Fyrir páska þarf atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið að gefa út nýja reglugerð um veiðigjöld. Reiknivilla sem hefur áhrif á útreikning gjalds eftir tegundum kom í ljós nýlega og því þarf að reikna gjaldið út upp á nýtt. Villan hefur ekki áhrif á gjaldstofninn heldur eingöngu afkomuígildi hvers stofns um sig.
Áhrif þessarar villu, að teknu tilliti til upplýsinga um landaðan afla frá 1. september í fyrra fram til febrúarloka í ár, eru að álögð veiðigjöld í þorski, ýsu og öfugkjöftu hafa verið ofreiknuð um 200 milljónir króna á meðan veiðigjald af öðrum botnfisktegundum er 128 milljónum króna lægra en vera skyldi, miðað við réttar forsendur í útreikningi. Hvað viðvíkur uppsjávarfiski hefur veiðigjald af kolmunna og síld verið hærra en ella væri um 10,4 millj. kr. og gjald af loðnu og síld hefði átt að vera 14,5 millj. kr. Ráðuneytið telur þó fjárhæðir vegna uppsjávarfisks að öllum líkindum ofreiknaðar af gefnum ákveðnum forsendum.
Mjög versnandi afkoma
„Þetta er leiðrétting á útreikningum á gjöldum sem við höfum gagnrýnt. Þessi gjaldheimta er heldur ekki í takt við afkomu greinarinnar í dag. Víða frá eru að koma fram upplýsingar um versnandi afkomu,“ segir Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann bendir á að inni í væntanlegri leiðréttingu sé hækkun á gjöldum á tegundir eins og grálúðu og gulllax, sem komi sér illa fyrir útgerð frystitogara. sbs@mbl.is