Sigþór Heiðar Ingvason fæddist á Egilsstöðum 26. mars 1966. Útför hans fór fram 27. janúar 2018.

Kæri Heiðar, til hamingju með daginn, vonandi fékkstu þér vöfflur og rjóma í tilefni dagsins. Vöfflur og rjómi voru þitt uppáhald, líka saltfiskur og hákarl. Þú hafðir gaman af því að borða góðan mat og njóta þess. Stundum bauð ég þér að koma yfir til okkar í mat, sérstaklega þegar ég var með eitthvað sem ég vissi að þú værir hrifinn af. Oft birtist þú fyrirvaralítið hjá okkur, en líka farinn eins snögglega og þú komst, ég sakna þess.

Þú kunnir að njóta, mér finnst eins og þú hafir stundum verið að reyna að hægja á okkur og fá okkur til að njóta staðar og stundar.

Ég mun muna það þegar þú dróst okkur systur á skíðum á snjósleðanum þínum, þegar við vorum í baggaheyskap í sveitinni, og þú vandaðir vel að raða böggunum á vagninn aftan í Ursus, svo þurfti að raða í hlöðuna líka, þessu hafðir þú gaman af. Ég mun muna þig við að dunda við Ferguson og snjósleðana, skrúbba og bóna, ég mun muna þig við að slá með bensín-sláttuorfinu sem þú varst búinn að slást við síðan ég man eftir mér, ekki skil ég hvernig þú gast alltaf fengið það til að ganga. Ég man þig á tröppunum heima með kúrekahatt og hendur í vösum. Og svo ótal margt fleira sem ég geymi í hjarta mínu. Ég er stolt af því hvað þú varst alltaf duglegur þrátt fyrir þín veikindi, og ég vona svo innilega að þér líði vel þar sem þú ert núna.

Hafðu þökk fyrir allt og allt, Heiðar minn, megi minning þín varðveitast um ókomin ár.

Þín systir,

Dalbjörk.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

...

(Pétur Þórarinsson.)

Já, það er margt sem miður fer í lífinu og oft er erfitt að rata réttu brautina. Því miður varst þú einn af þeim, kæri bróðir. Það hafa flogið margar hugsanir um huga minn síðastliðna mánuði og eftir situr djúp gjá í hjarta mínu sem mun aldrei falla saman aftur og verða eins. Vegna þess að lífið hér eftir verður aldrei eins, þú ert ekki hér, hringir ekki oftar, læðist ekki inn úr dyrunum oftar í sveitinni og hverfur út úr þeim jafn hljóðlega og þú komst inn. Kemur ekki oftar í heimsókn til mín og hlammar þér í sófann og gerir þig heimakominn, við horfum ekki lengur saman á Hobbitann eða Lord of the Rings eða borðum ís og ávexti saman, og ég sakna þessa alls. En þökk fyrir allar minningarnar sem ég á með þér, allt frá því ég var lítil og fram að deginum sem mér var sagt að þú værir dáinn. Það gat ekki verið, þessi orð eru þau hræðilegustu sem ég heyrt. Oft hef ég þurft að staldra við og hugsa, „bíddu, er þetta virkilega að gerast?“ Á síðustu árum höfum við gert margt saman og ég er mjög þakklát fyrir þann tíma, eitt af því er þegar við fórum saman á Sauðárkrók og þar rifjaðir þú upp vinnu þína í fiskinum og sláturhúsinu. Líka þegar við fórum í fimmtugsafmælisferðina þína í Jarðböðin í Mývatnssveit og við fengum okkur vöfflu og rjóma í tilefni þess.

Upp í hugann kemur byrjunin á kvikmyndinni „Englar alheimsins“. Ég man daginn er ég sá hana fyrst, vegna þess að ég sá okkur systkinin fyrir mér í myndinni. Fjórir hestar, þrír voru dökkir en einn var skjóttur, og þessi skjótti missti fótanna og datt í sandinn. Þú varst skjótti hesturinn. Núna ert þú ekki bara skjótti hesturinn heldur ert þú engill í alheiminum. Þrátt fyrir veikindi þín stóðstu þig í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur og framkvæmdir af alúð og umhyggju.

Þú vildir gera vel og það gerðir þú svo sannarlega. Í ófá skiptin tókstu að þér að hjálpa litlu systur við heimilisstörfin og þreifst hátt og lágt og það lá við að þú færir með tannbursta í sprungurnar svo nákvæmur og samviskusamur varstu til verka. Ég trúi því að í þínum heimi sértu núna að sinna bústörfunum á þínum sveitabæ innan um öll dýrin sem við höfum átt í sveitinni, þar á meðal er hann Patti þinn. Ég sé ykkur fyrir mér í gönguferðum og saman úti á túni á Ferguson að slá og raka grasið. Það var það sem þig langaði, eiga flottan sveitabæ, vera með marga hesta og ríða út. Þú hefðir verið flottur kúreki. Í okkar heimi trúi ég því að þú sért hrafn og fylgir mér allra minna ferða og passir upp á mig. Eins trúi ég því að þú sért allar stjörnurnar á himninum sem skína svo skært, eins og ég tel ömmu og afa vera.

Innilega til hamingju með afmælið, stóri bró, vonandi naust þú dagsins í fallegu sveitinni þinni með Patta þínum.

Þín litla systir,

Ingunn Heiðdís Yngvadóttir.