Monika Dagný Karlsdóttir ólst upp með hundum í Kanada en féll fyrir íslenska fjárhundakyninu þegar hún eignaðist Hófí. Henni varð hugsað til langveikra barna þegar hún sjálf varð veik og rúmföst og vildi gefa út bók fyrir börn í þeirri stöðu. Hún gekk með söguna um Hófí lengi í huganum, en nú er hún komin út á bók. Og þær verða fleiri bækurnar sem segja frá lífi hundsins.
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Ég var fimmtán ára þegar ég fluttist til Íslands með foreldrum mínum en ég hef á mínum fullorðinsárum búið annars staðar en á Íslandi, ég bjó í fjögur ár í Noregi og í Kanada af og til,“ segir Monika Dagný Karlsdóttir, höfundur nýrrar barnabókar sem heitir Hófí er fædd, ævintýri íslenskra fjárhunda, en aðalpersónan þar er hundurinn Hófí. Bókin er byggð á sönnum sögum af tíkinni Hófí sem Monika eignaðist fyrir þrjátíu árum.
„Hófí var fyrsti hundurinn sem ég eignaðist af íslensku fjárhundakyni, en ég ólst upp með hundum heima í Kanada á bernskuárunum svo hundar hafa alltaf verið partur af lífi mínu. Ég eignaðist Hófí eiginlega óvart, því þegar ég frétti að íslenski fjárhundurinn væri í útrýmingarhættu fannst mér spennandi að fá mér tík. Hófí varð hluti af fjölskyldunni og í framhaldi af tilkomu hennar á heimilið varð ég það ástfangin af tegundinni að ég ákvað að reyna að fara að rækta íslenska hunda til að sporna gegn þessari hættu. Ég fékk ræktendur til að leiðbeina mér og þetta gekk vel. Svarti liturinn í Hófí var sérstakur, því hann var mjög sjaldgæfur í íslenska fjárhundinum þá og því var tilvalið að halda honum við með ræktun. Hófí átti þrjú got og nokkrir einstaklingar undan henni bæði hér heima og erlendis áttu afkvæmi og út frá þeim hefur bæst í stofninn.“
Monika segir að Hófí hafi verið yndislegur hundur. „Hún var eins og hugur manns. Ég átti sjefferhund fyrir sem var mjög hændur að mér og auðveldur í þjálfun, en Hófí var líkt og sjálftamin, það var engin fyrirhöfn að þjálfa hana, hún gerði allt strax sem henni var sagt að gera. Hún var alveg ótrúlega þægileg,“ segir Monika og bætir við að Hófí hafi orðið 15 ára, lifað til ársins 2003.
Líkt og hún hefði lesið hugsanir mínar
„Þessi bók hefur verið að malla í huga mínum í mörg ár, eða allt frá því að Hófí dó. En svo ákvað ég að gera eitthvað í því að gefa bókina út þegar ég fyrir tveimur árum var svo slæm í baki að ég var rúmliggjandi, gat hvorki setið né staðið. Ég gat ekkert gert, ekki einu sinni verið í tölvunni. Þá fór ég að hugsa um öll langveiku börnin sem eru mikið á sjúkrahúsi og geta ekki haft hjá sér þá hunda sem til eru heima hjá þeim. Ég fór að hugsa að það væri gaman að gefa út bók um Hófí fyrir þessi börn sem einhver gæti lesið fyrir þau, eða þau lesið sjálf, en ég naut þess mjög þegar ég var lítil að amma mín las alltaf sögur fyrir mig.“ Næsta skref var að fá myndskreyti en Monika sá fyrir tilviljun á Facebook mynd af hundi sem ung hollensk kona hafði teiknað, Martine Jaspers-Versluijs.„Ég sendi henni skilaboð og spurði hvort hún væri til í að teikna myndir fyrir bókina mína um Hófí. Hún sagði strax já, því hún átti sjálf íslenskan hund og hefur verið heilmikið á Íslandi, og hún dýrkar landið. Ég sendi henni söguna og hún sendi mér hugmyndir að myndum til baka. Þegar ég sá myndirnar leið mér eins og hún hefði lesið hugsanir mínar, þetta var alveg eins og ég vildi hafa þetta.“
Hófí-bangsar í þróun
Monika ætlaði fyrst að gefa bókina út sjálf, en bókaútgáfan Draumsýn var til í að gefa hana út og nú er ævintýrið um Hófí orðið að veruleika.„Þessi fyrsta bók er um það þegar Hófí kom í heiminn og um íslenska hundakynið almennt, en bækurnar verða fleiri, þetta verður bókaflokkur, þar sem ég fer í gegnum lífið hennar Hófíar, sem hittir til dæmis önnur íslensk dýr. Ég lagði áherslu á að öll dýrin í bókunum væru íslensk og náttúran líka, því ég vil hafa þetta ekta.“
Bækurnar um Hófí koma líka út á ensku og henta því vel fyrir ferðamenn og sem gjafir til erlendra vina.
„Systir mín sem býr í Kanada er að verða amma og mér finnst frábært að hún hafi þessa bók bæði á íslensku og ensku fyrir barnabörnin, en hún ólst upp á Íslandi rétt eins og ég þótt hún hafi flutt aftur til Kanada.“
Monika segir að nú sé verið að þróa Hófí-bangsa, „því ég vil að allir krakkar hafi möguleika á að geta knúsað og lesið fyrir Hófí, hvort sem þau eru veik eða heilbrigð. Og púsl og bolir fara í vinnslu fljótlega. Ég er Erni og Karítas hjá Draumsýn afar þakklát, að fá þetta tækifæri til að kynna Hófí fyrir börnum á öllum aldri,“ segir Monika, sem nú á þrjá hunda sem allir eru af íslensku fjárhundakyni og eiga ættir sínar að rekja til Hófíar.