Senn líður að páskum og flestir ábyggilega komnir í hátíðarskap, ekki síst börnin og unglingarnir sem eru í páskafríi frá skólunum. Því er varla seinna vænna að taka til við páskaföndrið til þess að punta svolítið heima hjá sér.
Í Borgarbókasöfnunum í Kringlunni, Sólheimum og Spönginni er mikil stemning fyrir páskunum og gestum og gangandi boðið að föndra páskaskraut hver sem betur getur allan liðlangan daginn frá kl. 10 til 19 í dag, þriðjudaginn 27. mars, og á morgun, miðvikudaginn 28. mars. Stundum er skemmtilegra að föndra með hópi fólks en ein/n heima og því er upplagt að nota tækifærið og bregða sér á safnið. Svo má í leiðinni heim kippa með sér einni eða tveimur skemmtilegum bókum til að hafa eitthvað að lesa yfir páskana. Boðið er upp á föndurefni, tæki og tól á söfnunum auk páskaskrautshugmynda og leiðbeininga. En það má líka gera hvað sem er. Ekki er þó ólíklegt að gulur verði tískuliturinn í páskaskrautinu í ár rétt eins og mörg undanfarin ár og egg, ungar og kanínur í aðalhlutverkum. Enginn aðgangseyrir, heitt á könnunni og allir velkomnir.