Í gömlum stólum Jóhanna Friðgeirsdóttir spjallar við Guðrúnu Eyjólfsdóttur, tengdamóður sína og íbúa á Grund. Stólarnir eru sem nýir.
Í gömlum stólum Jóhanna Friðgeirsdóttir spjallar við Guðrúnu Eyjólfsdóttur, tengdamóður sína og íbúa á Grund. Stólarnir eru sem nýir. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Ráðdeild, sparnaður og útsjónarsemi hafa verið einkennandi fyrir rekstur Grundar við Hringbraut í Reykjavík.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Ráðdeild, sparnaður og útsjónarsemi hafa verið einkennandi fyrir rekstur Grundar við Hringbraut í Reykjavík. Einstök hrærivél, sem tekin var í notkun 1945, og borð og stólar frá 1932 eru meðal annars til vitnis um það.

Sagan af stofnun Grundar og uppbyggingunni allri er um leið saga framsýnna atorkumanna – og -kvenna, saga Samverja, nokkurra góðtemplara, sem sinntu matargjöfum til fátækra í átta vetur frá 1914, stóðu fyrir söfnun til að kaupa húsið Grund vestan við Sauðagerðistún skammt frá Kaplaskjólsvegi og íþróttasvæði KR, og opnuðu þar samnefnt elliheimili 1922. Það annaði ekki eftirspurninni og sex árum síðar, eða 1928, fyrir um 90 árum, var fyrsta skóflustungan að Grund við Hringbraut tekin. Þegar fyrir lá að Vestur-Íslendingar ætluðu að fjölmenna á alþingishátíðina var framkvæmdum flýtt svo þeir gætu gist á nýja heimilinu, en sumir fengu inni á Landspítalanum.

Góðir gestir

Sigurbjörn Á. Gíslason í Ási, forgöngumaður Grundar, skrifaði grein í Morgunblaðið 19. júní 1930. Þar stendur meðal annars eftirfarandi:

„Okkur, sem að Elliheimilinu stöndum, hefur verið hinn mesti styrkur bæði beinlínis og óbeinlínis að komu Vestur-Íslendinga. Ýmsir mikilhæfir valdamenn hjer í bæ fóru þá fyrst að styðja bygginguna með ráðum og dáð, er von var til að landar að vestan gætu búið í Elliheimilinu fyrstir manna. Við hefðum blátt áfram aldrei ráðist í að reisa austurálmu hússins, – og við hefðum að líkindum orðið að hálfhætta við bygginguna um hríð í vetur, ef við hefðum ekki notið þess á margan hátt, bæði hjá ríkisstjórn og fleirum, að við ætluðum að hýsa Vestur-Íslendinga.“

Gestirnir að vestan greiddu vel fyrir gistinguna. Peningarnir voru til dæmis notaðir til þess að kaupa fyrrnefnd húsgögn sem enn eru í notkun á Grund, 86 árum síðar, og líta vel út. Nýlegar sessur eru á mörgum þeirra og armstólarnir hafa verið bólstraðir. „Við höfum passað vel upp á að halda stólunum við og meðal annars lakkað þá reglulega,“ segir Guðrún Birna Gísladóttir, forstjóri Grundar og þriðji ættliðurinn sem stýrir heimilinu.

Kristján Þ. Sigmundsson bakari sér um allan bakstur sætabrauðs fyrir Grund og Mörk. Hann er ánægður með bandarísku hrærivélina sem ákveðið var að kaupa 1941 en kom fjórum árum síðar en til stóð til landsins vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. „Þessi Hobart-vél er með betri hrærivélum sem ég hef unnið með og ég hef verið í bakstri síðan 1984,“ segir hann. „Hún hefur ekki klikkað.“