[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Keflavík Skúli B. Sigurðsson skulibsig@mbl.is Keflvíkingar sluppu með skrekkinn í gærkvöldi á ögurstundu þegar þeir lögðu Hauka.

Í Keflavík

Skúli B. Sigurðsson

skulibsig@mbl.is

Keflvíkingar sluppu með skrekkinn í gærkvöldi á ögurstundu þegar þeir lögðu Hauka. Með bakið uppvið vegginn fræga máttu Keflvíkingar alls ekki misstíga sig og lögðu þeir allt í sölurnar og uppskáru eftir því góðan sigur, 75:72, eftir einn allra magnaðasta leik vetrarins sem réðst á lokamínútunni. Staðan er þar með jöfn í einvígi liðanna eftir tvo sigurleiki Keflavíkur í röð. Þess vegna kemur til oddaleiks milli liðanna um sæti í undanúrslitum. Oddaleikurinn fer fram annað kvöld í Schenkerhöll Haukanna á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Fyrir leik var títt rætt um það að þjálfarar liðanna þyrftu að stilla spennustig leikmanna uppá millimetra. Hjá Keflvíkingum var spennan hátt stillt og menn augljóslega meðvitaðir um þá stöðu sem þeir voru í enda engir hvítvoðungar í sínu fyrsta hestaati þar á ferð. Haukar voru töluvert yfirvegaðri í sínum aðgerðum og allt rólegra yfir þeirra leik. Það var ekki fyrr en undir lok leiks að þeir voru komnir í sama gír og Keflvíkingar en að lokum voru það heimamenn sem unnu það reiptog.

Þreyta sagði til sín

Þrátt fyrir mikla baráttu og þá staðreynd að um var að ræða fjórða leik liðanna í þessari rimmu var leikurinn hin mesta skemmtun en undir lok leiks fór þreytan að segja til sín. Þá gerðu bæði lið sig sek um mistök sem var augljóslega hægt að rekja beint til þols leikmanna.

Christian Jones, annar af tveimur erlendum leikmönnum Keflavíkur, hefur haft ansi hægt um sig síðan hann kom til liðsins. Hann sýndi hinsvegar í gær hvers hann er megnugur og leiddi Keflvíkinga áfram. Jones endaði leik með 20 stig og 9 fráköst.

Kári kom liðinu ekki í gang

Hjá Haukum var það sem fyrr Kári Jónsson sem var þeirra atkvæðamestur með 21 stig. Líkt og í fyrri leik liðanna var Kára falið það verkefni að skjóta sínum mönnum aftur í leikinn þegar aðeins um 10 sekúndur voru til loka leiks og Keflvíkingar höfðu komið sér í þriggja stiga forystu. Að þessu sinni brást honum bogalistin af fremur stuttu færi ef tekið er mið af því ótrúlega skoti sem hann skellti niður í lok síðasta leiks.

Oddaleikur verður háður að Ásvöllum, heimavelli Hauka, annað kvöld. Þar mun sjóða á keipum ef að líkum lætur. Stuðningsmenn munu fjölmenna og koma fyrir öndvegissúlum sínum beggja vegna vallarins. Sú staðreynd að annað liðið endaði í fyrsta sæti og hitt í áttunda sæti deildarkeppninar skipti engu máli. Leikmenn beggja liða munu mæta með brjóstkassann þaninn og tilbúnir til stríðs en það sem að lokum mun skilja liðin að er hvort þeirra er tilbúið að leggja á sig þá litlu auka hluti sem þarf til sigurs.

Þrautreyndur Friðrik

„Mínir menn léku vel að þessu sinni,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, hinn þrautreyndi þjálfari Keflavíkur, en hann hefur svo sannarlega oft verið í þeirri stöðu að takast á við oddaleik í úrslitakeppni. „Í oddaleik verða menn að þora að vera til,“ sagði Friðrik Ingi íbygginn á svip í samtali við Morgunblaðið í leikslok í TM-höllinni í Keflavík. Spennandi verður að sjá hvort liðið þorir annað kvöld.