Rakel Sveinsdóttir
Rakel Sveinsdóttir
Eftir Rakel Sveinsdóttur: "Mig langar því að nýta tækifærið og rifja upp söguna á bakvið kynjakvótalögin og aðdraganda þeirra. Það tímabil var á köflum frekar reyfarakennt."

Þann 4. mars árið 2010 samþykkti Alþingi lög um kynjakvóta í stjórnum félaga. Lögin tóku gildi haustið 2013 og því góð þrjú ár sem atvinnulífið hafði til aðlögunar. Nú, átta árum eftir að lögin voru samþykkt, hefur hlutfall kvenna í stjórnum þó ekki enn náð því 40% marki eins og kveðið er á um.

Tölur nýrrar skýrslu Hagstofunnar, Jafnréttisstofu og Velferðaráðuneytis, Konur og karlar á Íslandi 2018, sýna að í flestum fyrirtækjum eru um 72-75% stjórnarmanna karlmenn. Aðeins stærstu fyrirtækin ná þessu hlutfalli niður fyrir 65%. Það eru fyrirtækin sem eru með 100 starfsmenn eða fleiri. Hæst er hlutfallið hjá fyrirtækjum með 250 starfsmenn eða fleiri. Þau fyrirtæki nálgast 40% hlutfall kvenna í stjórnum. Vandamálið er bara að stóru fyrirtækin eru svo fá, enda flest fyrirtæki sem teljast lítil eða meðalstór.

Sögulegur fundur í Rúgbrauðsgerðinni

Mig langar því að nýta tækifærið og rifja upp söguna á bakvið kynjakvótalögin og aðdraganda þeirra. Það tímabil var á köflum frekar reyfarakennt. Ég vil hefja atburðarrásina á aðalfundi FKA í maí 2009, sem þá var haldinn í húsakynnum Rúgbrauðsgerðarinnar. Þáverandi formaður FKA, Margrét Kristmannsdóttir, hafði leitt það verkefni frá hruni að atvinnulíf og stjórnmál sameinuðust í átaki til að fjölga konum í stjórnum félaga. Á umræddum aðalfundi tók Hafdís Jónsdóttir við sem formaður auk þess sem félagið var að halda upp á 10 ára afmæli sitt.

En fundurinn var líka sögulegur fyrir þær sakir að á honum sameinuðust atvinnulíf og fulltrúar stjórnmála í því verkefni að fjölga konum í stjórnir. Markmiðið var að konur yrðu 40% stjórnarmanna fyrir árslok 2013 og engin stærðarmörk voru sett á félög. Undir viljayfirlýsingu um verkefnið skrifuðu FKA, Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands, forystumenn allra þáverandi þingflokka og undirrituð, fyrir hönd Creditinfo.

Öll gögn voru dregin fram markmiðinu til stuðnings. Rannsóknir hérlendis sem erlendis sem sýna að aukinn fjölbreytileiki stjórna er aukinn styrkur fyrir fyrirtæki og viðskiptalífið í heild. Hvatinn til breytinga var því staðfestur með tölulegum gögnum og staðreyndum. Í kjölfar undirritunarinnar var boðað til fjölda funda, viðburða, námskeiða og fyrirlestra. Allir sem að komu, voru sannfærðir um að markmiðinu yrði nú náð.

Þegar stjórnvöld tilkynntu þá fyrirætlun sína að festa 40% markmiðið í lög, mættu framangreindir aðilar þeirri fyrirætlan með algerri andstöðu. Þar reyndum við hvað mest við máttum að skýra út mikilvægi þess að atvinnulífið fengi tækifæri á að fylgja viljayfirlýsingunni eftir, án afskipta löggjafans. Ætlar undirrituð ekki að draga úr sinni þátttöku í þessum rökræðum, hvort heldur sem er við þingmenn eða aðra. Fljótt dró þó úr andstöðunni.

Það var einfaldlega vegna þess að endurtekið sýndu tölur að orðum og umræðu var ekki fylgt eftir í verki. Á endanum sofnaði meira að segja snigillinn úr leiðindum, svo mikill var hægagangurinn.

Þegar ný ríkistjórn tók við í maí 2013, boðaði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þá nýskipaður viðskiptaráðherra Sjálfstæðisflokksins, til fjöldafundar með aðilum úr atvinnulífinu. Viðsnúningurinn í viðhorfum til laganna var þá orðinn alger. Flestum var nú orðið ljóst að án lagasetningar væru litlar líkur á breytingum. Með öðrum orðum: Atvinnulífið hafði fengið sitt tækifæri, án árangurs.

Markmiðinu er ekki náð

Nú virðist hið sama upp á teningnum og því góð ástæða til að gefa nýjum tölulegum staðreyndum gaum. Tölurnar sýna ekki aðeins að 40% markmiðinu um blandaðar stjórnir er ekki náð, heldur snýst málið í þetta sinn um að fyrirtæki eru ekki að fylgja eftir lögum. Ég tel reyndar stutt í að hér verði breyting á. Það er vegna þess að í fyrsta sinn fara konur fyrir Atvinnuveganefnd Alþingis. Þetta þýðir aukið samtal FKA og þingheims enda eitt fyrsta verk nefndarinnar að boða FKA til fundar.

Í kjölfar þess fundar, óskaði formaður nefndarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, eftir því að FKA skilaði tillögum um hvað þarf að gera þannig að 40% lágmarkinu verði náð og lögum um að stjórnir félaga með 50 eða fleiri starfsmenn, verði þarmeð fylgt eftir. Tillögur FKA eru þar einfaldar og þekktar. Annars vegar tillögur um heimildir til viðurlaga, jafnvel sekta. Hins vegar einfaldar breytingar á eyðublaði hjá fyrirtækjaskrá. En sorglegt er það í sjálfu sér, að alltaf þurfi það aðgerðir eða baráttu kvenna til. Ég geri mér því vonir um að einhver fyrirtæki lesi þá hvatningu úr þessari grein að nýta næsta aðalfund til að tryggja að halli á hvorugt kynið í stjórn. Til mikils er að vinna, eins og við höfum reyndar alltaf bent á.

Höfundur er formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) rakel@spyr.is

Höf.: Rakel Sveinsdóttur