Hundar Margir kaupa tryggingar fyrir gæludýr sín hér á landi.
Hundar Margir kaupa tryggingar fyrir gæludýr sín hér á landi. — Morgunblaðið/Eggert
Algengt er að fólk kaupi tryggingar fyrir gæludýr sín hér á landi, sér í lagi fyrir hunda og ketti.

Algengt er að fólk kaupi tryggingar fyrir gæludýr sín hér á landi, sér í lagi fyrir hunda og ketti. Á heimasíðum stóru tryggingafélaganna má sjá að hægt er að kaupa tryggingar á borð við sjúkrakostnaðartryggingu, afnotamissistryggingu, líftryggingu, umönnunartryggingu og ábyrgðartryggingu fyrir blessuð dýrin. Þessar tryggingar geta til að mynda mætt útgjöldum ef dýrið veikist eða ef það veldur tjóni, og bætt eigendum ef það drepst í slysi eða vegna veikinda.

Erfitt er að henda reiður á því hversu mörg dýr eru tryggð hér á landi en samkvæmt upplýsingum frá VÍS eru nokkur þúsund gæludýr tryggð hjá félaginu.

Athygli vekur að aðeins er hægt að kaupa tryggingar fyrir gæludýr fram til fimm ára aldurs, samkvæmt skilmálum á heimasíðum VÍS og Sjóvár. Hjá Tryggingamiðstöðinni er hægt að tryggja dýr fram til sjö ára aldurs. Þetta gerir gæludýraeigendum vitaskuld erfiðara fyrir að ætla að skipta um tryggingafélag en ella. Þá renna tryggingar gjarnan út hjá hundum þegar þeir ná tíu ára aldri og hjá köttum við þrettán ára aldur.

„Varðandi aldurstakmörk í gæludýratryggingum þá er það í raun bara áhættumat sem ræður ferðinni. Eftir ákveðinn aldur fara líkur á sjúkdómum að aukast sem eðlilegur fylgifiskur hækkandi aldurs frekar en að vera sérstök vátryggingaráhætta. Sama gildir um hámarksaldur við kaup,“ segir Kjartan Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri einstaklingsráðgjafar og markaðsmála hjá Tryggingamiðstöðinni. Svipuð svör fást hjá VÍS; líkur á bótaskyldum atvikum aukist mikið eftir að fimm ára aldri sé náð.

„Þó að dýrið verði að vera fimm ára eða yngra þegar tryggingin er keypt gildir ábyrgðar- og umönnunartryggingin út lífaldur dýrsins,“ segir í svari VÍS. hdm@mbl.is