Skíði
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
„Þetta er mikil upplifun og var mikið stærri viðburður en ég hafði reiknað með,“ sagði skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson sem er nýkominn heim eftir vel heppnaða för og þátttöku á Vetrarólympíumóti fatlaðra í Pyeongchang í Suður-Kóreu.
„Keppendur voru mjög margir og alveg ótrúlegur fjöldi af sjálfboðaliðum að vinna í kringum mótið sem er sannarlega það langstærsta sem ég hef nokkurn tímann tekið þátt í,“ sagði hinn 17 ára gamli ólympíufari í sjöunda himni með þátttökuna. Hann er staðráðinn í endurtaka leikinn að fjórum árum liðnum.
Hilmar Snær var eini íslenski keppandinn á mótinu. Hann hafnaði í 13. sæti í svigi af 40 keppendum í standandi flokki hreyfihamlaðra, LW2, og hreppti 20. sæti í stórsvigi. „Ég er mjög ánægður með árangurinn. Fyrir utan að ég gerði lítils háttar mistök í fyrri ferðinni í sviginu, seinni keppnisgreininni minni á laugardaginn. Annars er ég mjög sáttur við mig,“ sagði Hilmar Snær sem var að taka þátt í sínu fyrsta stórmóti með stóru essi á ferlinum. Hann er jafnframt yngsti keppandi sem Ísland hefur sent á Vetrarólympíumót fatlaðra.
Hilmar segir aðstæður á keppnisstað hafa verið fyrsta flokks enda var hann byggður sérstaklega upp til þess að halda Vetrarólympíuleikana og vetrarólympíumótið en kröfur Alþjóðaólympíunefndarinnar til aðstæðna á mótum eru miklar. „Það var frábært að taka þátt.“
Yfir 20 gráðu hiti
Aðstaðan var svo sannarlega alveg frábær. Eina sem setti strik í reikninginn var að um tíma var mjög heitt í veðri. Hitinn fór í 21 gráðu við rásmarkið þegar stórsvigskeppnin fór fram. „Ég var alveg að stikna úr hita. Það voru svolítið aðrar aðstæður en þegar Vetrarólympíuleikarnir fóru fram á sama stað í febrúar. Þá var töluvert frost og vindkæling til viðbótar,“ sagði Hilmar Snær. Forsvarsmenn mótsins voru greinilega vel undir það búnir að hitinn gæti rokið upp. Til þess að draga úr þiðnun snjósins var salti mokað saman við snjóinn í brekkunum. „Ástandið var verst fyrstu daga mótsins. Þegar á leið dró úr hitanum. Einn daginn voru brekkurnar lokaðar vegna hlýinda, þá var snjórinn eins súpa. Eftir þetta frysti hressilega á nóttunni sem varð þess valdandi að brekkurnar voru eitt klakastykki og færið þess vegna glerhart.“
Brekkurnar voru frábærar
Þrátt fyrir sveiflur í veðrinu fengu keppendur að æfa á milli þess sem þeir kepptu. Þeir þekktu því aðstæður ágætlega þegar röðin kom að þeim í keppninni. „Aðstæður til æfinga voru fínar fyrir utan þennan eina dag þegar snjórinn leit út eins og súpa. Brekkurnar voru frábærar og ég náði fyrir vikið frábærum æfingum. Eins var mjög vel hugsað um mig á allan hátt. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta.“Hilmar Snær segir aðstæðurnar einar og sér hafa gert það að verkum að mikil áskorun hafi fylgt því að keppa en sú staðreynd hafi reyndar bara gert keppnina skemmtilegri fyrir hann. „Keppnisaðstæðurnar voru frábærar og þær langbestu sem ég hef kynnst til þessa,“ sagði Hilmar Snær en með þátttökunni rættist gamall draumur pilts.
Vetrarleikunum lauk á laugardaginn og daginn eftir héldu Hilmar Snær, þjálfarar hans, Georg Hjörleifsson og Einar Bjarnason, auk Ólafs Magnússonar, framkvæmdastjóra Íþróttasambands fatlaðra, heim á leið. Ferðalagið var langt og strangt.
Leyfði sér ekki að sofa út
„Ég kom heim á aðfaranótt þriðjudagsins og fór í skólann morguninn eftir,“ sagði Hilmar Snær sem er að ljúka öðrum vetri í Verzlunarskóla Íslands. Spurður hvort ekki hafi verið freistandi að sofa út á þriðjudagsmorguninn svaraði hann að það hefði ekki komið til greina. „Ég gat ekki leyft mér það,“ sagði Hilmar Snær sem ætlar þó að taka sér frí frá æfingum þessa vikuna. „Ég hef æfingar á nýjan leik í næstu viku eftir stutt frí.“Hilmar Snær stefnir á þátttöku á heimsmeistaramóti fatlaðra á skíðum sem fram fer í Sviss eftir ár.