[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnea Kristín Marinósdóttir fæddist á Akureyri 22.3. 1968. Hún ólst þar upp og var í sveit á sumrin hjá ömmu sinni, Magneu Kristínu Sigurðardóttur, á Hóli í Köldukinn. Magnea var í Barnaskóla og Gagnfræðaskóla Akureyrar.

Magnea Kristín Marinósdóttir fæddist á Akureyri 22.3. 1968. Hún ólst þar upp og var í sveit á sumrin hjá ömmu sinni, Magneu Kristínu Sigurðardóttur, á Hóli í Köldukinn.

Magnea var í Barnaskóla og Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hún lauk stúdentsprófi frá MA 1988, BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla 1995, námskeiðum í opinberri stjórnsýslu og stjórnun við Endurmenntunarstofnun HÍ 1997 og í alþjóðalögum við HÍ 2001, og meistaraprófi í átaka- og friðarfræðum við School of Foreign Service í Georgetown-háskóla, Washington DC, 2004. Til námsins hlaut hún Fulbright-styrk og styrk frá samtökum bandarískra háskólakvenna (International Fellowship of the American Association of University Women) auk styrks til að gera rannsókn á aðgerðum til að stemma stigu við kynbundnu ofbeldi í flóttamannabúðum í Tansaníu frá the Institute for the Study of International Migration.

Magnea hefur auk þess lokið fjölda námskeiða í þróunar-, mannúðar- og mannréttindamálum, rekstri og fleiru, meðal annars í the Institute of Transitional Justice, Ulster-háskóla í Belfast, Norður-Írlandi, og sendifulltrúanámskeiði Rauða krossins.

Magnea var kennari við heimavistarskólann Lund í Öxarfirði 1989-90, flokkstjóri við unglingavinnu Akureyrarbæjar á sumrin 1990-93, ritstjóri What‘s on in Reykjavik 1992-93, starfaði við nefndadeild Alþingis 1995-96 og var verslunarstjóri í versluninni Body Shop 1996-98.

Magnea var ráðgjafi við stjórnmáladeild bandaríska sendiráðsins á Íslandi 1998-2002 þar sem hún hlaut U.S. State Department Meritorious Honor Award og State Department Franklin Award fyrir störf sín. Hún vann að sérverkefni fyrir auðlindaskrifstofu íslenska utanríkisráðuneytisins 2004, var stjórnsýslufulltrúi við flotaflugstöðina á Keflavíkurflugvelli 2005, ráðgjafi sendiráðs Japans á Íslandi um stjórnmál, efnahagsmál og menningarmál 2005-2006. Frá árinu 2007 hefur Magnea starfað að alþjóðamálum og málefnum kvenna á helstu átakasvæðum samtímans í störfum sínum sem þróunar- og jafnréttismálafulltrúi Endurreisnarliðs Alþjóðlegu öryggis- og aðstoðarsveita Norður-Atlantshafsbandalagsins (ISAF) á vegum Friðargæslu Íslands í Ghowr-héraði í Vestur-Afganistan 2006-2007 þar sem hún hlaut Medal of Merit for Civilians fyrir störf sín, sérfræðingur hjá alþjóðadeild Alþingis frá 2007-2010, ráðgjafi UN Women um konur, frið og öryggi í Bosníu og Kosovo 2010-2013 og yfirmaður sænsku kvenréttinda- og friðarsamtakanna The Kvinna till Kvinna Foundation í Palestínu og Ísrael 2014-2017: „Samtökin veittu 16 mannréttinda- og friðarsamtökum kvenna og um 22 verkefnum stuðning. Ég hafði yfirumsjón með stefnu og starfsemi samtakanna í Palestínu og Ísrael, var í samskiptum við önnur alþjóðleg félagasamtök og stofnanir eins og SÞ. Ég var auk þess formaður vinnuhóps um kynja- og jafnréttismál sem heyrir undir samtök alþjóðlegra félagasamtaka sem vinna að þróunar- og mannúðarmálum í Palestínu.“ Magnea er sérfræðingur hjá jafnréttisteymi velferðarráðuneytisins frá haustinu 2017.

Hún hefur hannað og kennt námskeið við háskóla hérlendis um samtímastríðsátök, átakagreiningar og friðarlausnir þar með talið kynbundna stríðsglæpi og gerð aðgerðaráætlunar um konur, frið og öryggi árið 2005-2007 við HÍ, 2010 við Háskólann á Bifröst og frá 2009 leiðbeint nemendum og kennt við Jafnréttisháskóla SÞ (UNU-Gender Equality Studies and Training Program).

Magnea var stofnfélagi og í stjórn Félags stjórnmálafræðinga á Íslandi 1995-99, þar með talið formaður, sat í stjórn Varðbergs 2000-2002 og var ritstjóri tímarits samtakanna Viðhorf sem tileinkað var hernaðaríhlutun í nafni mannúðar. Hún sat í stjórn landsnefndar UN Women (fyrrverandi UNIFEM) á Íslandi Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna fyrir konur 2005-2010, þar af varaformaður í þrjú ár, sem stóð að Fiðrildavikunni 2008 og skipulagði fyrstu Ljósagönguna, sem er orðin að árlegum viðburði, árið 2009 í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi og í tengslum við 20 ára afmæli landsnefndar í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands og Reykjavíkurborg.

Magnea hefur áhuga á fjall- og náttúrugöngum, ljósmyndun og stjórnmálasögulegum, hugmyndafræðilegum og menningarlegum straumum og stefnum.

Fjölskylda

Barnsfaðir Magneu er Freysteinn Gíslason, f. 28.9. 1968. Sonur Magneu og Freysteins er Ríkharður Bjartur, f. 12.8. 1988, stýrimaður og nemi við Skipstjórnarskólann.

Systkini Magneu eru Olgeir Þór, f. 24.6. 1969, lögfræðingur, og Þórunn Ósk, f. 23.10 1971, víóluleikari, leiðari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og einn stofnenda Strokkvartettsins Sigga.

Foreldrar Magneu eru Marinó Jónsson, f. 9.12. 1937, húsasmíðameistari, framkvæmdastjóri og kennari, og Dómhildur Lilja Olgeirsdóttir, f. 12.7. 1944, sjúkraliði og garðyrkjumeistari á Vatnsleysu II í Fnjóskadal.