Særingamaðurinn Bíómyndin setti samfélagið á hvolf.
Særingamaðurinn Bíómyndin setti samfélagið á hvolf.
Í hlaðvarpsþáttunum Í frjettum er þetta elzt sem Kjartan Guðmundsson og Haukur Viðar Alfreðsson sjá um hverfa þeir félagar aftur til fortíðar og fjalla um ýmis frétta- og dægurmál.

Í hlaðvarpsþáttunum Í frjettum er þetta elzt sem Kjartan Guðmundsson og Haukur Viðar Alfreðsson sjá um hverfa þeir félagar aftur til fortíðar og fjalla um ýmis frétta- og dægurmál. Frostaveturinn mikli, Bubbi Morthens og karókí er meðal þess sem hefur verið til umfjöllunar og nú síðast datt ég niður í þátt um kvikmyndina The Exorcist sem frumsýnd var 1973 og viðbrögð við henni, ytra og heima.

Eins og gekk og gerðist í þá daga leið oft langur tími frá því að bíómyndir voru sýndar vestanhafs og þar til þær komu í bíó hér heima. Þegar Særingamaðurinn var loks frumsýndur á Íslandi vissu allir sem lesið höfðu blöðin um hvað myndin fjallaði og fólk hafði skoðanir á henni án þess að hafa séð hana. Í lesendabréfum var heimtað að myndin yrði ekki sýnd, kvikmyndaeftirlitið gripi í taumana, enda var þetta svo hræðileg mynd að tölva hafði reiknað út að það liði yfir fimm manns á hverri sýningu. Einn sagði að það væri svo stutt síðan Íslendingar slepptu trú sinni á djöfulinn að ekki væri ráðlegt að rugla svona í þjóðarsálinni. Þetta eru kostulegir þættir og þeir Kjartan og Haukur þægilegir félagar sem gera þáttinn að notalegri fortíðarstund.

Júlía Margrét Alexandersdóttir

Höf.: Júlía Margrét Alexandersdóttir