Straumur Háspennulínan sem liggur um nýbyggingarsvæði í Hafnarfirði á að víkja. Sú lausn sem koma skyldi í staðinn fær þó ekki samþykki.
Straumur Háspennulínan sem liggur um nýbyggingarsvæði í Hafnarfirði á að víkja. Sú lausn sem koma skyldi í staðinn fær þó ekki samþykki. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Framhald uppbyggingar í Skarðshlíðarhverfi í Hafnarfirði er í uppnámi eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í gær úr gildi framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar til Landsnets vegna Lyklafellslínu 1. Ætlunin hefur verið að háspennulínan verði milli tengivirkja við Sandskeið og í Hafnarfirði og á að koma í stað svonefndrar Hamraneslínu, sem liggur um hið nýja Skarðshlíðarhverfi.

Hafnarfjarðarbær gaf út framkvæmdaleyfi fyrir línulögn síðasta sumar og það kærðu Hraunavinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands. Bentu þar m.a. á hættu vegna mengunar enda ætti línan að fara um vatnsverndarsvæði, hraunsvæði yrði raskað auk þess sem ýmsar forsendur í orkumálum hefðu breyst frá því málið var lagt upp. – Ógilding leyfisins af hálfu úrskurðarnefndar byggist hins vegar á því að ekki sé sýnt fram á að lagning jarðstrengs í stað háspennulínu sé raunhæfur kostur. Þá sé ekki ,,... sýnt fram á að jarðstrengskostir séu ekki raunhæfir og samanburður á umhverfisáhrifum þeirra og aðalvalkosts framkvæmdaraðila hafi ekki farið fram með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir,“ eins og komist er að orði.

„Úrskurðurinn er áfall,“ segir Haraldur Líndal Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, í tilkynningu um þetta mál sem send var út í gær. Þess hafi verið beðið í áratugi að háspennulínurnar í Skarðshlíð og Hamranesi verði fjarlægðar og því þoli málið enga bið. Bendir bæjarstjórinn þar á uppbyggingu í Skarðshlíðarhverfinu – þar sem eigi að verða 520 íbúðir og ýmis þjónusta á vegum bæjarins.

„Þetta eru ekki þær fréttir sem við hefðum vonað að fá frá úrskurðarnefndinni,“ segir Haraldur Líndal sem væntir svara Landsnets um framhaldið á fundi fulltrúa fyrirtækisins með bænum sem haldinn verður í dag.