Borgin Tíð innbrot hafa verið á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári.
Borgin Tíð innbrot hafa verið á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári. — Morgunblaðið/Júlíus
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Vegna þeirra fjölmörgu innbrota sem framin hafa verið á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu hafa talsverðar umræður sprottið upp á spjallsvæðum á samfélagsmiðlum sem hugsuð eru fyrir fólk sem búsett er í ákveðnum hverfum eða sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Eru íbúar farnir að tilkynna þar um það sem þeir telja vera óviðeigandi mannaferðir við og í íbúðahverfum.

Einn þessara hópa er fyrir íbúa á Seltjarnarnesi, en brotist var inn í einbýlishús þar um nýliðna helgi.

„[Þ]að voru tveir menn að labba hérna norðanmegin við sjóinn að taka myndir af húsum, frekar flóttalegir,“ segir í einni færslunni. „Löbbuðu ekki hlið við hlið, heldur labbaði annar á undan og þóttist vera í símanum og hinn á eftir. Þetta voru ekki menn að dást að húsunum.“

Í kjölfarið skapaðist nokkur umræða og var fólk m.a. hvatt til að fylgjast vel með í kringum sig, en einn íbúanna sagðist hafa tekið eftir svörtum bíl og eru þeir sem í honum voru sagðir hafa tekið myndir af húsum. Þá sagðist sá sem hóf innleggið hafa sent myndir af áðurnefndum göngumönnum til lögreglunnar.

„Verið að skoða okkur öll“

Íbúar á Álftanesi eru einnig nokkuð varir um sig, en þar hafa þjófar verið sérstaklega iðnir við að stela gaskútum. Þá hafa íbúar einnig orðið varir við það sem þeir telja vera grunsamlega bíla og að verið sé að taka myndir af bæði húsum og bifreiðum á svæðinu.

„Það er verið að skoða okkur öll alla daga af aðilum sem vilja reyna að komast inn í okkar hús án okkar vitundar til að ræna verðmætum,“ segir í einni færslu hópsins. Er í kjölfarið hvatt til þess að fólk fylgist með ferðum ökutækja og reiðhjóla „sem eru að stoppa og skoða – takið myndir. Takið niður bílnúmer, lýsingu á fólki. Hringið í lögreglu og nágranna ef þið sjáið eitthvað, eða heyrið sem ekki er venjulegt.“

Skúli Jónsson er aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir lögregluna í nánu samstarfi við íbúa.

„Við þiggjum auðvitað allar ábendingar, en oft er þetta spurning um að þekkja sitt hverfi og fólkið sem þar býr,“ segir hann og bætir við að tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir hafi heldur færst í aukana að undanförnu og hafa þær í sumum tilfellum leitt til þess að mál upplýsist.

Skúli segir lögreglu notast við merktar jafnt sem ómerktar bifreiðar við eftirlit. Eru jafnvel dæmi um að athuglir íbúar hafi tilkynnt um ferðir ómerktra lögreglubíla við eftirlit. „Það hefur alveg komið fyrir og þá erum við fljótir að afgreiða slíkar tilkynningar,“ segir Skúli og hlær við.

Þá segir hann lögreglu verða með gott eftirlit um komandi páska. „Við munum vera eins virk og kostur er, það er engin spurning.“