Seðlabanki Í fyrsta skipti í fjögur ár fór verðbólga yfir markmið .
Seðlabanki Í fyrsta skipti í fjögur ár fór verðbólga yfir markmið . — Morgunblaðið/Ómar
Verðbólga mældist 2,8% í mars og er í fyrsta skipti í fjögur ár komin yfir markmið Seðlabankans sem er 2,5%. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,56% milli febrúar og mars.

Verðbólga mældist 2,8% í mars og er í fyrsta skipti í fjögur ár komin yfir markmið Seðlabankans sem er 2,5%. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,56% milli febrúar og mars.

Að sögn Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka, er ekki víst að verðbólga fari aftur undir markmið bankans á næstunni.

„Rauði þráðurinn í þróuninni síðustu mánuði er að verðbólga hefur stigið hraðar en greinendur áttu almennt von á vegna þess að húsnæðisliðurinn hefur verið á siglingu,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Jón Bjarki bendir þó á að hægt hafi á hækkunartakti húsnæðisverðs. Samkvæmt Hagstofunni hækkaði íbúðaverð um 13,2% undanfarna 12 mánuði en hækkunin var 24% þegar mest lét síðasta sumar.

„Tvennt togast á í skammtímaspá okkar. Það er annars vegar óvissan varðandi þróun íbúðaverðs. Haldi það áfram að hækka verulega er líklegt að verðbólga fari vaxandi. Hins vegar vegur á móti óvissan um hvort gengi krónu muni styrkjast fram á haustið,“ segir Jón Bjarki.

Spurður hvort það sé í kortunum að það hægi á hækkunum fasteignaverðs segir hann: „Það eru runnar á okkur tvær grímur með það eftir hækkanir síðustu mánuði. Hækkunin hefur reynst lífseigari en við reiknuðum með, sérstaklega hjá byggðarkjörnum á landsbyggðinni sem eru í þægilegu ökufæri frá höfuðborgarsvæðinu og þar sem hefur verið uppgangur. Dæmi um það er Reykjanes, Árborg og Akranes.“

helgivifill@mbl.is