Páskarnir eru langsamlega besta hátíðin, sagði góðkunningi Víkverja í kaffispjalli helgarinnar. Maðurinn hafði komið sér vel fyrir með rótsterkan bolla sér við hönd og staðhæfði þetta eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Páskarnir eru langsamlega besta hátíðin, sagði góðkunningi Víkverja í kaffispjalli helgarinnar. Maðurinn hafði komið sér vel fyrir með rótsterkan bolla sér við hönd og staðhæfði þetta eins og ekkert væri sjálfsagðara. En hvað með jólin, með stóru steikunum og pökkunum? spurði Víkverji í forundran.

Áralöng reynsla mín hefur leitt þetta í ljós, sagði félaginn spekingslega. Það er allt of mikið stress um jólin. Allir á harðaspani að undirbúa, allt verður að vera slétt og fellt og svo þegar kemur að hápunktinum eru eiginlega allir búnir á því. Enginn nýtur hátíðarinnar að fullu því það þarf að þrífa, kaupa inn, elda, pakka inn gjöfum, skrifa kort og svo fram eftir götunum.

Satt er það, en hvað er svona gott við páskana? spurði Víkverji. Jú, þú getur eldað og borðað það sem þú vilt, það er engin pressa og börnin eru hæstánægð svo lengi sem þau fá sæmilegt páskaegg.

Kaffið var búið og félaginn hvarf á braut. Eftir sat Víkverji og fór í huganum yfir þennan boðskap. Þegar að var gáð var augljóst að þetta er allt saman satt og rétt og ætti að vera hverjum manni ljóst: Páskarnir eru langbesta hátíðin.

Augljóst er að Víkverji á góða daga fyrir höndum. Fimm dagar í áhyggjulausu afslappelsi. Góður matur, nægur svefn og súkkulaðiegg. Göngutúrar í ljúfu vorveðrinu. Hámhorf á hámhorf ofan. Kannski Víkverji setjist niður í bjórkollu með félögunum. Eða fari í bíó.

Réttast væri þó að nýta tímann í eitthvað gáfulegt eins og að taka til í geymslunni eða mála eitt eða tvö herbergi. Jafnvel byrja vorverkin í garðinum. Hvernig væri að koma stafræna myndasafninu loks í almennilegt horf? Æ, þar fór það.