Einbeiting Stjórnandinn Hermann Bäumer með einsöngvurum, kór og hljómsveit á æfingu fyrir flutninginn á Eddu II – Líf guðanna. „...var 80 mín. langri óratoríunni fagnað að leikslokum með standandi klappi salargesta. Að líkindum frekar fyrir sérlega einbeitta frammistöðu flytjenda en verkið sjálft,“ skrifar rýnir.
Einbeiting Stjórnandinn Hermann Bäumer með einsöngvurum, kór og hljómsveit á æfingu fyrir flutninginn á Eddu II – Líf guðanna. „...var 80 mín. langri óratoríunni fagnað að leikslokum með standandi klappi salargesta. Að líkindum frekar fyrir sérlega einbeitta frammistöðu flytjenda en verkið sjálft,“ skrifar rýnir. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Leifs: Edda II – Líf guðanna, óratoría fyrir mezzósópran, tenór, bassa, blandaðan kór og hljómsveit Op. 42 (1951-66; heimsfrumfl.) Einsöngvarar: Hanna Dóra Sturludóttir MS, Elmar Gilbertsson T og Kristinn Sigmundsson B. Schola Cantorum...

Jón Leifs: Edda II – Líf guðanna, óratoría fyrir mezzósópran, tenór, bassa, blandaðan kór og hljómsveit Op. 42 (1951-66; heimsfrumfl.) Einsöngvarar: Hanna Dóra Sturludóttir MS, Elmar Gilbertsson T og Kristinn Sigmundsson B. Schola Cantorum (kórstj. Hörður Áskelsson) og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi: Hermann Bäumer. Föstudaginn 23.4. kl. 19:30.

Óratorían Edda II – Líf guðanna var heimsfrumflutt fyrir fullu húsi í Eldborg sl. föstudag, hálfri öld eftir andlát höfundar (1899-1968).

Verkið var að sögn Jóns andsvar við Niflungahring Wagners er hefði misskilið ,norrænt eðli‘, og átti líkt og Hringurinn að taka fjögur kvöld í flutningi. I. þáttur þess (Edda I – Sköpun heimsins) var frumfluttur í Háskólabíói 2006, og er þá aðeins eftir liðlega 20 mín. langur fyrsti partur III. hlutans (Ragnarøkr) , eða það sem Jóni auðnaðist að ljúka meðan honum entist aldur – að óhöfnum fjórða lokahluta (Endurreisn) .

Sköpunaraform tónskáldsins bar óneitanlega vott um tröllaukinn metnað. Sérstaklega við vonlausar íslenzkar aðstæður um miðja síðustu öld þegar listmúsík var hér enn í burðarliðnum og hvorki nægur mannskapur né kunnátta fyrir hendi til að uppfylla risavaxnar kröfur verksins, svo vægt sé til orða tekið.

Þar við bættist gullrent gildi textaefnisins úr Eddukvæðum, einni merkustu bókmenntaarfleifð heimsins frá miðöldum á þjóðtungu (og reyndar einstæðri, eftir að sonur Karlamagnúsar og arftaki lét brenna germanskt hetjukvæðasafn föður síns á 10. öld) – sem Wagner hafði áður notað ótæpilega í Hringnum eins og Árni Björnsson hefur nýlega staðfest ýtarlega í riti.

Sem sagt ærin ástæða til að vekja eftirvæntingu, eins og aðsóknin bar raunar með sér – að ógleymdri ákvörðun sænsku BIS hljómdiskaútgáfunnar að gefa út öll tónverk Jóns Leifs í hljóðriti. Þá mun með tilkomu aukinnar víðsýni og fjölbreyttari áhrifa frá m.a. ,heimsmúsík‘ nú af sú tíð þegar framsækin tónverk þóttu þurfa að sæta strangri stílögun.

Stóra spurning kvöldsins var því hvort tónsköpun Jóns hlyti loks flutning og viðtökur í einhverju samræmi við vonir hans á tilurðartíma.

Sjálfum varð mér um og ó. Þegar frá leið gat ég ekki varizt þeirri hugsun að e.t.v. hafi Jón verið sinn versti óvinur. Allavega tónverksins – með því að leyfa hvergi frumlegustu stöðum að njóta sín í umgjörð hæfilegra kontrasta. Þess í stað þjösnaðist verkið nær sífellt á útopnum hamagangi án merkjanlegrar framvindu, er hlaut fyrr eða síðar að valda leiðindum svo ekki sé meira sagt. Að auki sligaðist heildin af dæmigerðum persónulegum klissjum á við trítónus (tónskratta), þríundaskyld hljómaskipti og óreglulegar fítonsáherzlur, er hættu á svipstundu að koma neinum á óvart.

Þá var, m.a. sakir vitaósönghæfra risatónstökkva, oftast illmögulegt að greina orðaskil kór- og einsöngvara. Harla undarlegt, hafi höfundur annars borið virðingu fyrir glæstum fornaldartextanum sem varla er ástæða til að efast um.

Læddist óhjákvæmlega að manni grunur um að meðvitað ,frumstætt‘ tónamál Jóns nyti sín bezt í styttri ósungnum verkum eins og Geysi og Heklu , en að sama skapi mun verr í lengri strúktúr sem þessum. Engu að síður var 80 mín. langri óratoríunni fagnað að leikslokum með standandi klappi salargesta. Að líkindum frekar fyrir sérlega einbeitta frammistöðu flytjenda en verkið sjálft – enda tekur stjörnugjöfin einkum mið af henni.

Ríkarður Ö. Pálsson

Höf.: Ríkarður Ö. Pálsson