Mannskæður bruni Slökkviliðsmenn reyna að slökkva eld í verslunar- og afþreyingarmiðstöð í Kemerovo í Síberíu.
Mannskæður bruni Slökkviliðsmenn reyna að slökkva eld í verslunar- og afþreyingarmiðstöð í Kemerovo í Síberíu. — AFP
Rússneskir rannsóknarmenn og sjónarvottar segja að neyðarútgangar hafi verið lokaðir og brunaviðvörunarkerfi ekki verið í gangi þegar eldur geisaði í verslunar- og afþreyingarmiðstöð í námuborginni Kemerovo í Síberíu.

Rússneskir rannsóknarmenn og sjónarvottar segja að neyðarútgangar hafi verið lokaðir og brunaviðvörunarkerfi ekki verið í gangi þegar eldur geisaði í verslunar- og afþreyingarmiðstöð í námuborginni Kemerovo í Síberíu. 64 létu lífið í eldsvoðanum, þeirra á meðal mörg börn sem voru lokuð inni í kvikmyndasal.

Eldurinn kviknaði í efstu hæð fjögurra hæða byggingar klukkan fjögur e.h. að staðartíma í fyrradag þegar mikið margmenni var í verslunum, kvikmyndasölum og keilusölum byggingarinnar.

Rússneskir fjölmiðlar höfðu eftir embættismönnum sem rannsaka eldsvoðann að útgangar hefðu verið lokaðir og komið hefðu í ljós „alvarleg brot“ á eldvarnareglum. Hermt er að slökkvitæki hafi ekki verið í lagi og tæknimaður, sem annaðist eldvarnir miðstöðvarinnar, er sagður hafa slökkt á viðvörunarkerfinu eftir að það hafi farið í gang vegna brunans. Maðurinn var handtekinn og færður til yfirheyrslu ásamt fjórum öðrum mönnum, m.a. yfirmanni fyrirtækis sem rekur miðstöðina.

Rannsóknarmennirnir sögðu að mestur hluti þaks byggingarinnar hefði hrunið. Sjónarvottar sögðu að börn hefðu lokast inni í kvikmyndasal vegna þess að útgöngudyrnar hefðu verið læstar.

Faðir sem missti þrjár dætur í eldinum sagði að ein þeirra hefði hringt í hann til að segja honum að þær gætu ekki opnað dyrnar. „Ég hrópaði til hennar að reyna að komast út úr kvikmyndasalnum en gat ekkert gert, það var allt í logum fyrir framan mig,“ hefur fréttaveitan AFP eftir honum.

Eldsupptök ókunn

Ekki var vitað um upptök eldsins. Haft var eftir aðstoðarhéraðsstjóra í Kemerovo að grunur léki á að eldurinn hefði kviknað þegar barn hefði leikið sér að kveikjara á fjaðradýnu og hún fuðrað upp. Það hefur þó ekki verið staðfest og rússneska ríkissjónvarpið sagði að talið væri líklegt að kviknað hefði í út frá rafmagni eins og í flestum fyrri stórbrunum í Rússlandi.