Björn Hermannsson fæddist á Ysta-Mói í Fljótum í Skagafirði 16. júní 1928. Hann lést 13. mars 2018.
Foreldrar hans voru Hermann Jónsson, bóndi og hreppstjóri, f. 1891, d. 1974, og Elín Lárusdóttir húsfreyja, f. 1890, d. 1980. Systkini Björns voru: Halldóra, f. 1912, Lárus, f. 1914, Níels, f. 1915, Rannveig, f. 1916, Hrefna, f. 1918, Sæmundur, f. 1921, Haraldur, f. 1923, og Georg, f. 1925. Þau eru öll látin.
Björn kvæntist þann 5. júní 1952 Rögnu Þorleifsdóttur frá Hrísey, f. 3. apríl 1929, hjúkrunarkonu, sem lifir mann sinn. Foreldrar hennar voru Þorleifur Ágústsson, fiskmatsmaður, f. 1900, d. 1984, og Þóra Magnúsdóttir, húsfreyja, f. 1901, d. 1989.
Börn Björns og Rögnu: 1) Þorleifur, f. 1952, d. 2002, m. Hlín Brynjólfsdóttir, f. 1953. Börn: a) Ragna Hlín, f. 1977, m. Guðmundur Jörgensen, f. 1975, þau eiga þrjú börn. b) Kári Björn, f. 1987, m. Kolbrún Ýrr Ronaldsdóttir, f. 1987. 2) Þóra, f. 1955, m. Jón H.B. Snorrason, f. 1954. Börn: a) Berglind, f. 1978, m. Emil Árni Vilbergsson, f. 1976, þau eiga þrjú börn. b) Olga Hrönn, f. 1984, s. Steindór Ellertsson, f. 1985, þau eiga eitt barn. c) Elín Helga, f. 1990, s. Arnar Björgvinsson, f. 1987. 3) Gústaf Adolf, f. 1957, m. Guðrún Gunnarsdóttir, f. 1957. Börn: a) Kristín Brynja, f. 1983, hún á tvö börn. b) Gunnar Óli, f. 1989. c) Ragnar Freyr, f. 1992, s. Daníel Ingi Þórisson, f. 1984. 4) Hermann, f. 1963, m. Eiríka Guðrún Ásgrímsdóttir, f. 1962. Börn: a) Björn Orri, f. 1989, b) Ásgrímur, f. 1992, s. Hrafnhildur Birta Valdimarsdóttir, f. 1998. c) Hjörtur, f. 1995, s. Bera Tryggvadóttir, f. 1997. 5) Jónas, f. 1967, m. María Markúsdóttir, f. 1974. Börn: a) Björn Ísfeld, f. 2004. b) Bryndís Huld, f. 2008. Fyrir átti Jónas tvær dætur: a) Veronika Kristín, f. 1990. b) Hekla, f. 1995. Fyrir átti Björn soninn Lárus Má, f. 1952, d. 2014. Barn: a) Kári Fannar, f. 1980, m. Eva Björk Heiðarsdóttir, f. 1983, þau eiga tvö börn.
Björn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1949 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1955. Björn tók virkan þátt í félagsmálum og var í stjórn Stúdentafélags Akureyrar og á háskólaárum m.a. formaður Stúdentaráðs. Hann varð héraðsdómslögmaður 1957 og hæstaréttarlögmaður 1965. Björn var erindreki Framsóknarflokksins á Norðurlandi 1955-57. Árið 1957 hóf hann störf í fjármálaráðuneytinu, fyrst sem fulltrúi og síðar skrifstofustjóri, þar til hann var skipaður tollstjóri í Reykjavík frá 1973. Hann var jafnframt skipaður til að gegna starfi ríkistollstjóra frá 1987. Þeim embættum gegndi hann til starfsloka 1998. Hann var fulltrúi Íslands í Norrænu tollskrárnefndinni 1964-72 og formaður hennar 1967-68. Hann sat fundi Norræna tollasamvinnuráðsins og var formaður þess 1973 og 1980. Björn var fulltrúi Íslands í tollanefnd EFTA 1970-72. Hann var skipaður af ríkisstjórn í sáttanefnd í vinnudeilum 1975-76. Auk þess átti hann sæti í fjölda nefnda um rekstur ríkisfyrirtækja og um tollamálefni innanlands sem utan.
