og mig langaði til að lesa og ákvað því að skrifa hana sjálfur. Í fyrstu var ég ekki viss hvaða náttúruverndarmálefni ég myndi taka fyrir en datt svo niður á nashyrninga. Ég byrjaði með smásögu en eftir því sem ég áttaði mig betur á vandanum óx verkið og varð loks að skáldsögu,“ segir Lutteman og bætir við að á síðasta áratug hafi dráp á nashyrningum aukist svo að við blasir að þeir deyi út á næstu áratugum. „Fyrir áratug drápu veiðiþjófar um tíu nashyrninga á ári til að komast yfir horn þeirra, sem er svo lítið að segja má að það hafi varla verið vandamál. 2007 voru drápin komin upp í þrjátíu dýr, þau voru áttatíu 2008, síðan 120 svo 380 og undanfarin þrjú ár hafa verið drepnir meira en þúsund nashyrningar á ári.Framan af áttuðu vísindamenn sig ekki á því hvers vegna veiðiþjófnaðurinn hefði margfaldast á svo skömmum tíma, enda hirða menn ekki kjötið, láta hræin liggja eftir að hafa skorið af þeim hornin. Í ljós kom svo að nýr orðrómur fór af stað í Víetnam um það að hægt væri að lækna krabbamein með nashyrningshornadufti. Lífsgæði fólks hafa aukist mjög hratt í Víetnam og efnahagur fólks hefur batnað, en heilbrigðiskerfi landsins hefur ekki batnað að sama skapi og þar eru því margir örvæntingarfullir krabbameinssjúklingar. Þar í landi er líka hefð fyrir því að nota líkamshluta dýra til lækninga og því flaug þessi orðómur víða.“
Lutteman segir mestar líkur á að orðrómurinn hafi farið af stað vegna þess að glæpahópar hafi séð sér leik á borði að búa til eftirspurn sem þeir gætu síðan uppfyllt og það hafi heldur en ekki gengið eftir. „Hvert kíló af nashyrningshorni kostar nú 100.000 dollara [um tíu milljónir króna] og það er því dýrara en gull í Víetnam. Þegar upphæðir ná slíkum hæðum koma allskyns alþjóðlegir glæpahringir og -gengi til sögunnar og sendifulltrúar frá Víetnam og Kóreu hafa verið duglegir við að smygla nashyrningshornum frá Afríku í diplómatapósti.“
Eins og kókaín — án áhættu
Hvað veiðiþjófana varðar þá segir Lutteman að engan skyldi undra þó að þeir séu tilbúnir að leggja ýmsar hættur á sig til að ná í nashyrningshorn, enda dugi launin sem þeir fái fyrir eitt slíkt horn til að fæða meðalfjölskyldu í tvö ár. Einnig skipti máli í þessu sambandi að milliliðirnir, þeir sem smygli hornunum milli landa, fái ekki eins harkalega meðferð hjá yfirvöldum ef þeir eru staðnir að verki og ef þeir væru að smygla kókaíni til að mynda. „ Financial Times skrifaði fréttaskýringu um smygl og verslun með nashyrningshorn og valdi greininni fyrirsögina: Eins og kókaín – án áhættu.“Eins og nefnt er í upphafi hefst bókin með því óþokkar ráðast á nashyrning í Kolmården-dýrgarðinum skera af honum hornið. Lutteman segir að þótt það hafi verið skáldskapur hans hafi það einmitt gerst í París stuttu eftir að bók hans kom út í Svíþjóð. Eins fari glæpagengi um Evrópu í leit að uppstoppuðum nashyrningum til þess að skera af þeim hornin.
– Nú hafa menn gripið til ýmissa ráða til að reyna að stemma stigu við þessari ósvinnu, eins og til að mynda með því að deyfa dýrin og skera hornin af þeim sjálfir.
„Já, vissulega, en það er aðeins hægt að gera ef dýrin eru ekki of mörg. Á svæði eins og Kruger-þjóðgarðinum í Suður-Afríku eru sjö þúsund nashyrningar á tuttugu þúsund ferkílómetrum. Svo vaxa hornin aftur á um fimm árum og því þyrfti að endurtaka þetta. Því til viðbótar þá er hornið ekki tekið allt þegar þetta er gert heldur verður eftir um það bil kíló af horni í rótinni sem er nóg fyrir veiðiþjóf. Einnig notar ein tegund nashyrninga hornið til að ýta gróðri til til að ná til fæðu sinnar og myndi því svelta ef hornið yrði tekið. Svo sýna dæmin að hornlausir nashyrningar eru líka drepnir, stundum af veiðiþjófum sem elt hafa þá uppi og þegar þeir sjá að hornið er af vilja þeir ekki lenda í því aftur.
Menn hafa líka gripið til þess að eitra hornin, sem veiðiþjófi er augljóslega sama um, og eins að lita þau, en þar sem veiðin fer yfirleitt fram að nóttu til eða í ljósaskiptunum sér veiðiþjófurinn ekki litinn fyrr en hann er búinn að drepa dýrið og skera af því hornið.
Eina varanlega leiðin er að breyta hugarfari fólks og menn eru að reyna það með auglýsingaherferðum í Asíu, en það er erfitt við að eiga þegar hagnaðarvonin er svo mikil. Það er lykilatriði að draga úr eftirspurninni, því ef til er auðkýfingur sem vill kaupa eitthvað er líka til einhver sem vill skaffa honum það.“
Fræðandi spennusaga
Blóðmáni er spennusaga, eins og getið er, og Lutteman segir að það sé gert með ráðnum hug að skrifa bók með svo mikilvægu inntaki sem spennubók. „Ef ég hefði skrifað blaðamannsbók, líkt og ég hef gert áður, myndi ég kannski selja fáeinar þúsundir eintaka og væntanlega væru flestir sem keyptu bókina hvort eð er sammála mér. Með því að hafa þetta spennubók þá getur fólk lesið hana eins og hvern annan skandinavískan reyfara og þá fræðst um mjög mikilvægt málefni í leiðinni.“Söguhetja bókarinnar, rokkarinn Rob Chazey, á í sálarkreppu þegar bókin hefst, búinn að ná eins langt og hann langaði að ná, búinn að höndla frægðina, en líf hans er innantómt. Fyrir ráð markaðsstjóra tók hann að sér nashyrning í Mósambík til að sýnast umhverfisvinur, en þegar hann fékk póst frá þjóðgarðinum í Suður-Afríku þar sem nashyrningurinn var hýstur um að dýrið hefði verið fellt til að ná af því horninu hélt hann af stað til að kynna sér málið. Það verður til þess að hann finnur nýjan tilgang í lífinu, en líka að hann þarf að glíma við grimmlynda óþokka. Það er því ekki bara dýr í bókinni, heldur líka persóna og leit hennar að hamingju.
Lutteman segir að sér þyki líklegt að Rob Chazey muni snúa aftur í skáldverki síðar, enda sé hægt að gera ýmislegt við stjörnu sem á sæg af seðlum og vílir ekki fyrir sér að brjóta reglur til að ná sínu fram. „Svo getur hann beitt sér á samfélagsmiðlum á markvissari og áhrifameiri hátt en gengur og gerist. Í Blóðmána áttar hann sig á því að hann getur ekki treyst á yfirvöld í baráttunni gegn þeim sem kaupa og selja nashyrningshorn, en hann getur notað frægð sína til að fletta ofan af þeim. Hann birtist þó ekki strax, ég er að skrifa annarskonar bók sem stendur, öðruvísi bók en ég hef áður skrifað.“