Jón Birgir Eiríksson
jbe@mbl.is
Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum í gær að taka þátt í samstilltum aðgerðum ríkja Evrópusambandsins og NATO gagnvart Rússlandi. Málið var eina umfjöllunarefni fundarins.
Sextán þjóðir ESB auk annarra þjóða hafa vísað alls 110 diplómötum úr landi vegna efnavopnaárásar á rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal og Yuliu, dóttur hans, í enska bænum Salsbury í byrjun mánaðarins, en þau liggja enn bæði þungt haldin á sjúkrahúsi.
Öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum verður frestað um óákveðinn tíma. Því munu íslenskir ráðamenn ekki sækja heimsmeistaramótið í knattspyrnu í sumar, en þar með talinn er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Utanríkismálanefnd þingsins var upplýst um málið á fundi í utanríkisráðuneytinu síðdegis í gær og skömmu síðar kom Anton Vasiliev, sendiherra Rússa, til fundar við Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sem tilkynnti honum áform íslenskra stjórnvalda.
Rússar komi að rannsókninni
Guðlaugur Þór segir kveikjuna að baki aðgerðum stjórnvalda vera að Rússar hafi ekki sýnt samstarfsvilja við rannsókn árásarinnar í Salsbury og hafi gefið ófullnægjandi og ótrúverðugar skýringar á uppruna efnavopnanna. Rússar þurfi að koma að lausn málsins.„Viðbrögð rússneskra stjórnvalda hafa ekki verið sannfærandi og þau hafa ekki verið tilbúin að starfa með Efnavopnastofnuninni og breskum stjórnvöldum til að upplýsa málið,“ segir hann, en nefnir að fleira hafi þó komið til.
„Það má segja að Salsbury-málið sé kornið sem fyllti mælinn. Svo skulum við ekki gleyma því að hluti Úkraínu er enn hernuminn og ekki eru mörg ár frá því tölvuárás var gerð á danska varnarmálaráðuneytið, að ógleymdum afskiptum af lýðræðislegum kosningum í einstaka ríkjum,“ segir Guðlaugur Þór.
Áfram samstarf að mörgu leyti
Aðspurður segir hann að aðgerðir stjórnvalda eigi aðeins við um tvíhliða samskipti hátt settra ráðamanna Rússlands. Samstarf á fjölþjóðavettvangi verði óbreytt.„Sömuleiðis höfum við átt í allrahanda samskiptum við Rússa, þ.e.a.s. ráðherrar ríkjanna hittast á milli landa vegna hinna ýmsu mála. Nú frestum við slíku um ófyrirsjáanlegan tíma,“ segir Guðlaugur Þór.
„Lægra settir embættismenn munu áfram verða í samskiptum við okkur og vitanlega einskorðast þessar aðgerðir við stjórnvöld. Margs konar samskipti þjóðanna á öðrum sviðum munu halda áfram eftir sem áður. Við munum áfram eiga í samræðum við Rússa þótt við höfum tekið afstöðu gegn þeim í þessum deilumálum,“ segir hann.
Ísland er eina ríkið sem ekki sendir úr landi rússneska embættismenn. Guðlaugur segir þátttöku Íslands miðaða við stærð. Aðeins þrír útsendir starfsmenn séu í íslenska sendiráðinu í Moskvu. Almenn regla sé að ríki gjaldi líku líkt í ráðstöfunum sem þessum.
„Við vitum ekkert um viðbrögð Rússa, en almenna reglan er sú að aðgerðum sem þessum sé svarað með sambærilegum hætti. Við gerum þetta í samræmi við okkar stærð og vonum auðvitað að úr þessu leysist. Við viljum auðsjáanlega góð og uppbyggileg samskipti milli Rússa og annarra þjóða, en það er of snemmt að segja til um hvað gerist næst,“ segir hann, en Rússar hafa á öllum stigum málsins þvertekið fyrir aðkomu að árásinni og það gerði sendiherra Rússlands á Íslandi, Anton Vasiliev, einnig að loknum fundinum í gær. Í viðtölum við fjölmiðla sagði hann að um slys hefði verið að ræða og að Rússland tengdist því ekki á nokkurn hátt.
Sýna stöðu Íslands skilning
Einhugur ríkti um málið í ríkisstjórn og einnig í utanríkismálanefnd. Guðlaugur Þór segir að enginn hafi viljað ganga lengra eða skemur. „Það skilja þetta allir. Önnur ríki hafa mun fjölmennara starfslið í sínum sendiráðum og því er ólíku saman að jafna þar sem brottvísun sendierindreka er að jafnaði svarað í sömu mynt,“ segir hann og nefnir að bandalagsþjóðir Íslands hafi sýnt ákvörðuninni skilning.Framhaldið er óljóst, að sögn Guðlaugs Þórs, en ekki er útilokað að til frekari aðgerða komi.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, segir að nálgun íslenskra stjórnvalda, að senda embættismenn ekki úr landi, sé skynsamleg. Hún telur ljóst að mestar líkur séu á að Rússar hafi staðið að baki árásinni í Salsbury.
„Það liggur ljóst fyrir að Rússar hafa ekki viljað taka þátt í rannsókn málsins og bandamenn okkar telja með óyggjandi hætti að mestar líkur séu á því að þeir hafi verið að baki árásinni,“ segir hún. „Það er mikilvægt að við tökum þátt í aðgerðum sem þessum með bandalagsþjóðum okkar, en á sama tíma hugsum við líka um okkar hagsmuni,“ bætir hún við.