Útför Björns fer fram frá Háteigskirkju í dag, 27. mars 2018, kl. 13.
Björn tengdafaðir minn átti langan og farsælan starfsferil að baki. Hann var góðum gáfum gæddur og gegndi störfum sínum og embættum sem honum var treyst fyrir af samviskusemi, vandvirkni og röggsemi. Björn speglaði sig þó alls ekki í embættum og metorðum. Fjölskyldan var hans vettvangur og það sem allt snérist um hjá honum.
Björn og Ragna voru einstaklega samhent og samtaka. Þau voru gestrisin og rausnarleg og heimili þeirra opið ættingjum og vinum. Þangað lá leið afkomendanna daglega. Þar var hverjum og einum tekið opnum örmum af einstakri gestrisni og örlæti. Stórhátíðum og öllum viðburðum í fjölskyldunni var fagnað á heimili þeirra lengi framan af. Þau voru afar náin börnum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum og voru fullir þátttakendur í lífi þeirra. Tengdabörnunum bættu þau við barnahópinn sinn.
Þau Björn og Ragna lifðu lífinu lifandi og áttu sér margs konar tómstundir og áhugamál sem miðuðu öll að því að stórfjölskyldan gæti tekið þátt með þeim. Við vorum með þeim á skíðum, ferðalögum, veiðum og hestamennsku. Björn og Ragna smituðu alla af viðfangsefnum sínum og því sem þau tóku sér fyrir hendur. Börnunum kenndi Björn að spila og tefla. Hann vakti með þeim áhuga á ljóðum og gerði þau að ljóðaunnendum býsna ung.
Fastur liður á hverju sumri var dvöl í Fljótunum. Þar var kastað fyrir lax og silung, tínd ber og notið samvista. Björn setti alltaf á flot bát sinn og réri út á Haganesvík til að setja færi fyrir þann gula. Hann vissi nákvæmlega hvar fiskurinn mundi taka. Þetta var heimavöllurinn hans. Þessar veiðar hafði hann stundað frá því að hann var barn með föður sínum og heimilisfólkinu á Mói.
Björn var bundinn heimahögum sínum sterkum böndum. Í Skagafirði og á Siglufirði bjuggu flest systkini hans og fjölskyldur. Þeim einstaka systkina- og vinahópi var Björn mjög tengdur. Björn hafði oft orð á því að aldrei hefði orðið úr skólagöngu hjá sér nema fyrir hvatningu systkina sinna.
Ég kveð tengdaföður minn með söknuði og þakklæti. Björn var mér afar traustur vinur og sterk fyrirmynd. Hann vandaði ekki um, en ef eftir því var leitað var hann hollráður og alltaf til staðar.
Jón H B Snorrason.
Starfið er margt, en eitt er
bræðrabandið,
boðorðið, hvar sem þér í fylking
standið,
hvernig sem stríðið þá og þá er blandið,
það er: Að elska, byggja og treysta
á landið.
(Hannes Hafstein)
Þetta var eitt af mörgum ljóðum sem tengdafaðir minn fór með reglulega og lýsir honum vel, en hann var mikill unnandi íslenskrar tungu og náttúru landsins. Hann lést á 90. aldursári eftir langa og góða ævi. Við erum búin að fylgjast að í rúmlega 40 ár. Ég var ekki búin að vera lengi í fjölskyldunni þegar mér varð ljóst að Fljótin voru sveitin hans Björns. Þangað hefur verið farið á hverju ári í mörg ár og hann smám saman gert mig að Fljótakonu. Þar er farið í veiði, berjamó og sund á Sólgörðum og notið þess að vera í samneyti við ættingja hans og vini okkar. Varðandi veiðina var alltaf spenningur í gangi hjá Birni hvað veiddist og hvar. Alltaf bað hann okkur að veiða innan hóflegra marka. Systkinin á Mói voru níu og ættarmót hafa verið haldin annað hvert ár og segir það ýmislegt um samheldnina. Tengdaforeldrar mínir hafa lagt sig í líma við að halda fjölskyldunni sinni saman. Á hverjum laugardegi í rúm 30 ár höfum við börn, tengdabörn og barnabörn og hin síðari ár barnabarnabörn mætt í grjónagraut og slátur í Álftamýrina, en þar bjuggu