— AFP
Mikið var um dýrðir víða á Indlandi um helgina þegar hindúar héldu svokallaða Rama Navami-vorhátíð til að fagna fæðingu guðsins Rama. Rama er hetjan í hinu forna sagnaljóði Ramayana og á að hafa fæðst um þetta leyti árs.

Mikið var um dýrðir víða á Indlandi um helgina þegar hindúar héldu svokallaða Rama Navami-vorhátíð til að fagna fæðingu guðsins Rama.

Rama er hetjan í hinu forna sagnaljóði Ramayana og á að hafa fæðst um þetta leyti árs. Á myndinni hér til hliðar er ungur indverskur listamaður í Bangalore sem af mikilli kostgæfni hefur búið sig upp á og skreytt sem guðinn Hanuman í tilefni hátíðahaldanna. Samkvæmt goðsögninni er Hanuman apaguð, tákn styrks og orku, og ein af aðalhetjunum í fyrrnefndum sagnaljóðum. Hann er sagður hafa vald yfir steinum, geta fært fjöllin, teygt sig til skýjanna og breytt sér í hvaða form sem er. Þá er hann yfirleitt sagður tengdur töfrum og hæfileikum til að sigra illa anda. Hindúar dýrka Hanuman vegna ótakmarkaðrar hollustu hans við guðinn Rama en hann stýrði apaher sínum gegn djöflakonunginum Ravana til að hjálpa Rama að endurheimta eiginkonu sína Situ. Í þakkarskyni gaf Rama honum eilíft líf og lofaði því að hann yrði tilbeðinn samhliða sér.