Baksvið
Baldur Arnarson
baldura at mbl.is
Lóðaverðið í Hveragerði er jafnvel aðeins um þriðjungur af verðinu í Reykjavík. „Það er mikill sparnaður fyrir 30-40 mínútna akstur,“ segir Ingólfur Gissurarson, fasteignasali hjá Valhöll.
Valhöll auglýsir nú til sölu 10 byggingarlóðir á Grímsstaðareit í Hveragerði. Ásett verð er um 120 milljónir á heildarpakkann með eldra einbýlishúsi sem er á einni parhúsalóðinni, en það er í útleigu. Um er að ræða fjórar einbýlishúsalóðir og þrjár parhúsalóðir. Öll gatnagerðargjöld og allar teikningar eru innifalin og hafa skipulagsyfirvöld samþykkt teikningar að húsunum.
Lóðaskortur þrýstir verði upp
Ingólfur segir þetta allt að þrefalt lægra en samanlagt lóða- og hönnunarverð í Reykjavík. Skortur á lóðum þrýsti upp verðinu.„Það eru engar lausar sérbýlishúsalóðir til í Reykjavík. Rætt er um að undanfarið hafi söluverð á slíkum lóðum verið í kringum 18-20 milljónir. Þá á eftir að teikna. Það getur kostað 4-8 milljónir. Samanlagt gera þetta 22-28 milljónir,“ segir Ingólfur.
Um 130 fermetra einbýlishús er á einni parhúsalóðinni og selst það með lóðunum. Ásett verð er 120 milljónir en óskað er eftir tilboðum. Eignaskipti koma til greina. Hægt er að bjóða í lóðirnar án einbýlishússins og er ásett verð fyrir átta lóðir með teikningum þá 80 milljónir. Húsin eru 185-200 fermetrar með bílskúr. Miðað við að fermetrinn kosti 300-350 þúsund í byggingu áætlar Ingólfur að húsin kosti ný 60-70 milljónir.
Miðað við að lóðin kosti 22-28 milljónir í Reykjavík áætlar hann að samsvarandi hús myndi kosta 90-100 milljónir í borginni. Athygli vekur að í auglýsingu fasteignasölunnar er því haldið fram að eftirspurnin eftir slíkum lóðum í Hveragerði sé jafnvel meiri en á höfuðborgarsvæðinu. Ingólfur segir að loksins hafi skapast grundvöllur fyrir nýbyggingum af þessum toga í nágrannasveitarfélögunum. Verðið hafi enda hækkað mikið. Því treysti verktakar sér til að leggja út í nýbyggingar.
Þrátt fyrir þessar hækkanir sé verðið mun hagstæðara í nágrannasveitarfélögum. „Það er hægt að fá nýtt einbýlishús í Hveragerði á svipuðu verði og sérhæð á höfuðborgarsvæðinu. Það eru margir tilbúnir að aka daglega til vinnu á höfuðborgarsvæðið ef þeir geta búið í stærra og jafnvel nýrra og betra húsnæði. Aksturinn tekur ekki mikið meira en hálftíma á góðum degi,“ segir Ingólfur.
Kostnaðurinn svipaður
Hann segir nokkurn veginn jafn dýrt að byggja í Hveragerði og á höfuðborgarsvæðinu. Þó sé það þannig að hingað til hafi fólk jafnan byggt ódýrara húsnæði í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Það hafi enda verið erfiðara að fá fjárfestinguna til baka en á höfuðborgarsvæðinu. Ingólfur telur ótvíræðar vísbendingar um að það sé að breytast.Hann segir ágætt framboð á gömlum einbýlishúsum í Hveragerði og á Selfossi. Eftirspurnin sé mikil sem komi fram í því að eignir seljist fljótt. „Þegar slíkar eignir eru til sölu í Reykjavík eru þær hins vegar oft á ansi háu verði. Eldri eignir í Reykjavík seljast á hærra verði út af verðmæti staðsetningarinnar. Því nýrri sem eignir eru í jaðarsveitarfélögunum þeim mun minna er verðbilið milli þeirra og Reykjavíkur,“ segir Ingólfur.