þau hjón í 50 ár. Þá var rætt um allt mögulegt og vettvangur til að fylgjast með hvert öðru. Um tíma var það þannig að tengdapabbi valdi ljóð sem barnabörnin lærðu áður en þau komu í grautinn og fóru með fyrir hann og fengu að launum 100 kr. Stundum stóð þannig á að eitthvert þeirra var fjarverandi og var þá hringt til hans til að fara með ljóðið. Frábær leið til að kynna fyrir þeim ljóð og auka enn frekar við lestur. Björn var mikill áhugamaður um íþróttir, stundaði sund daglega, átti hesta í Víðidal um tíma, gekk til rjúpna, spilaði bridds og var skíðamaður. Þegar hann var áttræður fórum við flest öll til Mallorca í afmælisferð og vorum við saman í viku. Þar nutum við stórfjölskyldan samvistar við leik og störf. Á afmælisdaginn var leigð rúta og keyrt um eyjuna með fararstjóra sem uppfræddi okkur um það sem fyrir augu bar. Einnig fórum við Gústi með þeim Birni og Rögnu í tvígang á þeirrar slóðir til Albír á Spáni sumarið 2014 og 2015. Þar gistum við á hótel Kaktus og þau leiddu okkur í gegnum allt þar. Það fór virkilega vel um okkur og leigðum við okkur m.a. bílaleigubíl og keyrðum um svæðið. Björn naut þess að vera í hitanum og ganga um stíginn meðfram sjónum og setjast þar á bekk og virða fyrir sér mannlífið. Tengdapabbi var fyrst og síðast traustur og góður og fylgdist vel með öllum sínum ættlegg. Með tár á hvarmi en gleði í hjarta yfir öllum góðu minningunum kveð ég nú með þökk fyrir allt og allt. Hvíl í friði.
Guðrún Gunnarsdóttir.
Það kom fljótt í ljós að hræðsla mín við tengdapabba var algerlega ástæðulaus. Þó að Björn væri oft alvarlegur í fasi dags daglega var augljóst að honum var mjög umhugað um fjölskyldu sína, sem ört stækkaði. Hann var ljúfur og umhyggjusamur um okkur öll og sérstaklega var honum umhugað um yngstu börnin. Hann var einstaklega þolinmóður og laginn þegar hann kenndi Rögnu minni og Berglind bæði á skíði og mannganginn í skák. Einnig þegar hann passaði þær frænkur þegar tengdamamma var ekki heima til að hlaupa undir bagga með okkur ungu foreldrunum. Ekki reyndist hann síðri þegar við Þorleifur vorum að kaupa okkar fyrsta húsnæði. Hann tók sér góðan tíma í að fara með okkur yfir allar hliðar slíkrar fjárfestingar og sá til þess að allt væri nú rétt gert í þeim efnum.
Alla tíð frá upphafsfundum okkar Björns reyndist hann mér og fjölskyldu minni einstaklega vel. Alltaf var hægt að leita til hans með hin ýmsu mál sem á okkur hvíldu og þörfnuðust úrlausnar. Björn tengdafaðir minn var umfram allt traustur maður, tryggur vinur og ósérhlífinn í öllu sem viðkom stórfjölskyldunni. Í þeim efnum voru þau tengdaforeldrar mínir Björn og Ragna samhent sem ein manneskja.
Ég þakka elskulegum tengdaföður mínum fyrir okkar góðu viðkynni í gegnum tíðina og góða ferð hvert sem för þinni er nú heitið.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)
Hlín Brynjólfsdóttir.
Ómetanleg minning er grauturinn í hádeginu í Álftamýri hvern laugardag þar sem fjölskyldan kom saman og borðaði grjónagraut og nýbakað brauð sem amma og afi dunduðu sér við að baka um morguninn áður en hjörðin mætti á svæðið. Við frændsystkinin fengum hundraðkall til að kaupa bland í poka þegar búið var að borða graut og stundum setti afi okkur fyrir að leggja á minnið og fara með vísu viku síðar til þess að fá krónurnar fyrir namminu sem við eyddum svo í sjoppunni í Mýrinni. Afi gaf okkur ekki bara hundraðkall með þessum leik heldur eitthvað miklu mikilvægara, eins og vinnusemi, kjark og metnað fyrir því að klára.
