Beta Einarsdóttir fæddist 17. apríl 1923. Hún lést 2. mars 2018.

Útför Betu fór fram 13. mars 2018.

Söngur fuglanna veit á vorið handan við hornið, tíminn er fugl sem flýgur hratt, flýgur þér úr augsýn, kannski í kvöld. Í flaumi hans horfum við á bak ástvinum.

Nú er hún Beta frænka mín horfin okkur. Hún ólst upp á Akranesi og þótti Akrafjallið fegurst fjalla. Er hún óx úr grasi fylgdi hún Einari föður sínum austur á land en hann var þar yfirverkstjóri. Þar eldaði hún ofan í vegavinnumenn og kynntist Fjalari sínum, ungum prestssyni úr Hróarstungunni. Endurnýjuðust þau kynni síðar syðra og leiddu til hjónabands. Betu tókst að spara sér fyrir skólavist á Hallormsstað og lauk prófi úr Hjúkrunarskólanum. Þau settust að í risinu á Bjarnarstíg 7. Að guðfræðinámi loknu vígðist Fjalar til Hríseyjar 1952 og dvöldu þau þar í góðu yfirlæti í 11 ár.

Árið 1963 var stöfnum snúið suður fyrir jökla er sr. Fjalar gerðist sóknarprestur á Kálfafellsstað. Það sópaði að Betu, ómissandi í félagsmálum, framúrskarandi vel verki farin og setti sinn sterka svip á umhverfi sitt. Hún stundaði bæði hannyrðir og blómarækt og var jafnan óspör á glaðlegt viðmót og hjálpsemi. Öllu lífi leið vel í návist hennar og sóknarbörnin bæði nyrðra og eystra minnast þeirra hjóna af hlýhug og tryggðin var gagnkvæm.

Mikill samgangur var með þeim systrum, höfðu þær svipaðan smekk á fatavali og húsbúnaði. Maður þekkti sig vel hjá þeim, myndir og útsaumur þakti veggi, þungar mublur, gólfteppi og blóm innan dyra og utan. Fyrir kom að þær voru ekki sammála um málefni dagsins, rómurinn hækkaði og heyrðist þá vel í Betu minni, enda fór hún aldrei með veggjum. Hjálpsemi systranna var mikil og tóku þær gjarnan börn fyrir hvor aðra til sumar- og námsdvalar. Þrjár þeirra giftust prestum, enda hefur Skaginn löngum verið uppeldisstöð prestskvenna. Hjá þeim Betu og Fjalari var jafnan gott að sitja. Hún var jafnaðarmaður í sér, studdi lítilmagnann og fannst að allir ættu að starfa öðrum til heilla, átti jafnan bágt með að skilja heimsku og eigingirni þeirra sem gerðu sér aðra að féþúfu, áleit að heimurinn væri betri staður ef konur réðu þar meiru.

Beta hafði þennan ljúfa bernska bjartsýnishug sem aldrei stýrði á þröskulda lífsins. Hugur hennar dvaldi löngum hjá ástvinum, gæfu þeirra og gleði og má segja að hún hafi verið vörður og verndari síns húss. Áður fyrr komu afkomendur afa og ömmu árlega saman en sá siður hefur því miður lent í útideyfu hin síðari árin, óskandi er að hann verði endurvakinn, dagurinn er styttri en við höldum.

Þau fluttu suður 1989 og starfaði Beta þá á Hrafnistu um tíu ára skeið við miklar vinsældir. Síðustu misserin dvaldi hún á Skjóli með ástvin sinn Fjalar daglega sér við hlið. Lífskrafturinn dapraðist, en jafnvel þá hélt hún sinni léttu lund, spurði frétta að austan – gömul sveitasæla á hamingjuslóð leitaði á hugann. Það er mikil guðs gjöf þegar svo er komið. Hún kvaddi okkur í sátt og gleði yfir umhyggju sinna nánustu uns lífsljós hennar slokknaði og hún fluttist í land friðarins og fyrirheitanna. Það er góðs að sakna og góðs að minnast. Hafi hún þökk fyrir allt og allt.

Einar G. Jónsson

frá Kálfafellsstað.