Fótbolti
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
Hinn 33 ára gamli Jefferson Farfán er þekktasti leikmaður perúska landsliðsins í knattspyrnu sem mætir Íslandi í vináttulandsleik í New Jersey í nótt. Þessi fljóti sóknarmaður hefur tvívegis þurft að taka út agabann hjá landsliðinu, vegna lífsstíls sem ekki er víst að hann hafi þroskast upp úr, og nú er hann á leið með Perú á fyrsta heimsmeistaramót liðsins síðan árið 1982.
Gríðarmiklar vonir voru bundnar við Farfán þegar hann kom fyrst fram á sjónarsviðið sem leikmaður Alianza Lima í heimalandinu. Pabbi kappans hafði yfirgefið fjölskylduna þegar Farfán var ungur en mamma hans lét ekki skort á peningum koma í veg fyrir að strákurinn fengi sitt tækifæri í fótboltanum. „Það vita það fáir en mamma vann fyrir sér sem dansari og var í vinnunni fram að sólarupprás, en fór samt með mig og studdi mig í leikjum klukkan 8 á morgnana. Hún sat í stúkunni en var dauðþreytt og jafnvel sofnuð þegar ég hljóp til hennar og vildi tileinka henni mark,“ sagði Farfán tárvotur í sjónvarpsþætti á síðasta ári.
„Litli selurinn“, eins og Farfán hefur verið kallaður vegna þess hve listilega og hratt hann getur ferðast með boltann fram völlinn, spilaði sinn fyrsta landsleik 19 ára gamall og þótti einn efnilegasti knattspyrnumaður Suður-Ameríku. Hann fór frá Perú árið 2004 og til liðs við PSV í Hollandi, þar sem Guus Hiddink var við stjórnvölinn. Farfán stóð undir væntingum og vel það, skoraði 57 mörk í 118 deildarleikjum, og var seldur til Schalke í Þýskalandi þar sem hann lék í átta ár og vakti mikla athygli.
Djammaði fram undir morgun til að fagna jafntefli
Þrátt fyrir að hafa staðið sig vel hjá Schalke, á blómaskeiði ferilsins ef svo má segja, varpaði hegðun Farfáns utan vallar skugga á frammistöðuna. Hann var ásamt Claudio Pizarro og fleirum settur í agabann hjá perúska landsliðinu árið 2007 eftir að hafa drukkið og djammað með léttklæddum konum fram undir morgun á Los Incas hótelinu í Lima, til að fagna 1:1-jafntefli við Brasilíu. Þetta gerðu leikmennirnir þrátt fyrir að aðeins þrír dagar væru í mikilvægan leik við Ekvador, sem tapaðist 5:1.Þessi hegðun mun hafa verið einkennandi fyrir leikmenn perúska landsliðsins á þessum tíma, en „Los Incas“-hneykslið varð stærst enda birtust myndskeið og ljósmyndir af partístandinu. Perúska sambandið úrskurðaði leikmennina í agabann og þjálfarinn José Guillermo del Solar neitaði að nýta krafta þeirra næstu tvö árin, en það hafði líka í för með sér að Perú endaði í neðsta sæti undankeppninnar í Suður-Ameríku fyrir HM 2010.
Með Schalke í undanúrslit Meistaradeildarinnar
Farfán var svo aftur settur í bann hjá landsliðinu undir lok árs 2010, eftir að hafa fengið tvo liðsfélaga sína með sér af liðshótelinu og í spilavíti kvöldið eftir útileik við Panama, þvert gegn tilmælum þjálfara. Þessi hegðun Farfán varð til þess að almenningsálitið á honum í Perú var og er jafnvel enn ekkert sérstakt, jafnvel þó að hann spilaði jafnan vel í landsleikjum.Á þessum árum lék Farfán einnig vel með liði sínu Schalke, og skoraði til að mynda fjögur mörk í 10 leikjum þegar liðinu tókst að komast í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu árið 2011. Alls skoraði Farfán 39 mörk á sjö leiktíðum í þýsku deildinni, en meiðsli fóru að setja svip sinn á ferilinn síðustu árin þar. Landsliðsferlinum virtist vera að ljúka árið 2015 þegar hann gekk í raðir Al Jazira í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og enn settu meiðsli strik í reikninginn. Farfán hefur hins vegar komist vel í gang í vetur og raðað inn mörkum, eftir að hann gekk í raðir Lokomotiv Moskvu síðasta sumar.
Sneri aftur og kom Perú á HM
Farfán fékk sæti í landsliðinu á ný síðasta haust, eftir 18 mánaða fjarveru, og skoraði fyrra markið í 2:0-sigrinum á Nýja-Sjálandi í nóvember þegar 36 ára bið Perú eftir sæti á HM lauk. „Vandræðagemlingurinn“ fær því að sjá drauminn sinn rætast og er búinn að leigja hús í Moskvu fyrir vini og vandamenn yfir heimsmeistaramótið, en fylgir vonandi reglum um að halda sig sjálfur á liðshótelinu á næturnar. „Þetta er fyrir perúsku þjóðina sem hefur þurft að þjást svo mikið í mörg ár. Framtíðin er enn bjartari. Þetta landslið er með báða fætur á jörðinni og ætlar sér stóra hluti,“ sagði Farfán eftir að HM-sætið var í höfn.
Perú
» Ísland hefur aldrei áður mætt Perú í landsleik í knattspyrnu.
» Perú er í 11. sæti styrkleikalista FIFA eftir að hafa verið í 75. sæti fyrir tíu árum.
» Perú hefur fjórum sinnum tekið þátt á HM, síðast árið 1982. Liðið leikur á HM í Rússlandi, líkt og Ísland, eftir að hafa hafnað í 5. sæti Suður-Ameríkuriðilsins og svo unnið Nýja-Sjáland í umspili.