Fljótin eru einn af okkar uppáhalds stöðum að koma á. Þar fórum við út á vatn í kyrrðinni með afa og veiddum fisk, það er okkar dýrmætasta minning um elsku afa. Alltaf hló hann jafn mikið þegar við æptum: „Það er á!'' og réttum honum veiðistöngina svo hann gæti dregið í land fyrir okkur.
Hlýju hendurnar hans afa sem hann rétti til okkar þegar við settumst hjá honum endurspegluðu góðmennsku hans og umhyggjuna sem hann bar í garð okkar krakkanna.
Eina vísu fór afi oft með fyrir okkur frá því við vorum börn:
Farðu hægt við folann minn
Fá'm hann reynist þægur:
hann er eins og heimurinn
hrekkjóttur og slægur.
Elsku afi, við þökkum fyrir allar þær stundir sem við höfum fengið að njóta saman og allar þær minningar sem við eigum um þig, þær eru dýrmætar.
Veronika Kristín, Hekla, Björn Ísfeld og Bryndís Huld.
Eftir að Björn lét af störfum féll honum sjaldan verk úr hendi. Hann var heilsteyptur maður, víðlesinn og fróður, og ávallt reiðubúinn til aðstoðar ef til hans var leitað. Hann kunni ógrynni af ljóðum og sögum sem hann kastaði fram allt fram í andlátið. Björn var alla tíð mikill útivistarmaður, var með hesta, lagði stund á veiðar og renndi sér á skíðum. Hann var fastagestur í sundlaugunum, hjólaði og lagði stund á blak langt fram eftir aldri.
Barnabörnum sínum hefur hann ávallt verið einstaklega góður afi, kenndi þeim vísur og ljóð, að veiða í Fljótunum og renna sér á skíðum svo eitthvað sé nefnt. Barnabörnunum hafa alltaf staðið dyrnar opnar á heimili tengdaforeldranna og hafa bæði Ragna tengdamamma og Björn ávallt reynst þeim einstaklega vel.
Björn tókst síðustu mánuði ævinnar á við hrakandi heilsu af miklu æðruleysi og kvartaði aldrei. Það var oftar en ekki stutt í glettnina. Kærleika hans og umhyggju fyrir öðrum skynjaði maður í framkomu hans og fasi.
Ég er þakklát fyrir allar þær góðu minningar sem ég á um samskipti við tengdaföður minn. Langri og farsælli ævi er lokið og í kjölfar hratt hrakandi heilsu undanfarna mánuði má að vissu leyti segja að hvíldin hafi verið kærkomin þó að söknuðurinn sé sár.
Hvíl í friði og hjartans þakkir fyrir samfylgdina.
Eiríka.
Afi var einstaklega góður skíðakennari sem þeyttist um brekkur Bláfjalla með lítinn stubb á hvorum staf og fleiri í halarófu á eftir. Hann gaf ekki eftir og það þýddi ekki að gefast upp þótt færið væri ekki gott og það hríðaði. Það þýddi ekki að biðja strax um að fara inn í skíðaskálann til að fá sér eitthvað þar. Það var reyndar aldrei farið inn í sjoppuna. Afi bauð upp á nesti þegar það passaði, einn mola í stólalyftunni og síðan var sest niður úti við og drukkið heitt súkkulaði og borðaðar samlokur smurðar af afa og ömmu. Samlokur með rúgbrauði og heilhveitibrauði með kindakæfu á milli. Afi kenndi okkur að veiða og þar með þolinmæði. Það átti að bera virðingu fyrir náttúrunni og líka fiskunum. Afi bauð upp á greipgos og tópas i bátnum þegar hlé var tekið á veiðunum. Í nestis- og veiðihléi nutum við náttúrunnar allt um kring og hlustuðum á sögur og fróðleik úr Fljótunum og yfirleitt allt sem fyrir augu bar í náttúrunni.
Afi var ekki þátttakandi í neinu gaspri eða léttúðugu spjalli. Hann stofnaði til frjórra og heimspekilegra umræðna. Hann kenndi ljóð og hvatti okkur til þess að yrkja sjálfar ungar að aldri. Útkoman var oft mjög skemmtileg. Afa var umhugað um að töluð væri góð og vönduð íslenska. Í Álftamýrinni var alltaf heilsað og kvatt á hárréttri íslensku, allar slettur voru leiðréttar um leið.
Þau afi og amma tóku fullan þátt í uppeldi okkar og þroska. Afi var umhyggjusamur og sýndi hlýju og ómælda væntumþykju á sinn einstaka hátt. Hann var okkur góð fyrirmynd sem setti fjölskylduna alltaf í forgang og fylgdist af áhuga með öllu sínu fólki.
Við kveðjum afa með söknuði en miklu þakklæti. Megi hann hvíla i friði.
Berglind, Olga Hrönn og Elín Helga Jónsdætur.
Ég mun seint gleyma því þegar ég og Olga frænka fórum með ykkur ömmu til Lech á skíði. Þegar mér var tilkynnt að mér væri boðið með sagðist ég því miður ekki komast vegna þess að ég væri að fara í æfingaferð í handboltanum til Þorlákshafnar. En sem betur fer var hægt að tala mig til og ég fór í skíðaferðina.
Fljótin eiga stað í hjörtum okkar allra í fjölskyldunni, það var sveitin þín. Þú varst alltaf svo spenntur þegar við vorum að fara að veiða og varst allt í öllu. Nú seinni árin hringdum við í þig til að láta þig vita hvernig veiðin gengi.
Börnin mín voru svo lánsöm að fá að kynnast þér. Það myndaðist sérstakt samband á milli ykkar. Þú varst alltaf svo áhugasamur um þau og vildir vera inni í þeirra lífi. Því verð ég ævinlega þakklát. Núna þarf ég að útskýra fyrir þeim hvar elsku besti langafi er og það getur stundum verið erfitt.
Takk fyrir allt, elsku besti afi minn. Ég er svo þakklát fyrir allt sem við áttum saman. Núna ertu kominn á betri stað og líður mun betur.
Þangað til næst.
Þín
Kristín Brynja Gústafsdóttir.
Þegar við lítum til baka rifjast upp allar yndislegu samverustundirnar með þér og ömmu í Álftamýrinni. Vikulegur laugardagsgrautur með stórfjölskyldunni þar sem þú settist í hægindastólinn þinn eftir grautinn og ræddir við okkur um dægurmálin og spurðir hvernig gengi í skóla og vinnu. Flatkökubakstur í bílskúrnum og ómissandi laufbrauðsbakstur fyrir jólin vekur hlýjar minningar sem og stuttar einlægar heimsóknir með spjalli um daginn og veginn. Alltaf tókuð þið amma á móti okkur með hlýju og væntumþykju. Álftamýrin var alltaf mikið athvarf og griðastaður frá amstri hversdagsins, öll vandamál voru einfaldlega skilin eftir við dyrnar þegar við gengum inn. Slík hlýja er ekki sjálfgefin og maður áttar sig á því seinna á lífsleiðinni hversu heppin við vorum að eiga þig að.
Það er ekki hægt að minnast þín án þess að hugsa til yndislegra minninga um ykkur ömmu fyrir norðan í sveitinni, þar kenndir þú okkur að leggja kapal, fórst með okkur í berjamó og að veiða silung. Þú tókst okkur einnig með þér í ófáar skíðaferðir í Bláfjöll og á Siglufjörð, þar sem þú kenndir okkur á skíði og laumaðir að okkur bláum ópal í stólalyftunni. Það er ómetanlegt að þú fékkst einnig að kynnast barnabarnabörnunum þínum og fyrir það erum við óendanlega þakklát.
Hvíl í friði elsku afi, minning þín lifir í hjörtum okkar.
Ragna Hlín og Kári Björn Þorleifsbörn.
allt með kossi vekur,
haginn grænn og hjarnið kalt
hennar ástum tekur.
(Hannes Hafstein.)
Afi Björn kunni ógrynni af vísum, ljóðum og sögum sem hann fór reglulega með fyrir mann við ýmis tækifæri. Ein af mínum fyrstu minningum er að sitja í fanginu á afa og biðja hann um að segja mér söguna um kirkjusmiðinn á Reyni en þessa sögu bað ég ítrekað um að heyra í hvert skipti sem við hittumst. Afi Björn átti langa og farsæla ævi en ég fékk þann heiður þegar ég var nemandi við Verzlunarskóla Íslands að taka viðtal við hann um ævi hans í tengslum við verkefni í íslensku. Við hittumst í nokkur skipti og afi fór yfir líf sitt, alveg frá barnsaldri og fram á efri ár en þessi tími var ein besta samverustund sem við höfum átt saman. Ég gæti í raun skrifað margar blaðsíður um þær ánægjulegu samverustundir sem við höfum átt, samverustundir sem ég er mjög þakklátur fyrir.
Hvíl í friði, elsku afi minn, og takk fyrir allt.
Ragnar Freyr.
Þegar horft er til baka er óhjákvæmilegt að hugsa til skíðaferða með afa í Bláfjöll, Skálafell eða á Sigló. Þar var hart barist um að fara með afa upp í lyftu eða í nestistíma. Það var ekki bara vegna þess að afi var frábær, fyndinn og skemmtilegur heldur lumaði hann oft á góðum mola, Werther's Original eða ópal. Þrátt fyrir að það hafi verið aukabónus þegar maður var yngri, er gaman að líta nú til baka og átta sig á að verðmætin fólust alls ekki í molanum heldur miklum gæðastundum með frábærum manni.
Við ólumst upp í mikilli íþróttafjölskyldu og má segja að afi hafi þar sett tóninn. Hvort sem um var að ræða skíði, hjól, blak, brids eða aðrar íþróttir, afi gat þetta allt. Hann hjólaði daglega í Laugardalslaug og þegar aldurinn færðist yfir stoppaði það hann ekki heldur fékk hann sér hentugra hjól til að komast leiðar sinnar.
Við bræðurnir höfum alltaf getað leitað til afa og ömmu. Á ákveðnu aldursskeiði kvarta sumir kannski undan því að fara of oft til ömmu og afa. En við bræðurnir höfum aldrei upplifað það. Hvert einasta laugardagshádegi frá því við munum eftir okkur hittist fjölskyldan í grjónagraut hjá ömmu og afa í Álftamýri og skipar „grauturinn“ stóran sess í uppeldi okkar. Að koma saman einu sinni í viku með Rögnu ömmu, Birni afa og öllum börnum, barnabörnum og seinna barnabarnabörnum þeirra er sennilega dýrmætasti fjársjóðurinn. Það er þannig ömmu og afa að þakka að stórfjölskyldan þekkist jafn vel og hún gerir í dag.
Þegar við vorum ungir var venjan að barnabörnin fengu pening fyrir „blandi í poka“ eftir grautinn í Álftamýri. Auðvitað sá afi sóknarfæri í þessum nammióðu barnabörnum sínum og setti okkur fyrir ljóð til að læra og flytja svo fyrir hann í næsta graut. Það fór að sjálfsögðu eftir aldri barna hversu erfitt ljóðið var. Þegar þú svo reyndir við ljóðið næsta laugardag fékkstu 100 krónur, ef þú þurftir að styðja þig við blað fékkstu 150 krónur og ef ljóðið var flutt blaðlaust var stundum hægt að vinna sér inn 200 krónur. Afi var að sjálfsögðu dómari í þessari keppni og sanngjarnari, glaðlegri og meira hvetjandi dómara var ekki hægt að hugsa sér. Að þessum lærdómi búum við bræður enn í dag og þegar spurt er hvers vegna í ósköpunum maður kunni ákveðin ljóð eða texta getur maður brosað, hugsað til baka og svarað: Við áttum besta afann.
Björn Orri, Ásgrímur og Hjörtur.
eigingirni og hroka.
Það er list sem læra þarf
að láta í minni poka.
(Hjörleifur Jónsson Gilsbakka.)
Afi Björn fór með þessa vísu fyrir einhverju hálfu ári. Það var eitthvað við þessa vísu sem ég tengdi alveg sérstaklega við og er afa þakklátur fyrir að hafa kynnt mér hana og ljóðskap yfir höfuð. Hann fór reglulega með alls konar ljóð og vísur sem gerðu mig undrandi og fullan aðdáunar. Ég skil ekki hvernig hann gat munað þetta allt.
Þakklæti er mér ofarlega í huga þegar ég lít um öxl og hugsa um samverustundir okkar. Þau óteljandi skipti sem ég fór eftir skóla í heimsókn og réðist á ísskápinn þeirra afa og ömmu og lagði mig svo í sófanum í stofunni eða á beddanum hans afa. Hádegið á laugardögum í Álftamýri að borða graut með stórfjölskyldunni og barnabörnin fengu hvert sinn hundraðkall til að kaupa nammi. Hversu vel afi hugsaði um fuglana sem komu í heimsókn til hans, það var alltaf eitthvað gott fyrir þá í boði. Þegar ég fékk að sitja í fanginu á afa og stýra bílnum hans í veiði í Fljótunum og síðar að keyra bílinn sjálfur undir vökulum augum hans.
Þessar minningar og fleiri mun ég varðveita allt mitt líf.
Til Reykjavíkur lagði leið
langt frá heimahögum.
Lifði út sitt æviskeið
við graut á laugardögum.
(GÓG.)
Takk fyrir allt, afi minn.
Gunnar Óli.
Í brúnni sem skrifstofustjóri í tolladeild ráðuneytisins var Björn Hermannsson lögfræðingur.
Eitt af aðalverkefnum mínum fyrstu árin var að vinna undir stjórn Björns í tolladeild ráðuneytisins. Björn var afar farsæll embættismaður, traustur, vandvirkur og sanngjarn í öllum sínum störfum, svo ekki varð að fundið. Þá var hann sjálfum sér samkvæmur í öllum embættisgjörðum og fastur fyrir ef á þurfti að halda.
Ísland hafði hinn 1. janúar 1970 gerst aðildarríki að Fríverslunarbandalagi Evrópu, EFTA, og var aðalverkefni tolladeildar ráðuneytisins að vinna að aðlögun innlends iðnaðar að fríverslun innan EFTA.
Þetta var alger bylting í samkeppnisumhverfi íslensks iðnaðar og krafðist umbyltingar á íslensku tollskránni eftir skuldbindingu okkar um niðurfellingu verndartolla á innfluttum iðnvarningi frá aðildarlöndum EFTA, samhliða niðurfellingu allra innflutningsgjalda á vélum og hráefnum til íslenskra iðnfyrirtækja til að mæta nýrri samkeppni.
Þetta krafðist jafnframt umfangsmikils samstarfs við fjölda aðila, m.a. við Félag íslenskra iðnrekenda og umfangsmikils alþjóðlegs samstarfs, bæði innan EFTA en einnig við önnur Norðurlönd.
Í raun voru þetta trúlega mestu kaflaskipti í atvinnusögu Íslendinga á 20. öld, eða frá heimskreppunni miklu, og í raun mun meiri tímamót en EES-samningurinn 1993.
Þetta verkefni var af hálfu ráðuneytisins undir stjórn Björns Hermannssonar og verður ekki annað sagt en að það hafi verið frábærlega af hendi leyst, sérstaklega ef litið er til þess hversu fámenn stjórnsýslan var á þessum árum, enda var oft unnið myrkranna á milli, oft alla daga vikunnar.
Hinn 1. janúar 1973 var Björn að verðleikum skipaður tollstjóri í Reykjavík, sem hann gegndi þar til hann lét af störfum árið 1997 eftir meira en 40 ára farsælan embættisferil.
Eftirlifandi eiginkona Björns er Ragna Þorleifsdóttur hjúkrunarfræðingur, og varð þeim fimm barna auðið.
Íslendingar almennt gera sér trúlega oft ekki grein fyrir því hve embættismenn landsins vinna oft af mikilli trúmennsku og ósérhlífni við hin erfiðustu verkefni sem stærri þjóðir hafa her manns til að leysa af hendi. Ef til vill er það vegna þeirrar athygli sem stjórnmálamenn þjóðarinnar fá á hverjum tíma og jafnvel gera kröfu til, en hræddur er ég um að lítið yrði úr þeirra „afrekum“ ef þeir ekki hefðu við að styðjast afburðafólk í Stjórnarráði og stjórnsýslu landsins, sem í raun ræður miklu meira um framvindu góðra mála og framfara landsins alls heldur en oft á tíðum stjórnmálamennirnir vilja vera láta, hvaðan svo sem úr flokki þeir koma. En þetta hefur íslensk stjórnsýsla afrekað í 100 ár eða allt frá fullveldi Íslands 1918.
Mættu stjórnmálamenn gjarnan minna þjóðina oftar á að hún stendur í mikilli þakkarskuld við stjórnsýslu landsins, sem í raun ef tekið er tillit til allra aðstæðna, er í Meistaradeild Evrópu hvað gæði og heiðarleik snertir, svo notað sé orðfæri úr íþróttaheiminum.
Í þeirri sveit frábærra embættismanna mun nafn Björns Hermannssonar skína skært um ókomin ár.
mbl.is/minningar
Þorsteinn Ólafsson.
Andri Árnason.
„Sjá, tíminn, það er fugl sem
flýgur hratt.“
(Omar Khajjam – Magnús Ásgeirsson)
Þrír aldarfjórðungar, örskotsstund sem er liðin hjá fyrr en varir. Það voru vegaskil í lífi okkar krakkanna á Siglufirði þegar við sátum bjartan og svalan haustmorgun í fyrstabekkjarstofunni í Gagnfræðaskólanum á kirkjuloftinu. Við höfðum flest verið saman í hóp síðan við vorum smábörn í barnaskólanum á Eyrinni, höfðum lokið fullnaðarprófi í maí og vorum nú hér í nýrri menntastofnun, um það bil tuttugu börn, flest ófermd enn. En það hafði bæst í hópinn. Nokkrir krakkar, sumir nokkuð langt að komnir, voru með okkur, greinilega staðráðnir í að nema þau forvitnilegu fræði sem í boði voru í þessum risháa loftsal. Meðal þeirra var piltur ljós yfirlitum, ekki ýkja hár en traustlegur, greinilega ungur maður sem veigur var í. Ég áttaði mig þegar við höfðum heilsast. Þetta var Björn frá Mói. Ég hafði oft séð föður hans og vissi að það var forn vinátta með foreldrum okkar.
Fljótt kom í ljós að þetta yrði glaðvær og skemmtilegur hópur. Við nutum samvistanna, færðumst stofu úr stofu, bekk úr bekk, glöð og áhyggjulaus þó að heimsstyrjöld geisaði og lukum gagnfræðaprófi í þann mund sem stríðinu lauk í Evrópu. Björn var þó ekki með okkur um vorið. Hann hafði síðla vetrar haldið til Akureyrar við þriðja mann til að taka próf upp í Menntaskólann. Það tókst vel en hins vegar varð hann fyrir því að missa nánast allar eigur sínar í eldsvoða utan slitur af bankabók sem hann fann er hann leitaði muna sinna í rústunum.
Ári seinna fór ég norður. Við sögðum yfirleitt norður á Akureyri þó að það væri raunar suður. Ég tók próf með Birni og við urðum samferða til stúdentsprófs. Þarna fóru í hönd æskuglaðir tímar. Við nutum þess að vera til. Svo hrönnuðust upp óveðursský er við vorum í sjötta bekk. Akureyrarveikin geisaði, þeytti sumum brott úr hópnum, skildi aðra eftir sára. Við Björn vorum ekki síður heppnir með samferðafólk á Akureyri en á Siglufirði. Ég get ekki hugsað mér betra fólk og tryggara en bekkjarsystkini okkar þar. Það skemmtilegasta og torskildasta við þau er það að þau eldast lítið, eru sömu unglingarnir og þau voru fyrir miðja síðustu öld.
Vorið 1949 var óvenju kalt, ekkert lauf á trjánum í Lystigarðinum þegar stúdentsmyndin var tekin. Og lífið sjálft beið okkar. Það kynni að næða um okkur í veröldinni þegar þryti skjól af skóla. En Björn var sami trausti drengurinn og fyrrum, farsæll háskólastúdent og heilsteyptur embættismaður sem í engu brást því sem honum var til trúað. Hann var einnig svo heppinn að eignast mannkostakonu sem var honum samboðin í einu og öllu, Rögnu Þorleifsdóttur úr Hrísey. Henni og öðrum ástvinum Björns samhryggjast bekkjarsystkinin úr MA og biðja þeim allrar blessunar.
Við sitjum sólbjartan sumardag á veröndinni hjá Birni, þrír gamlir vinir af kirkjuloftinu á Siglufirði. Fátt sem máli skiptir hefur breyst þessa örskotsstund sem flogin er hjá þó að liðnir séu rúmlega þrír aldarfjórðungar síðan við áttumst fyrst orð við.
Ólafur Haukur Árnason.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum
lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug
þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að
kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Elsku Ragna okkar. Við sendum þér og fjölskyldu þinni okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Birna, Pétur og dætur.